Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 414. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 523  —  414. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



1. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 54. gr. laganna bætist: eða í samræmi við aðrar launavísitölur sem Hagstofa Íslands birtir, enda liggi fyrir samkomulag aðila kjarasamninga viðkomandi sjóðfélaga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með lögum nr. 56/2000, um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, var lífeyrissjóðum sem störfuðu á grundvelli svokallaðrar eftirmannsreglu heimilað að breyta viðmiðum sínum vegna töku lífeyris þannig að lífeyrir breyttist í samræmi við meðalbreytingar dagvinnulauna hjá opinberum starfsmönnum samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands. Þegar frumvarp til framangreindra laga var til umfjöllunar beindust sjónir manna einkum að lífeyrissjóðum sveitarfélaga og því var talið eðlilegt að nota launavísitölu opinberra starfsmanna sem viðmið í þessu sambandi. Komið hefur á daginn að þetta kann í einhverjum tilvikum að vera óþarflega þröngt viðmið og því er talið eðlilegt að heimila aðilum sem fara með hagsmuni hlutaðeigandi lífeyrissjóðsfélaga að ákveða viðmið vegna þessa í kjarasamningum.