Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 20:06:15 (2402)

2002-12-10 20:06:15# 128. lþ. 50.36 fundur 426. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (vinnutími) þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[20:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á XVIII. viðauka EES-samningsins og fella inn í hann tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/34 og einnig um breytingu á tilskipun ráðsins 93/104, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma, þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar.

Hvað varðar efnisatriði þessarar ákvörðunar vil ég eins og áður vísa til greinargerðarinnar sem fylgir tillögunni og gerðarinnar sjálfrar en það er ætlað með þessum ákvörðunum að fella nokkrar fleiri starfsstéttir undir gildissvið svokallaðrar vinnutímatilskipunar. Þannig mun ákvæði hennar taka t.d. til lækna í starfsnámi, þeirra sem starfa við flutninga á vegum ásamt þeim sem vinna á sjó og í flugi.

Í tilskipuninni er þó gert ráð fyrir að margvíslegar undanþáguheimildir frá reglum vinnutímatilskipunarinnar gildi enn varðandi þessa hópa. Einnig er veittur sérstakur frestur á innleiðingu ákvæða varðandi unglækna, allt að átta árum.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.