Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 16:41:17 (2382)

2002-12-10 16:41:17# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[16:41]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. um að við þurfum að haga okkar skattkerfi þannig að það sé í einhverju samhengi við það sem er í kringum okkur og öll eru skattkerfin í samkeppni hvert við annað með einum eða öðrum hætti. Við getum ekki verið með mjög mismunandi hlutfall beinna eða óbeinna skatta í samanburði við helstu nágrannalönd okkar.

Það sem ég vildi vekja sérstaka athygli á líka er að þær skattbreytingar sem orðið hafa varðandi fyrirtækin hafa skilað sér býsna vel. Ég vek athygli á því að við lokameðferð fjárlagafrv. í þinginu kom fram að tekjuskattur á fyrirtæki hefur skilað 3 milljörðum meira í tekjur fyrir ríkissjóð á þessu ári en menn höfðu reiknað með. Sú tala flyst yfir á næsta ár og þegar upp er staðið virðist sem allar þær skattbreytingar sem menn hafa verið að gera á atvinnulífinu komi til með að skila ríkissjóði hærri tekjum.

Einn skatt höfum við verið að taka upp á undanförnum árum sem var ekki hér áður og skiptir máli í þessum samanburði, þ.e. fjármagnstekjuskattinn. Þegar hann var tekinn upp kom hann inn að verulegu leyti sem skattur á tekjur einstaklinga. Það hefur að sjálfsögðu mikla þýðingu í öllum þessum samanburði.