Tekjustofnar sveitarfélaga

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 10:53:24 (2734)

2002-12-13 10:53:24# 128. lþ. 57.5 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[10:53]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég flyt brtt. á þskj. 691. Fyrri töluliður þeirra brtt. fjallar um að sett verði inn í d-lið 11. gr. pósitíft ákvæði sem taki af allan vafa um að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sé heimilt að greiða framlög til sveitarfélaga sem verða fyrir óvænt breyttum aðstæðum og breytingu á afkomu svo sem vegna fólksfækkunar. Þannig framlög hafa verið greidd á umliðnum árum en þó ekki alltaf, og á því ári sem nú er að líða voru engin slík framlög greidd þannig að þau sveitarfélög sem hafa orðið fyrir áföllum af þessum toga fá þá ekki framlög í ár. Mér finnst það ekki nægjanlega skýrt hvort heimildir verða til greiðslu slíkra framlaga á grundvelli frv. ef það nær fram að ganga óbreytt. Í nál. endurskoðunarnefndar er kveðið á um að slík tekjujöfnunarframlög vegna fólksfækkunar mætti greiða sem hluta af útgjaldajöfnunarframlögum en af orðalagi frv. sjálfs verður ekki ráðið hvort ótvírætt sé að fullnægjandi lagastoð væri þá til handa ráðherra að setja í reglugerð ákvæði um slíkt. Mér finnst því frágangur málsins ekki vera eins skýr og æskilegt væri, a.m.k. þyrfti að flytja þá einhvers konar lögskýringu sem tæki af vafa um það í formi álits eða yfirlýsingar frá hæstv. ráðherra.

Ég vil hins vegar á engan hátt verða til þess að draga úr möguleikunum á að þetta verði og kalla því til baka fyrri tölulið brtt. minna á þskj. 691 þar sem það væri varla málinu til framdráttar að tillaga um beina heimild inn í lögin um greiðslu slíkra framlaga yrði felld í atkvæðagreiðslu. Ég áskil mér hins vegar rétt til þess að taka málið upp við 3. umr. ef ekki finnst á því viðhlítandi lausn.