Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 322. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 579  —  322. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnheiði Snorradóttur og Jón Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust frá Æðarræktarfélagi Íslands, réttarfarsnefnd, Félagi löggiltra endurskoðenda og Bændasamtökum Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við lögin gjaldtökuheimildum fyrir löggildingu á starfsheiti raffræðinga, fyrir friðlýsingu æðarvarpa og fyrir leyfi til sölu notaðra bíla. Þá er gert ráð fyrir að dómsmálagjöld greiðist ekki í forsjármálum og afhendingarmálum á grundvelli laga nr. 160/1995, um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom gjald fyrir friðlýsingu æðarvarpa til umræðu og telur nefndin rétt að taka fram að ætlunin er eingöngu að taka gjald þegar óskað er eftir friðlýsingu æðarvarps í fyrsta sinn en ekki við endurnýjun.
    Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    2. gr. orðist svo:
    Í stað orðanna „og skipulagsfræðinga“ í 22. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: skipulagsfræðinga og raffræðinga.

    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. des. 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Árni R. Árnason.



Gunnar Birgisson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Guðmundur Árni Stefánsson,


með fyrirvara.


Jónas Hallgrímsson.