Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 324. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 619  —  324. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnheiði Snorradóttur, Maríönnu Jónasdóttur og Jón Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, Ástu Garðarsdóttur frá Fjársýslu ríkisins, Garðar Sverrisson frá Öryrkjabandalaginu, Brynjólf Sigurðsson frá Happdrætti Háskólans, Ólaf Darra Andrason og Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Benedikt Davíðsson frá Landssambandi eldri borgara og Indriða Þorláksson ríkisskattstjóra.
    Umsagnir um málið bárust frá Skattstofu Reykjanesumdæmis, Sjómannasambandi Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Skattstofu Norðurlandsumdæmis vestra, Skattstofu Suðurlandsumdæmis, Skattstofu Austurlandsumdæmis, Skattstofu Vesturlandsumdæmis, Öryrkjabandalagi Íslands, Skattstofu Norðurlandsumdæmis eystra, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Happdrætti Háskóla Íslands, ríkisskattstjóra, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum iðnaðarins, skattstjóranum í Reykjavík, Samtökum atvinnulífsins, KPMG-endurskoðun, Landssambandi eldri borgara, Sjómannasambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að eftirstöðvar rekstrartapa verði frádráttarbærar frá tekjum af atvinnurekstri í tíu ár í stað átta. Í öðru lagi er lagt til að sérstakur tekjuskattur manna verði framlengdur um eitt ár, skatthlutfallið lækkað um 2% og tekjumörkin hækkuð um 2,75%. Í þriðja lagi er vaxtaákvæðum laganna breytt til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru með lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Loks er að finna breytingar í frumvarpinu sem varða skattaframkvæmd.
    Leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Í fyrsta lagi er lagt til að persónuafsláttur vegna tekjuársins 2003 hækki um 0,4%, úr 26.718 kr. í 26.825 kr. á mánuði. Þessi hækkun kemur til viðbótar fyrri ákvörðun um að persónuafsláttur skyldi hækka um 2,75% frá og með 1. janúar 2003, sbr. 1. gr. laga nr. 9/2000. Í upphaflegu frumvarpi til laga nr. 9/2000 var gert ráð fyrir að hækkun persónuafsláttar 1. janúar 2003 yrði 2,25% en ákvæðinu var breytt í meðförum þingsins. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars 2000, í tengslum við gerð kjarasamninga það ár, kemur meðal annars fram að persónuafsláttur skuli breytast í takt við umsamdar, almennar launahækkanir á samningstímabilinu. Á þeim tíma var gert ráð fyrir 2,25% hækkun 1. janúar 2003 eins og kjarasamningar við svokallað Flóabandalag, þ.e. Eflingu, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, gerðu upphaflega ráð fyrir. Með sérstöku samkomulagi þeirra félaga sem að Flóabandalaginu stóðu og Samtaka atvinnulífsins frá 22. október 2000 var ákveðið að launahækkunin skyldi nema 2,75%. Í desember 2001 var af hálfu Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands samið um að bæta 0,4% við fyrrgreinda launahækkun þannig að samanlagt mundu laun hækka um 3,15% 1. janúar 2003 .
    Í öðru lagi er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða verði rekstraraðilum einvörðungu heimilt á rekstrarári 2003 að nýta rekstrartöp aftur til rekstrarársins 1994 eða í níu ár þannig að tap verði ekki endurvakið með afturvirkum hætti þó svo að verið sé að lengja yfirfærslu tapa úr átta árum í tíu ár.
    Hjálmar Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Kristinn H. Gunnarsson ritar undir álit þetta með fyrirvara við 2., 8. og 12. gr. frumvarpsins og stendur ekki að brtt. við 13. gr. um nýtt ákvæði til bráðabirgða.

Alþingi, 6. des. 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson,


með fyrirvara.


Gunnar Birgisson.



Einar K. Guðfinnsson.


Árni R. Árnason.