Meðferð opinberra mála

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:14:00 (2500)

2002-12-11 16:14:00# 128. lþ. 52.3 fundur 328. mál: #A meðferð opinberra mála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:14]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessi svör. Ég efast ekkert um að þarna er á ferðinni úrvalslið í þessari nefnd og ég efast heldur ekki um að það þurfi mikið og rækilegt starf til að fara yfir allan lagabálkinn og gera á honum nauðsynlegar endurbætur. Það sem ég er að fjalla um tel ég vera mannréttindi, og það er hæg leið að gera breytingar á lögunum til að leiðrétta það sem aflaga hefur farið á mjög einfaldan hátt. Ég féllst hins vegar á það að málinu yrði vísað til réttarfarsnefndar eða þessarar endurskoðunarnefndar í trausti þess að hún skilaði fljótlega af sér. Ég tel að þetta mál þoli enga bið.

Ákvörðun handhafa ríkisvaldsins um að ákæra einstakling fyrir refsiverðan verknað er að sjálfstöðu stór ákvörðun. Leiði ákæran til sakfellingar getur slíkt verið mikið áfall fyrir þann sem fyrir verður og að mínum dómi eru þau rök ekki til og þeir þjóðfélagslegu hagsmunir ekki heldur sem réttlæta lagareglu sem takmarkar rétt sakfellds manns til þess að bera sakfellinguna undir dómara á æðra dómstigi. Að mínu mati eru rökin fyrir óheftum áfrýjunarrétti sakfelldra manna í opinberum málum svo sterk að önnur rök verða að víkja. En ég ítreka að Hæstiréttur getur meinað einstaklingi að áfrýja til réttarins ef tilteknum skilyrðum er ekki fullnægt, t.d. ef sektin er undir 400 þús. kr. 400.680 kr. stendur það í núna. Mér finnst hreinlega ekki ganga að það sé nánast háð duttlungavaldi Hæstaréttar hvort ég fæ að áfrýja máli til réttarins. Þetta stenst ekki jafnræðisreglu og ekki mannréttindi að mínum dómi þótt þetta sé fast bundið í landslög. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða tvo kosti, annars vegar að taka þessi tilteknu lagaákvæði og koma með þau fyrir þingið eða sjá til þess að réttarfarsnefnd skili af sér á næstu vikum þannig að við getum gert lagabreytingar á þessu þingi.