Tekjustofnar sveitarfélaga

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 10:56:42 (2735)

2002-12-13 10:56:42# 128. lþ. 57.5 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[10:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þó að báðir litirnir séu nú fallegir, rauður og grænn, hefði ég haldið að hæstv. ráðherrum hefði í þetta skiptið verið óhætt að halda sig við græna litinn eins og þeir voru komnir inn á sumir hverjir. Þessi tillaga er að mínu mati um ósköp sanngjarna lagfæringu á þessu ákvæði til bráðbirgða sem felur það í sér að svonefnd stofnkostnaðarframlög til sveitarfélaga með færri en 2.000 íbúa vegna framkvæmda sem tengjast breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á umliðnum árum verði ekki höggvin af með jafnskjótum hætti og frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að þau standi aðeins í tvö ár. Það skapar núverandi sveitarstjórnum sem hafa nýhafið kjörtímabil mjög lítið svigrúm til þess að skipuleggja framkvæmdir sínar innan þessa tíma og getur að mínu mati leitt til óeðlilegs óðagots, að menn reyni að hefja framkvæmdir í skyndi til þess að eiga rétt á þessum greiðslum. Ég held að það væri eðlilegra að láta þann aðlögunartíma sem menn hafa í þessu sambandi falla í grófum dráttum saman við kjörtímabil núverandi sveitarstjórna. Um það fjallar þessi brtt., að í grófum dráttum verði aðlögunartímabilið fjögur ár í staðinn fyrir tvö.