Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 12:34:49 (2150)

2002-12-05 12:34:49# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[12:34]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vinnu fjárln., bæði vegna fjáraukalaga og fjárlaga, óskar nefndin eftir margvíslegum upplýsingum, ekki síst frá ráðuneytum. Þessar upplýsingar berast nefndinni yfirleitt skriflega en einnig er um munnlegar upplýsingar að ræða sem berast nefndinni þegar gestir koma og heimsækja hana. Þetta er gríðarlegt magn upplýsinga sem hefur nýst nefndinni afar vel.

Það er rétt sem komið hefur fram hjá a.m.k. tveimur hv. þm., að nefndinni hefur þótt nokkuð skorta á að upplýsingar frá ráðuneytum --- ég nefni þar ekki eitt ráðuneyti umfram annað --- bærust til nefndarinnar. Upplýsingar þeirra hafa ekki verið eins ítarlegar og ekki borist jafnhratt og við hefðum viljað. Ég tel engu að síður að þessi skortur hafi ekki hamlað afgreiðslu mála og að nefndin hafi fyllilega yfirlit yfir þau atriði sem hér eru til umfjöllunar. Ég tel, hvað varðar þá gagnrýni sem hv. þm. setur hér fram, að fulldjúpt sé í árinni tekið og tel að hann ásamt öðrum hv. þm. geti tekið þátt í málefnalegri afgreiðslu.