Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 13:19:20 (2769)

2002-12-13 13:19:20# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[13:19]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. telur greinilega að með því að tyggja sömu tugguna nógu oft þá fari almenningur að trúa því. Og að tryggja þá tuggu endalaust að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sé á móti hlutafélagaforminu er rangt. Eins og fram kemur í nefndaráliti okkar --- mér gengur mjög erfiðlega að koma þessu til skila til hæstv. iðnrh. vegna þess að hún vill greinilega ekki meðtaka það. Við segjum að í velferðarþjónustu og stoðkerfi viljum við hafa félagslegan rekstur. Hitaveita, rafveita og vatnsveitur eru stoðkerfismál. Hver lætur sér detta í hug að hafa áhyggjur af því að ekki verði afhent rafmagn, heitt vatn eða kalt vatn? Málið snýst ekki um það. Málið snýst um að reynsla annarra af hlutafélagavæðingu þar sem menn vilja fá hámarksarð er klár. Hún er sú að verðlagning þjónustunnar hækkar eðli málsins samkvæmt. Við getum borið okkur saman við löndin í kringum okkur, Svíþjóð, Noreg og fleiri lönd, verðlagningin fer upp og það er ekkert óeðlilegt vegna þess að í 6. gr. er beinlínis getið um það að gætt skuli almennra arðsemissjónarmiða. Hvað eru almenn arðsemissjónarmið? Þau geta verið frá 7% sem er algengt í dag og upp í 25% þess vegna.