Staða lágtekjuhópa

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 14:17:43 (2361)

2002-12-10 14:17:43# 128. lþ. 50.96 fundur 309#B staða lágtekjuhópa# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Árlega fer fram umræða á þessum tíma um fátækt á Íslandi og alltaf virðist það koma mönnum jafnmikið á óvart að fátækt skuli vera orðin jafnalvarlegt þjóðfélagsmein hér á landi og raun ber vitni. En þegar saman fer að fjármunir sem hinir tekjuminnstu hafa til ráðstöfunar aukast ekki í samræmi við útgjöld þeirra þá liggur í augum uppi að þeir hafa minna handa á milli og nú er svo komið að þeir sem hafa minnstu tekjurnar hafa minna en ekkert.

Atvinnulaus einstaklingur sem fær útborgað einu sinni í mánuði um 70 þús. kr. getur ekki framfleytt sér ef hann þarf að greiða húsaleigu, hvað þá ef hann á við heilsuleysi að stríða. Hann þarf að næra sig og klæða. Um annað er ekki að ræða. Slíkum einstaklingi er hins vegar algerlega fyrirmunað að taka þátt í nokkurs konar menningarlífi eða veita sér nokkurn skapaðan hlut. Hann hefur ekki efni á brýnustu nauðþurftum og þess vegna eru það ekki orðin tóm að tala um fátækt fólk.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur aftur og ítrekað lagt fram tillögur um hækkun á greiðslum almannatrygginga til að bæta kjör þeirra sem hafa minnstu tekjurnar og nú við afgreiðslu fjárlaga flutti þingflokkurinn tillögu um 115 millj. kr. framlag til þess að greiða atvinnulausum desemberuppbót eins og launafólk fær nú í jólamánuðinum. Þetta er upphæð sem nemur 36 þús. kr. á mánuði. Þessi tillaga var felld.

Hvers vegna er fátækt að aukast á Íslandi? spyrja menn. Það er vegna þess að við búum við ríkisstjórn sem ívilnar stöðugt auðmönnum, tekjuhæsta hluta samfélagsins, en þyngir róðurinn hjá hinum tekjulægri. Hv. þm. Sjálfstfl. Arnbjörg Sveinsdóttir vék að ýmsum þáttum velferðarþjónustunnar og millifærslukerfisins. Staðreyndin er sú að stjórn Sjálfstfl., fyrst í samvinnu við Alþfl. frá 1991 og síðar í samvinnu við Framsfl., hefur markvisst veikt undirstöður velferðarþjónustunnar á Íslandi. Þess vegna er kominn tími til að mynda nýja ríkisstjórn með nýjum áherslum. Það er þess vegna sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð talar um nauðsyn þess að mynda velferðarstjórn á Íslandi.