Ummæli um evrópskan vinnumarkað

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:22:20 (2106)

2002-12-04 18:22:20# 128. lþ. 46.16 fundur 364. mál: #A ummæli um evrópskan vinnumarkað# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:22]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki alveg rétt að við þekkjum ekki þessar reglur hér á landi, vegna þess að þegar allt kemur til alls þá býr íslenskt launafólk ekki við lakari réttindakerfi en gerist almennt á evrópskum vinnumarkaði nema síður sé og horfi ég þar til veikindaréttar, lífeyrisréttinda og margvíslegra annarra réttinda.

Íslenskur vinnumarkaður hefur verið sveigjanlegri en hinn evrópski að einu leyti, að launin hafa tekið meiri sveiflum. Þau hafa gert það og ekki höfum við alltaf verið sátt við það þegar kaupmátturinn hefur verið rýrður með gengisfellingum eins og tíðkaðist hér sérstaklega fyrr á tíð. Það hefur hins vegar með auknu jafnvægi í verðlagsþróun verið að skapast meiri staðfesta hvað þetta snertir.

En hæstv. ráðherra kom einmitt inn á þessa þætti sem gera vinnuaflið dýrt og er mörgum atvinnurekendum þyrnir í auga. Það er ráðningarfestan. Það er veikindaréttur, langt orlof og þannig mætti áfram telja. Menn hafa iðulega stillt upp tveimur valkostum, horft til tveggja átta. Annars vegar bandaríska kerfið þar sem þessi réttindi eru miklu rýrari en gerist í Evrópu og hins vegar hafa menn horft á hið evrópska kerfi. Ég held að það væri mjög illa ráðið að við færum að leggjast á sveif með þeim sem vilja brjóta niður þessi réttindakerfi og það leyfi ég mér að gagnrýna þótt ég taki hins vegar undir margt af því sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh., lýtur að gegnsæi, aðgengi almennings að upplýsingum um ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans.