Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:17:39 (2173)

2002-12-05 14:17:39# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í andsvari hér áður, sem ég gat ekki svarað eins ítarlega og ég hefði viljað, kom hv. þm. Gísli S. Einarsson inn á vanda framhaldsskólanna og taldi þá upp nokkra skóla, svo sem á Vesturlandi og víðar. Víst er það að sá vandi hefur verið töluverður á undanförnum árum og menn rekja einmitt þennan vanda ekki síst til reiknilíkansins sem hér er gert að umræðuefni.

Það er hins vegar til mikillar fyrirmyndar að nú hefur þetta reiknilíkan verið tekið til endurskoðunar og lagfært verulega. Menntmrn. hefur haft veg og vanda af þessari endurskoðun í góðri sátt og samvinnu við fulltrúa framhaldsskólanna, og nú þegar horfir til breytinga á reiknilíkaninu tel ég að það sé til mikillar fyrirmyndar að við styðjum þessa endurskoðun með því að leggja fé til framhaldsskólanna, þær 70 millj. sem hér er gert ráð fyrir, og það verði þá hægt að nýta vegna nemendafjölgunar.

Hvað varðar fækkun nemenda vísa ég til menntmrn. um þá útreikninga sem þeir hafa á sinni könnu en ég hef ekki tiltæk gögn hér til þess að rekja einstaka breytingar á því sviði.