2002-12-13 00:40:10# 128. lþ. 56.4 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[24:40]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það hefur kannski ekki mikið upp á sig að þrasa um þessar tölur en mér virðist, m.a. af því að hæstv. ráðherra tekur tölurnar og greiðslurnar frá ríkinu inn í jöfnunarsjóðinn í tengslum við þetta mál með inn í samlagninguna og fær þannig út hærri tölu á næsta ári, að hann sé að leggja saman framlög sem koma frá ríkinu af ýmsum mismunandi tilefnum og segi: Þar með er búið að borga allan hallann sem skapaðist af verkaskiptingunni og yfirtöku grunnskólans og öllu því sem tekjustofnanefndin á sínum tíma mat upp á 4 milljarða á þágildandi verðlagi árið 2000. Það efast ég um að sé nákvæm stærðfræði. Auk þessa standa fullyrðingar móti fullyrðingum um hver þessi vandi í raun og veru er.

Varðandi fólksfækkunarframlögin, ef ég má koma því að, held ég að mörgu leyti að það sé skynsamlegt að búa um þau í tekjujöfnunarpakkanum. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hæstv. ráðherra að það mundi verka hjákátlega ef mjög tekjuhá sveitarfélög, þar sem einhver minni háttar fólkfækkun yrði, fengju stóran hluta þessara framlaga af því að þau væru reiknuð á íbúa en ekki tengd við tekjur eða tekjufallið sem slíkt eða hina raunverulegu tekjustöðu sveitarfélagsins þegar allt væri gert upp. Að því leyti getur vel verið að skynsamlegast sé að hafa pósitíf ákvæði um það, annaðhvort í kaflanum um sérstöku framlögin eða útgjaldajöfnunarframlögin. Ég hefði gjarnan viljað sjá að það væri algjörlega á hreinu að það væri ótvíræð lagaheimild inni í lagatextanum sjálfum til að greiða slík framlög og það þyrfti ekki að koma til neinna deilna um að þau ákvæði mætti síðan útfæra í reglugerð.