Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 51. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 51  —  51. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um könnun á umfangi fátæktar.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson,


Guðrún Ögmundsdóttir, Karl V. Matthíasson.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að láta fara fram úttekt á umfangi, orsökum og afleiðingum fátæktar á Íslandi, bæði félagslegum og fjárhagslegum, með það að markmiði að leggja fram tillögur um úrbætur sem treysti öryggisnet velferðarkerfisins. Til að ná því markmiði verði lágmarksframfærslukostnaður eftir fjölskyldugerð skilgreindur og gerðar tillögur til úrbóta sem miði við að enginn hafi sér til framfærslu tekjur undir skilgreindum framfærslumörkum.
    Úttektin verði unnin í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Niðurstöður ásamt tillögum um aðgerðir til úrbóta verði lagðar fyrir Alþingi á haustþingi 2003.

Greinargerð.


    Á umliðnum mánuðum og missirum hafa komið fram upplýsingar m.a. frá ýmsum hjálparstofnunum, stéttarfélögum og félagsþjónustu sveitarfélaga sem benda til verulegrar aukningar á fjölda fátækra. Svo virðist sem m.a. fullvinnandi fólk þurfi í vaxandi mæli að sækja sér matargjafir til líknarsamtaka og leita fjárhagsaðstoðar til að eiga fyrir brýnustu nauðþurftum. Í þessum hópi er fjöldi öryrkja og aldraðra, sem og einstæðir foreldrar, atvinnulausir, einstæðingar og barnmargar fátækar fjölskyldur. Einnig hefur komið fram að stöðugt fjölgar í þeim hópi fólks sem hefur ekki efni á að leita til læknis eða leysa út lyfin sín. Athyglisvert er líka að í nýlegri könnun á vegum nokkurra verkalýðsfélaga kom fram að 30% aðspurðra telur að fjárhagsstaða sín sé lakari en fyrir 3–4 árum síðan vegna verðhækkana á vöru og þjónustu.
    Fyrir liggur norræn úttekt sem sýnir að útgjöld til félags- og heilbrigðismála aldraðra og öryrkja séu langlægst á Íslandi. Sama gildir um útgjöld vegna barna og barnafjölskyldna, jafnvel þótt börn undir 18 ára aldri séu hlutfallslega miklu fleiri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. Skertar barnabætur á liðnum árum hafa komið mjög illa við margar fjölskyldur með lágar tekjur og meðaltekjur. Ísland er ein fárra þjóða innan OECD sem tekjutengir barnabætur. Í því sambandi má benda á að fjöldi barna á hverja fjölskyldu er mestur á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd. Hér á landi er engu að síður varið lægsta hlutfalli af landsframleiðslu til að aðstoða barnafólk. Sterk tengsl eru oft milli slæmrar efnahagslegrar stöðu foreldra og heilsufars og félagslegra möguleika barna. Í uppvextinum hafa börn frá mjög efnalitlum heimilum ekki sömu möguleika til þroskandi félagslegrar þátttöku og tómstunda og önnur börn. Ljóst er að það hefur m.a. mjög hamlandi áhrif á eðlilegan þroska barna þegar þau skynja að möguleikar þeirra til að taka þátt í félagslega uppbyggjandi tómstundastarfi eru miklu minni en jafnaldra þeirra. Rannsóknir hafa líka sýnt að andlegt og líkamlegt heilsufar barna sem koma frá fátækum heimilum er mun verra en annarra barna.
    Í nýrri rannsókn Hörpu Njálsdóttur félagsfræðings, sem rannsakað hefur fátækt í íslensku þjóðfélagi, kemur fram að 40 þúsund krónur vantar mánaðarlega upp á fullan lífeyri frá Tryggingastofnun til þess að bótaþegar sem ekki hafa aðrar tekjur en bætur frá ríkinu geti framfleytt sér miðað við lágmarksframfærsluviðmið. Í Morgunblaðinu 7. júlí sl. er viðtal við Hörpu og greint frá rannsókninni. Þar kemur fram að í rannsókninni er sett fram aðferð til að greina, skýra og mæla fátækt. Rannsóknin beindist að því að leita svara við spurningum um hvað það sé í uppbyggingu og úrræðum samfélagsins sem veldur því að fólk lifir í fátækt á Íslandi í lok 20. aldar og hvernig saman fari góð lífskjör heillar þjóðar, mæld á mælikvarða þjóðartekna á mann, og fátækt meðal meðlima einstakra þjóðfélagshópa. Til að skýra og mæla fátækt er í rannsókninni notað lágmarksframfærsluviðmið sem byggist á opinberum skilgreiningum, þ.e. lágmarkstekjum sem hið opinbera ákvarðar lífeyrisþegum og skilgreiningu framfærsluþátta sem hið opinbera telur að séu nauðsynlegir til að komast af. Harpa bendir m.a. á að í leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins frá 1996 komi skýrt fram hvaða þættir séu álitnir nauðsynlegir einstaklingum til að framfleyta sér. Í leiðbeiningunum er gert ráð fyrir að lágmarksfjárþörf fólks skuli miðast við þann lágmarksframfærslukostnað sem ætlaður er einstaklingum eða fjölskyldum til að geta lifað af.
    Sömuleiðis er bent á að árið 2001 hafi verið gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar þar sem lágmarksframfærsla var ítrekuð og að hlutverk almannatrygginga væri að vera öryggisnet sem byggðist ekki á skilgreindum réttindum heldur tæki mið af framfærslu. Loks má benda á að Harpa segir orðrétt í þessu viðtali: „Ef bætur sem hið opinbera hefur ætlað fólki til framfærslu duga því ekki er fátækt tilkomin vegna brotalama í uppbyggingu velferðarkerfisins.“
    Margt bendir til að þetta sé rétt og að öryggisnet velferðarkerfisins sé brostið. Ljóst er að á því eru verulegir agnúar sem sníða þarf af til að treysta stöðu þeirra sem ekki eiga fyrir brýnustu nauðþurftum. Brýnt er því að greina helstu orsakir og afleiðingar fátæktar á Íslandi, bæði fjárhagslegar og ekki síður félagslegar. Á grundvelli þess þarf að fara fram heildarendurskoðun á öryggisneti velferðarkerfisins bæði hjá ríki og sveitarfélögum.
    Ýmislegt bendir til að stjórnvöld geri sér ekki grein fyrir því að fátækt fari vaxandi og sýna þau almennt skeytingarleysi við upplýsingum sem fram koma um það efni. Má í því sambandi nefna skýrslu sem þingmenn Samfylkingarinnar kölluðu eftir frá forsætisráðherra á 121. löggjafarþingi um þróun og umfang fátæktar á Íslandi. Í þeirri skýrslu voru fundin öll tormerki á því að svara spurningum skýrslubeiðenda um orsakir og afleiðingar fátæktar og hvernig hún hafi þróast og dregnir fram allir hugsanlegir vankantar á „fátæktarmælingum“ eins og það var orðað. Um orsakir fátæktar kom fram eftirfarandi: „Allt bendir til að mælt á algildan mælikvarða heyri fátækt til hreinna undantekninga hér á landi og hennar gætti fyrst og fremst hjá þeim sem telja má olnbogabörn þjóðfélagsins, þ.e. þeim sem ekki eru færir um að ala önn fyrir sér af einhverjum ástæðum.“
    Þetta sýnir ljóslega að brýnt er að Alþingi taki á málinu og krefji stjórnvöld um að ráðast í það verkefni að skilgreina orsakir og afleiðingar fátæktar og kanna hve stór sá hópur er sem hefur tekjur undir því lágmarksviðmiði sem nauðsynlegt er til að eiga fyrir brýnustu nauðþurftum. Það er forsenda þess að hægt sé með raunhæfum hætti að taka á málinu. Í því sambandi er ástæða til að benda á að í maí 2001 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar um gerð neyslustaðals, sem m.a. átti að nota við ákvörðun um fjárhæðir bóta og styrkja í velferðarkerfinu, og má reikna með að þegar liggi fyrir nokkur vinna sem nýtast muni vel í það verkefni sem tillaga þessi felur í sér.
    Það hlýtur að vera forgangsverkefni í þjóðfélaginu að treysta á nýjan leik öryggisnet velferðarkerfisins, þannig að hægt sé að losa fólk úr fjötrum fátæktar, sem verður sífellt meira sýnileg í þjóðfélaginu.