Útflutningsaðstoð

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 22:24:37 (2428)

2002-12-10 22:24:37# 128. lþ. 50.15 fundur 429. mál: #A útflutningsaðstoð# (heildarlög) frv. 160/2002, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[22:24]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. fyrir hönd efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um útflutningsaðstoð. Mál þetta snýst fyrst og fremst um að framlengja gjaldstofn Útflutningsráðs, markaðsgjaldið, um fimm ár, frá 1. janúar 2003 til 1. janúar 2008, en lagaheimild fyrir þessari gjaldtöku rennur út um næstu áramót.

Enn fremur eru í þessu frv. gerðar nokkrar breytingar á starfsháttum Útflutningsráðs, þó fyrst og fremst í því skyni að samhæfa betur starfsemi Útflutningsráðs og Viðskiptaþjónustu utanrrn. Þá er enn fremur í frv. gert ráð fyrir sérstöku samstarfi við þá aðila er vinna að markaðssetningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta, og á að ráðstafa 14% af markaðsgjaldi til þessarar starfsemi.

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið rætt á vettvangi Útflutningsráðs og þeirra aðila sem að því standa, þeirra aðila sem nýta sér þjónustu ráðsins. Enn fremur hefur málið að sjálfsögðu verið rætt við Viðskiptaþjónustu utanrrn. Um þetta mál er allgott samkomulag. Efh.- og viðskn. gerir því það að tillögu sinni að frv. verði samþykkt óbreytt.