Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 14:24:56 (2337)

2002-12-06 14:24:56# 128. lþ. 48.10 fundur 414. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (viðmiðun lífeyris) frv. 141/2002, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga frá efh.- og viðskn. um breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Frv. þetta felur í sér að það verði rýmkuð heimild til þess að nýta vísitölur í þeim tilvikum þar sem fólk hefur samið um að taka lífeyri á grundvelli eftirmannsreglu. Í ákveðnum tilvikum er sú regla sem er í löggjöfinni of þröng. Þetta er til komið vegna þess að starfsmenn Íslandsbanka sem eru með sérstakan lífeyrissjóð, viðbótarlífeyrissjóð, hafa orðið fyrir því að það er mjög óhægt um vik í mörgum tilvikum að nýta eftirmannsreglu vegna mikilla breytinga sem eiga sér stað í bönkunum þessa dagana. Þess vegna mundi það henta þeim, bæði starfsmönnunum og bankanum, að það væri meira frelsi til að finna vísitölu sem hentaði til að endurspegla eftirmannsregluna rétt.

Virðulegi forseti. Þess vegna er þetta frv. flutt og ég hygg að það yrði til bóta, ekki bara í þessu tilviki heldur fyrir ýmis önnur sem upp kunna að koma.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu máli verði vísað til 2. umr. en ekki til nefndar þar sem þetta er flutt af nefnd.