Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 13:23:23 (2771)

2002-12-13 13:23:23# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[13:23]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn á ný gerir hæstv. iðnrh. sér leik að því að snúa út úr eða látast misskilja. Ég segi í nefndaráliti mínu og ég hef margoft sagt það í ræðu að mér dettur ekki í hug að kalla hitaveitu, rafveitu eða vatnsveitu velferðarþjónustu. Það er útúrsnúningur vegna þess að ég sagði áðan og sagði í nefndarálitinu að við litum á það sem stoðkerfisþjónustu. Það er þá illa komið fyrir landinu með byggðamálaráðherra sem getur ekki skilgreint hvað er velferðarþjónusta og hvað er stoðkerfisþjónusta landsins sem tryggir velferð af öllu tagi. Það er þetta sem ég segi í nefndarálitinu og þetta er ósköp einfalt. Þar erum við á móti hlutafélagavæðingu. Við höfum aldrei lagst gegn hlutafélagaformi þar sem það á við. Við viljum að velferðarþjónusta og stoðkerfisþjónusta landsins sé á félagslegum grunni og það eru engin rök, virðulegi forseti, þegar hæstv. iðnrh., byggðamálaráðherra landsins, segir að allir séu að gera þetta, það eru engin rök. Við erum í 103 þúsund ferkílómetra landi, dreifbýlasta landsvæði, ríki í Evrópu, og þar þurfa að gilda allt önnur lögmál miðað við það sem er að gerast í Mið-Evrópu. Það er það sem við þurfum að hafa að leiðarljósi. Auðvitað leiðir markaðsvæðing og hámörkun arðsemi af hlutafélagavæddu fyrirtæki til þess að þjónustan hækkar. Ég er ekki að tala um að skorið verði á hana. Ég hef aldrei sagt það, hef aldrei verið með slíka framsetningu. En ég benti á að hætta væri fyrir hendi samkvæmt reynslu annarra að verðlagning þjónustunnar hækkaði.