Byggðamál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:45:57 (2512)

2002-12-11 16:45:57# 128. lþ. 52.8 fundur 416. mál: #A byggðamál# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:45]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það var eins gott að hv. þm. kom fram með þessa fyrirspurn því að þarna er algjör grundvallarmisskilningur uppi. Að sjálfsögðu blanda ég mér ekki inn í mál sem heyra undir önnur ráðuneyti. (Gripið fram í: Jú.) Nei, það er bara ekki þannig í stjórnsýslunni að ég geri það ekki. Ég hef þau mál sem heyra undir iðn.- og viðskrn. og ég ber ábyrgð á þeim en ég ber ekki ábyrgð á öðrum ráðuneytum. Hins vegar er nefnd ráðuneyta starfandi eins og ég gat um í mínu svari áðan þannig að þetta er, held ég, aðalatriðið.

Það sem ég vil líka koma hér að er að það er aðalatriðið að ná árangri. Það er hægt að hafa mörg orð um það hvernig byggðaáætlun er sett upp og hvort átti að setja hana einhvern veginn öðruvísi upp. (Gripið fram í.) Hins vegar er aðalatriðið að ná árangri og það er fjallað um aðerðir í 22 liðum í þessari byggðaáætlun og þó að ályktunin sjálf sé ekki útskýrð í þaula byggist hún á greinargerðinni og greinargerðin skiptir þess vegna svo miklu máli.

Hvað varðar það sem hv. þm. sagði um eignarhaldsfélög er ekki getið um eignarhaldsfélög í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir þessi fjögur ár. Hins vegar er rétt að það kom fram í nál. að þau skyldu vera áfram í rekstri. Ég skal þó viðurkenna að ég áttaði mig ekki á því fyrr en löngu seinna að þetta orð kæmi fyrir í þessu nál. Það var löngu ákveðið að eignarhaldsfélög, sem var ágætisverkefni út af fyrir sig, væru tímabundið sett á laggirnar. Það er ekki lengur til staðar. Hins vegar verður varið milljarði króna í nýsköpun atvinnulífs á landsbyggðinni og það er mikilvægara að mínu mati vegna þess að eignarhaldsfélögin hafa ekki nýst veikustu byggðunum nægilega vel, eins og fyrir vestan.

Ég segi það aftur að ég tel að þessi byggðaáætlun sé mikils virði. Hún er gagn sem ríkisstjórnin byggir starf sitt á og hún er þegar farin að skila árangri.