2002-12-12 10:32:14# 128. lþ. 54.94 fundur 316#B samræming réttinda opinberra starfsmanna og félaga innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[10:32]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir ári síðan var gert heildarsamkomulag við aðila vinnumarkaðarins um frestun endurskoðunarákvæða kjarasamninga. Í tengslum við gerð þessa heildarsamkomulags lagði hæstv. fjmrh. fram yfirlýsingu þess efnis að kjör starfsmanna hins opinbera yrðu jöfnuð þannig að þeir starfsmenn sem eru í aðildarfélögum ASÍ nytu sömu réttinda og þeir starfsmenn sem eru í stéttarfélögum opinberra starfsmanna en þar er verulegur munur á, t.d. hvað varðar veikindarétt, slysatryggingar, orlofsrétt en ekki hvað síst lífeyrisréttindi þar sem munurinn er mjög mikill og getur numið allt að 55% á verðmæti lífeyrisréttinda milli þessara hópa þótt báðir vinni hjá ríkinu, auk ríkisábyrgðar. 10% eru greidd í lífeyrissjóði félagsmanna innan ASÍ sem starfa hjá ríkinu, starfsmaðurinn greiðir 4% en vinnuveitandinn 6%. 15,5% eru hins vegar greidd af launum opinberra starfsmanna í A-deild lífeyrissjóða. Þar af greiðir starfsmaðurinn 4% en ríki og sveitarfélag 11,5%.

Allt frá því að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins tóku gildi hafa starfsmenn ríkisins sem eru félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ verið ríkisstarfsmenn þar sem lögin ná jafnt til þeirra sem og þeirra starfsmanna sem eru í opinbera geiranum eða í félögum opinberra starfsmanna. Þessari breytingu fylgdu viðbótarskyldur fyrir þá starfsmenn sem eru í aðildarfélögum ASÍ en starfa hjá ríkinu. Skyldurnar eru þær sömu fyrir ríkisstarfsmanninn hvort sem hann er aðildarfélagi að ASÍ eða í stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Því átti að sjálfsögðu að fylgja að þau réttindi sem lögin fela í sér giltu jafnt fyrir þessa starfsmenn, og að ríkinu sem atvinnurekanda yrði gert að virða ákvæði stjórnsýslulaga og gæta jafnræðis gagnvart starfsmönnum sínum. Það gekk hins vegar ekki eftir. Því lögðu fulltrúar ASÍ áherslu á það í viðræðum aðila vinnumarkaðarins fyrir ári síðan um frestun endurskoðunarákvæða kjarasamninga að frá því yrði gengið að kjör starfsmanna ríkisins væru jöfn hvort sem viðkomandi væri í stéttarfélagi innan ASÍ eða í félögum opinberra starfsmanna. Hæstv. fjmrh. gaf út yfirlýsingu þess efnis sem átti stóran þátt í því að samkomulag náðist.

Á morgun er heilt ár frá því að hæstv. ráðherra gaf þessi fyrirheit og ekkert bólar á efndum. Þrátt fyrir fjölda funda fulltrúa ASÍ með embættismönnum og ráðherrum þar sem ASÍ hefur lagt fram ítarlegar tillögur um málsmeðferð hefur ekkert gerst. Þeir embættismenn sem á fundina mæta af hálfu ríkisvaldsins mæta þar umboðslausir eins og fram kemur í leiðara í fréttablaði stéttarfélagsins Eflingar í nóvember sl. En félagsfundur Eflingar haldinn í október sendi hæstv. fjmrh. eftirfarandi áskorun, með leyfi forseta:

,,Við gerð samkomulags aðila vinnumarkaðarins 13. desember 2001 var lögð fram yfirlýsing af hálfu fjármálaráðherra, Geirs H. Haarde, þar sem fjallað er um jöfnun réttinda launafólks innan ASÍ við kjör félagsmanna í stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Þrátt fyrir að upp undir ár sé frá því að fjármálaráðherra gaf út yfirlýsinguna hefur ekkert gerst í málinu. Þrátt fyrir fjölda funda ASÍ með embættismönnum og ráðherrum er málið enn þá á byrjunarreit.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra var fullkomlega ljóst hvað sú yfirlýsingin þýddi. Hún var ákveðið fyrirheit um jöfnun réttinda. Enn fremur er skýrt að yfirlýsingin var gefin í tengslum við heildarsamkomulag aðila vinnumarkaðarins um frestun endurskoðunarákvæða kjarasamninga. Launafólkið hefur staðið við sinn hluta af yfirlýsingunni. Það stendur upp á ráðherra að framfylgja því loforði sem hann gaf. Þær tillögur sem lagðar hafa verið fram af hálfu ríkisins á fundum með ASÍ eru í engu samræmi við fyrirheitin sem gefin voru. Geir H. Haarde gaf loforð um framtíðarlausn en embættismenn hafa síðan mætt umboðslausir á fundi með samningamönnum ASÍ. Við þetta verður ekki unað.

Félagsfundur Eflingar skorar á fjármálaráðherra að standa við yfirlýsinguna frá 13. desember 2001. Ráðherra í ríkisstjórn Íslands verður að standa við yfirlýsingar sem hann gefur samtökum á vinnumarkaði. Hann ber ábyrgð á því að niðurstaða verði í málinu.``

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessa áskorun og spyr hæstv. ráðherra: Telur ráðherra það verjandi að starfsmenn hins opinbera búi við mismunandi réttindi eftir því hvort þeir eru í stéttarfélögum opinberra starfsmanna eða aðildarfélögum ASÍ, t.d. hvað varðar veikindarétt og lífeyrissjóð, þannig að allt að 55% munur getur orðið á verðmæti lífeyrisréttinda þessara starfsmanna, auk ríkisábyrgðar? 13. desember 2001 gaf fjmrh. út yfirlýsingu um jöfnun þessara réttinda starfsmanna ríkisins sem eru innan ASÍ við kjör félagsmanna í stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Hvað hefur verið gert af hálfu fjmrh. til að standa við þessi fyrirheit og hvenær má þess vænta að staðið verði við gefin loforð?