Byggðamál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:42:24 (2510)

2002-12-11 16:42:24# 128. lþ. 52.8 fundur 416. mál: #A byggðamál# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra var með fögur orð um framkvæmd byggðaáætlunar sinnar og var stolt yfir henni. Staðreyndin er sú að ekkert nýtt fé kemur inn í byggðaáætlun. Meira að segja brýtur hæstv. ráðherra þá ályktun sem meiri hluti Alþingis gerði við samþykkt byggðaáætlunar varðandi eignarhaldsfélögin. Formaður þingflokks framsóknarmanna hefur upplýst að það hafi ekki einu sinni verið borið undir þingflokkinn að leggja eignarhaldsfélögin niður. Í samþykktinni sem gerð var við síðustu byggðaáætlun stendur, með leyfi forseta:

,,Nefndin [þ.e. meiri hluti iðnn.] telur jafnframt mikilvægt að styrkja varanlega rekstur atvinnuþróunarfélaganna ásamt eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða.``

Hvað hefur verið gert? Eignarhaldsfélögin voru lögð niður og atvinnuþróunarfélögin fá skert fjármagn þrátt fyrir óbeint vilyrði hæstv. ráðherra. En ekkert stendur eftir.