Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 21:32:16 (2420)

2002-12-10 21:32:16# 128. lþ. 50.10 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv. 151/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[21:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég skrifa undir álit meiri hluta efh.- og viðskn. með fyrirvara og geri grein fyrir honum hér og nú.

Þetta mál um Lífeyrissjóð sjómanna er nokkuð sem er vel þekkt innan þingsins og því miður er stutt síðan við fjölluðum um það hér þar sem þurfti að taka á því að það var halli miðað við heildarskuldbindingar sjóðsins á þeim tíma, 1999, og enn erum við að taka á vandamálum þessa sjóðs. Það er auðvitað mikilvægt í huga okkar sem þurfum að taka afstöðu til þessa máls að það hefur verið þrautskoðað af Lífeyrissjóði sjómanna og sjómannafélögunum, og það er ljóst að þetta frv. er lagt fram að beiðni stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna. Það miðar að því að bæta stöðu sjóðsins þannig að hann standi undir skuldbindingum sínum í samræmi við tryggingafræðilega úttekt og lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í mínum huga er það afar mikilvægt að sú leið sem hér er farin skerði ekki réttindi þeirra sem þegar eru komin á lífeyri. Hér er um töluvert mikla skerðingu á réttindum að ræða. Hún á að skila bata á stöðu sjóðsins um 6,2 milljarða kr., að vísu á löngum tíma, og miðað er við að heildarskuldbindingarnar lækki úr 8,8% í 1,6%.

Ég horfi mjög til umsagnar sem nefndin fékk frá Lífeyrissjóði sjómanna þar sem þessi saga er nokkuð rakin og farið yfir það hvaða leiðir voru í stöðunni. Þar kemur fram að það hafi verið samstaða innan stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna um framkomnar tillögur til breytinga á lögum sjóðsins. Aðrar leiðir en breytingar á makalífeyri hafa verið ræddar, leiðir sem lagðar eru til samkvæmt tillögu tryggingafræðings sjóðsins, sérstaklega þar sem makalífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði sjómanna eru betri en þekkist í almennum lífeyrissjóðum, eins og segir í þessari umsögn.

Síðan er það nefnt að slíkar breytingar þyki sanngjarnari en flöt skerðing á réttindum og áhersla er lögð á að það skerði ekki réttindi þeirra sem hafa áunnið sér rétt til lífeyris.

Síðan nefna þeir að um sé að ræða svokallað sólarlagsákvæði sem þýðir að breytingarnar gerast á löngum tíma en áhrif þeirra á heildarskuldbindingar sjóðsins reiknast strax í tryggingafræðilegri úttekt. Þannig næst fram bati um rúma 6 milljarða kr. því að áhrif breytinganna eru reiknuð mjög langt fram í tímann.

Maður veltir auðvitað fyrir sér hvort hér sé um einhverja skammtímaaðgerð að ræða sem við munum fá á okkar borð innan ekki margra ára. Þegar forustumenn sjóðsins sem mættu á fund nefndarinnar voru spurðir þeirrar spurningar var svar þeirra nei, að ekki þyrfti að búast við því. Ástæða þess að svo hallaði undan fæti hjá sjóðnum, þrátt fyrir þær breytingar sem voru gerðar á árinu 1999 --- en þá var um að ræða að öll réttindi voru lækkuð um 11,5% --- var, að því er sagt er í þessari umsögn, að ávöxtun ársins 1999 hefði verið góð, 12,5% hjá Lífeyrissjóði sjómanna, en hefði verið neikvæð síðan, um 0,3% árið 2000 og 1,6% árið 2001. Þeir nefna jafnframt að ávöxtun ársins 2002 muni ekki verða góð. Og það eru greinilega meginástæður þess að hallinn sem sjóðurinn stendur frammi fyrir núna er svo mikill.

Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða mikið um að það er erfið leið að þurfa að skerða réttindi í Lífeyrissjóði sjómanna eina ferðina enn en þær leiðir sem valdar hafa verið eru þær sem hafa kannski mildilegust áhrif. Við spurðum, í vinnu efh.- og viðskn. um þetta mál, hvað þyrfti að hækka iðgjald til lífeyrissjóðsins mikið til þess að ekki þyrftu að koma til skerðingar á réttindum og réttindin yrðu óbreytt. Þá kom fram að hækka þyrfti 10% iðgjald í 13% til að rétta stöðu sjóðsins af ef réttindin ættu að vera óbreytt. Það væri þá um 570 millj. kostnaður á útgerðina að því er nefnt var á fundi nefndarinnar.

Við viljum auðvitað horfa á allar færar leiðir til að rétta stöðu sjóðsins. Þessi leið liggur á borðinu og það verður ekki hjá því komist að styðja hana. En maður veltir fyrir sér því sem margoft hefur verið rætt í þingsölum, var rætt líka í nefndinni og hv. 4. þm. Vestf. hefur mjög rætt, t.d. úr þessum ræðustól, þeirri þungu byrði sem hvílir á sjóðnum vegna örorkulífeyris. Við fengum yfirlit yfir hann í nefndinni og þar komu fram mjög sláandi tölur sem hv. 4. þm. Vestf. reyndar nefndi úr þessum ræðustól þegar málið var hér til 1. umr. Það er enn meira sláandi að fá þetta hér á blaði. Eins og þá var nefnt er hlutfallið varðandi örorkuna þannig að um 43% af gjöldum sjóðsins fara í greiðslu örorkubóta. Það er ekki eins hátt hlutfall hjá neinum öðrum sjóði og hér er tekið meðaltal af 54 lífeyrissjóðum samtals. Það sem fer til greiðslu örorkubóta er að meðaltali um 16% þegar allir sjóðirnir eru teknir saman en við erum að tala um að hjá Lífeyrissjóði sjómanna fari 43% til greiðslu örorkubóta.

Mér finnst, herra forseti, að það þurfi að skoða þessa þungu byrði sem er á sjóðnum eina og sér og reyna að finna á henni einhverja lausn. Það er alveg ljóst, miðað við það sem fram hefur komið og þá þungu byrði sem er á sjóðnum varðandi örorkulífeyri, að það verður að taka á þessu sérstaklega og einangrað. Það eru miklu fleiri sem fara á örorku í hópi sjómanna en hjá öðrum stéttum og það kallar auðvitað á það, herra forseti, að það mál sé skoðað alveg sérstaklega. Ég hvet til þess að það verði gert í samráði við samtök sjómanna og Lífeyrissjóð sjómanna.