Meðferð opinberra mála

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:10:18 (2499)

2002-12-11 16:10:18# 128. lþ. 52.3 fundur 328. mál: #A meðferð opinberra mála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:10]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Eins og fram kemur í fyrirspurninni hef ég vikið að því að fram fari heildarendurskoðun laga um meðferð opinberra mála. Hefur réttarfarsnefnd það verkefni með höndum. Tilefni endurskoðunar er í fyrsta lagi að lögin hafa tekið miklum breytingum frá því að þau voru sett árið 1991. Er raunar hægt að fullyrða að engin önnur réttarfarslög hafi tekið jafnmiklum breytingum.

Í öðru lagi er þróunin mjög ör og ný úrræði að líta dagsins ljós. Í þessu sambandi verður að fylgjast grannt með hvað er að gerast erlendis og þá sérstaklega á Norðurlöndum. Í ljósi þessa er verið að fara yfir lögin í heild og til að komast hjá því að þau verði stagbætt um of. Fyrir liggur að hér er um viðamikið verkefni að ræða og verður því ekki lokið í einni hendingu. Vil ég benda á nokkur atriði í því sambandi.

Vanda verður til verksins og hafa ríkulegt samráð við þá aðila sem að framkvæmdinni koma. Er slíkt mjög tafsamt þótt kostirnir við slíkt samráð séu augljósir.

Þá verður að hafa í huga að undanfarin ár hafa verið gerðar viðamiklar breytingar á lögunum. Nefna má endurskoðun á ákvæðum um ákæruvald árið 1996. Þá voru gerðar viðamiklar breytingar á lögunum árið 1999 þegar staða brotaþola var styrkt til muna og aðrar lagfæringar gerðar sem ekki þoldu bið. Árið 2000 voru síðan sett í lögin ákvæði um nálgunarbann og var það mikil réttarbót fyrir þá sem sæta ofsóknum eða ógnunum. Þannig hafa lög um meðferð opinberra mála tekið breytingum í samræmi við þarfirnar á hverjum tíma. Er því alls ekki hægt að segja að þau séu úrelt á nokkurn hátt. Markmið endurskoðunar er því að fara yfir lögin og gefa þeim heildstæða mynd. Þó geri ég þann fyrirvara að vissulega gæti verið þörf á breytingum bráðlega til samræmis við þróun hér á landi og annars staðar.

Ný vandamál hafa knúið dyra og þau kalla á ný úrræði. Nefni ég þörfina á vitnavernd í því sambandi. Nauðsynlegt er að bjóða vitnum þá vernd sem þau þarfnast og tel ég brýnt að sett verði í lögin ný úrræði á þessu sviði, t.d. hvað varðar nafnleynd. Af hálfu ráðuneytisins hefur náið verið fylgst með þessum málum á norrænum vettvangi og legg ég ríka áherslu á að við getum verið samstiga grönnum okkar í þessu sambandi. Þetta eru hins vegar atriði sem réttarfarsnefnd er einnig að íhuga og vænti ég þess að hún leggi fram tillögur um þetta atriði þegar þar að kemur.

Mér þótti rétt að fara nokkuð yfir þau atriði sem réttarfarsnefnd er að skoða í þessari heildarendurskoðun en auðvitað er það þannig að nefndin hefur á síðustu missirum fjallað um þennan lagabálk. Í því sambandi hefur hún fengið í veganesti mál sem komið hafa upp í umræðum á Alþingi þótt ég hafi ekki tilbúinn lista þar að lútandi. En þau mál sem hv. fyrirspyrjandi ræðir um hér í tengslum við þessa fyrirspurn eru að sjálfsögðu þar til skoðunar að sama skapi.

Það er úrvalslið sem skipar réttarfarsnefndina. Því er ekki að neita að ég hef mikinn áhuga á að sjá tillögur frá þeim sem fyrst. Ég get að vísu ekki fullyrt um það núna hvenær þessari vinnu lýkur en ég vænti þess að það verði innan tíðar og vonast svo sannarlega til þess.