Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 402. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 496  —  402. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)




1. gr.

    Í stað „57,50 kr.“ í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: 66,15 kr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað „167,20 kr.“ í 1. tölul. kemur: 213,51 kr.
     b.      Í stað „1,97 kr.“ í 2. tölul. kemur: 2,52 kr.
     c.      Í stað „5,98 kr.“ í 3. tölul. kemur: 7,64 kr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað „210 kr.“ í 1. tölul. kemur: 268,20 kr.
     b.      Í stað „10,50 kr.“ í 2. tölul. kemur: 13,40 kr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar. Annars vegar er lagt til að áfengisgjald á sterku víni hækki um 15%. Hins vegar er lagt til að tóbaksgjald hækki um 27,7% en á móti lækkar álagning ÁTVR úr 17% í liðlega 11%. Þannig má reikna með að smásöluverð á sterku víni hækki um nálega 10% og verð á tóbaki um 12% að jafnaði. Gert er ráð fyrir að tekjuauki ríkissjóðs vegna þessara hækkana nemi allt að 1.100 m.kr. á ársgrundvelli og áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs eru talin verða innan við 0,3%.
    Að baki liggja tvær meginástæður. Í fyrsta lagi hafa álögur á áfengi og tóbak að mestu leyti staðið óbreyttar í krónum talið um langt skeið sem felur í sér lækkun að raungildi. Hækkuninni nú er ætlað að leiðrétta það misgengi. Af ýmsum ástæðum er þó talið heppilegra að halda áfengisgjaldi léttra vína og bjórs óbreyttu. Í öðru lagi hafa stjórnvöld gripið til ýmissa ráðstafana að undanförnu sem hafa leitt til aukinna útgjalda, m.a. til málefna aldraðra, sem kalla á sérstök viðbrögð til þess að veikja ekki stöðu ríkissjóðs um of og grafa þannig undan efnahagslegum stöðugleika.

Um 1. gr.

    Hér er lagt til að áfengisgjald á sterkum vínum verði hækkað um 8,65 kr. á hvern sentilítra af vínanda, eða um 15%.

Um 2. gr.

    Hér er gerð tillaga um 27,7% hækkun á tóbaksgjaldi fyrir allar tegundir tóbaks, þ.e. vindlinga, neftóbak og aðrar tegundir tóbaks. Á móti vegur lækkun á álagningu ÁTVR.

Um 3. gr.

    Til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að gjald af tóbaki sem ferðamenn, farmenn og aðrir sem hafa með sér til landsins til einkanota hækki samsvarandi, eða um 27,7%.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1995,
um gjald af áfengi og tóbaki.

    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að áfengisgjald af sterku víni verði hækkað um 15% þannig að útsöluverð hækki um rúmlega 10% og að gjald á tóbak verði hækkað um 28% þannig að útsöluverð hækki um 12% að jafnaði. Reiknað er með að verðbreytingarnar hafi í för með sér um 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs geti aukist um allt að 1.100 m.kr. á ári með þessum breytingum á gjöldunum. Frumvarpið snýr eingöngu að tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld svo að nokkru nemi verði það að lögum.