Vitamál

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 23:55:38 (2451)

2002-12-10 23:55:38# 128. lþ. 50.22 fundur 258. mál: #A vitamál# (vitagjald, sæstrengir) frv. 142/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[23:55]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er að mörgu leyti um eðlilegar lagfæringar að ræða með breytingu á vitagjaldi. Ég vil þó vekja athygli á að við þingmenn höfum á borðum okkar tvö mál sem snúa að gjaldtöku miðað við brúttórúmlestir, eða stærð skipa. Hér er talað um brúttótonn og reyndar er líka talað um brúttótonn í frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

Það sem ég vil hins vegar vekja athygli á, herra forseti, er að í þessu frv. um vitamálin er sett lágmarksupphæð á gjaldið, þ.e. það getur ekki orðið lægra en 3.500 kr. samkvæmt frv. Það var áður 3.000 kr. Almennt leggjast 78,20 kr. á hvert brúttótonn en gjaldið fer þó ekki lægra en 3.500 kr. Auðvitað má segja að ekki neitt óeðlilegt við að menn greiði eitthvert lágmarksgjald fyrir að njóta þeirrar þjónustu sem Siglingastofnun veitir varðandi vitana. Þá er rétt að vekja athygli á því að á undanförnum árum hefur Siglingastofnun bætt mikið upplýsingaþjónustu við sjófarendur, fiskimenn sérstaklega, með því að koma sér upp upplýsingaduflum, sjóduflum sem mæla veður og sjólag. Þar er síðan hægt að nálgast upplýsingar, einfaldlega með því að hringja í viðkomandi símanúmer og ná svo sambandi við viðkomandi dufl til að fá upp bæði ölduhæð, vindhraða og líka sveiflutíma á milli aldna. Þetta er mikið öryggisatriði varðandi sjósókn, sérstaklega fyrir minni fiskiskip. Með þessum upplýsingum má hreinlega meta hvort sjólag er vaxandi eða að ganga niður.

Ég tel að margt sem Siglingastofnun hefur verið að gera að þessu leyti sé til mikillar fyrirmyndar. Ég tel að þær upplýsingar sem menn eiga kost á núna við að stunda fiskveiðar og sjósókn hafi verið til mikilla bóta á undanförnum árum.

Hins vegar verður að halda við landvitunum, þ.e. vitum sem eru útverðir á hornum landsins, ef hægt er að segja svo, á Látrabjargi, Hornbjargi, Reykjanesi, Snæfellsnesi, Langanesi og fleiri vitum sem eru staðsettir á annesjum eða skerjum. Þessum vitum og byggingum þarf eðlilega að halda við. Ég vek athygli á því að tryggja þarf að þeim vitabyggingum, t.d. á Hornbjargi, sé haldið við. Það er mikilvægt að hinar miklu byggingar við Hornbjargsvita séu ekki látnar grotna niður heldur veitt fé til viðhalds á þeim. Þetta er auðvitað áfangastaður og í raun hluti af öryggisneti ferðamanna, t.d. yfir sumartímann ef eitthvað bjátar á í veðri eða öðru slíku. Þarna þarf að vera athvarf ef á þarf að halda. Ég teldi mikinn skaða ef þessi húsakynni yrðu látin drabbast niður. Ég vildi þess vegna vekja athygli á því við þessa umræðu. Það þarf að tryggja með einhverjum hætti að þessar fasteignir haldi gildi sínu og verðmætin séu þar af leiðandi nýtanleg þegar á þarf að halda.

Ég vil minna á frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Við erum með lágmarksgjald í vitamálunum, þ.e. allir verða að borga eitthvert lágmarksgjald fyrir þessa notkun. En því er öfugt farið í þróunarsjóðsgjöldum. Þar erum við með hámarksgjald, þ.e. við leggjum þar gjald á hvert brúttótonn stærðar skips. En þegar skip eru komin upp í ákveðinn brúttótonnafjölda, sem gaf í eldri lögum 387 þús. og fer í 410 þús., stöðvast það þar þó að skipin séu miklu stærri og hafi tekjur langt umfram mörg önnur skip. Það vill nú þannig til að mörg af okkar stærstu og öflugustu skipum hafa jafnframt mestar tekjurnar.

Ég vek athygli á þessu, herra forseti, vegna þess að mér finnst gæta mjög mikils ósamræmis í þessari útfærslu. Mér finnst eðlilegt að þar sé lágmarksgjald líkt og í vitamálunum. Það nota allir þessa þjónustu og þar greiða menn lágmarksgjald, gjald sem er einhvað að lágmarki. Með sama hætti hefði ég talið að í þróunarsjóðsgjaldinu væri ekkert hámark en lágmark þannig að allir greiddu ákveðna upphæð í sjóðinn. Þar er gjaldtakan alveg öfug, herra forseti. Ég kem raunar í ræðustól til að vekja athygli á því að það er ákaflega lítið samræmi í útfærslu ríkisins á gjaldtöku í þessum málum. Þótt bæði gjöldin sé miðuð við brúttótonn, stærð skipa, og ætluð til ákveðinna verkefna, annað í viðhald vita, hitt í eftirlit með fiskveiðum, er útfærslan sitt á hvað.