Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 215. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 635  —  215. mál.




Nefndarálit



um við frv. til l. um fjármálafyrirtæki.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarpið spannar yfirgripsmikið svið enda sameinaðir í einni heildarlöggjöf fjórir lagabálkar: lög um viðskiptabanka og sparisjóði, lög um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, lög um rafeyrisfyrirtæki, og ákvæði um stofnun og starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana í lögum um verðbréfaviðskipti. Jafnframt eru ákvæði um ríkisviðskiptabanka í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði felld niður.

Bannað með lögum að reka ríkisbanka.
    Margt er mjög ásættanlegt í þessu frumvarpi enda byggist það á langri og rækilegri undirbúningsvinnu. Meginástæða þess að minni hlutinn getur ekki stutt frumvarpið að öllu leyti er sú að með því er ekki staðið við fyrirheit sem gefin voru í sumar um að lögfest yrði bann við braski með stofnfjárhluti sparisjóða. Gengið er enn lengra og stuðlað að hlutafjárvæðingu sparisjóðanna og beinlínis bundið í lög bann við því að reka ríkisbanka. Í 13. gr. frumvarpsins segir um fjármálafyrirtæki (sparisjóðir undanþegnir) að þau skuli starfa sem hlutafélög.
    Á fyrstu dögum þingsins lagði þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fram frumvarp þar sem kveðið var á um bann við því að selja stofnfjárhluti í sparisjóðum nema á verðbættu nafnverði. Þá var frumvarpi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ætlað að afnema heimild um að breyta sparisjóðum í hlutafélög og var lagt til að menn gæfu sér tíma til að skoða málið frá grunni.

Röksemdir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
    Í greinargerð með frumvarpinu sagði: „Síðastliðið sumar varð þjóðin vitni að því að stofnfjáreigendum í SPRON voru gerð tilboð um kaup á stofnfjárhlutum á margföldu yfirverði. Ljóst er að þetta var í andstöðu við vilja löggjafans eins og fram kom í umfjöllun um málið á Alþingi og í margítrekuðum yfirlýsingum ráðherra og þingmanna úr stjórn og stjórnarandstöðu í kjölfarið. Eðlilegt er að eignarhlutur stofnfjáreigenda sé varinn og að þeir eigi kost á því að selja hann á verðbættu nafnverði. Raunávöxtun stofnfjárbréfa hefur í reynd verið tryggð þar sem arður af stofnfé hefur verið reiknaður af verðbættu nafnverði og hafa stofnfjáreigendur þannig notið arðs sem hefur að jafnaði verið meiri en almennt gengur um hlutabréf.
    Hlutverk sparisjóðanna hefur verið mjög þýðingarmikið í íslensku atvinnulífi og mörgum byggðarlögum mikilvæg lyftistöng enda voru þeir settir á laggirnar með félagslegu átaki. Í greinargerð með frumvarpi viðskiptaráðherra á 126. löggjafarþingi (567. mál) segir m.a.: „Sparisjóðir á Íslandi, líkt og annars staðar í Evrópu, eru fyrst og fremst staðbundin fjármálafyrirtæki með sterk tengsl við starfssvæði sitt og nána samvinnu sín á milli. Sparisjóðirnir hafa verið reknir með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki til hámarksarðs fyrir stofnfjáreigendur. Markmiðið með rekstrinum var því að stuðla að almannahag.“ Brýnt er að þetta markmið glatist ekki.
    Þær lagabreytingar sem þetta frumvarp felur í sér varðandi meðferð stofnfjárhluta eru í samræmi við vilja Sambands íslenkra sparisjóða.
    Þá leggur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að numin verði úr gildi heimild til að breyta sparisjóðum í hlutafélög. Augljóst er að heimildarákvæði laganna um að breyta sparisjóðum í hlutafélög hafa þegar valdið uppnámi og tefla tilverugrundvelli sparisjóðanna í tvísýnu. Óhjákvæmilegt er að endurskoða málið allt frá grunni í ljósi atburða sumarsins og er lagt til að þar til sú endurskoðun hafi farið fram verði óheimilt að breyta sparisjóðum í hlutafélög.“

Vinstri hreyfingin – grænt framboð sammála sparisjóðunum.
    Í álitsgerð Sambands íslenskra sparisjóða (og einstakra sparisjóða, svo sem Sparisjóðsins í Keflavík) er tekið undir meginsjónarmið þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Sambandið studdi tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að lagabreytingum en taldi ekki rétt að afnema heimildir til að breyta sparisjóðunum í hlutafélög. Í álitsgerð sambandsins frá 20. nóvember sl. segir þó: „Samband ísl. sparisjóða telur að hyggja þurfi að tilteknum breytingum á nokkrum ákvæðum laga er varða hlutafjárvæðingu sparisjóða. Hins vegar sé nauðsynlegt að vanda undirbúning slíkra breytinga og tími til þess nú fyrir áramót of stuttur.“
    Athyglisvert er að svo virðist sem greinargerð Páls Hreinssonar lagaprófessors hafi riðið baggamuninn í afstöðu manna til lagabreytinga varðandi sparisjóðina og þá sérstaklega sölu á stofnfjárhlutum. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið skýrir stefnubreytingu sína varðandi þetta atriði með hliðsjón af greinargerð Páls, sbr. bréf ráðuneytisins 13. nóvember. Í umsögn frá 19. nóvember lagði Seðlabanki Íslands áherslu á að „áður en lengra yrði haldið“ þyrfti að skoða hvort lagabreytingar sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagði til gengju „gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar“. Um þetta efni fjallar greinargerð Páls Hreinssonar. Í umsögn Sambands íslenskra sparisjóða um framangreint frumvarp er vísað í greinargerð Páls þar sem fram kemur að samkvæmt henni séu líkur á því „að lögfesting beinnar verðákvörðunar nú feli í sér hættu á að lagaákvæði þar að lútandi yrðu talin andstæð eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.“

Lagaumsögn óvissu háð.
    Samkvæmt framansögðu má augljóst vera að mikið veltur á áreiðanleika álitsgerðar Páls Hreinssonar. Sjálfur reifar hann viðfangsefni sitt en segir svar við þeim spurningum sem að honum er beint „vera háð nokkurri óvissu“. Hann rekur þær lagabreytingar sem gerðar hafi verið og segir greinilegt að „lögunum sé ætlað að fylgja því meginstefnumiði allra laga, sem sett hafa verið um sparisjóði, að sparisjóði eigi að reka með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki til arðs fyrir stofnendur þeirra, enda séu ákvæði í lögum, sem eiga að sjá um, að arður þeirra geti ekki orðið nema hverfandi …“ Páll segir hins vegar að skýr lagaákvæði séu um viðskipti stofnfjárhafa og sparisjóðs, öðru máli gegni um þriðja aðila, þar séu ákvæði óljósari. Hins vegar væri ljóst að ekki hefði verið „stefnt að almennum viðskiptum með þau eins og um kvaðalaus hlutabréf eða önnur viðskiptabréf væri að ræða.“ Smám saman hafi verið rýmkað um kvaðirnar með lagabreytingum en Páll bætti við: „vart er þó við því að búast að þingmenn hafi mátt sjá fyrir að með þeim breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 71/2001 teldu menn forsendur til að bjóða meira en fimmfalt verð stofnfjárhluta í Spron.“
    Það gerðist nú samt og þar með telur Páll að til hafi orðið markaðsverð og slíkar væntingar skapast að hvorki meira né minna en stjórnarskrárvarinn eignarréttur hafi orðið til. „Ólíklegt sé að að markaðurinn muni meta stofnfjárhluti nokkurra lítilla sparisjóða, að gildandi lögum …“ eins hátt og hjá Spron en einmitt þess vegna telur hann að ekki megi setja með lögum takmarkandi ákvæði. Þá sé verið að mismuna með sértækri lagasetningu. Þetta þýðir með öðrum orðum að gróðafíknin sem vakin var með tilboði til stofnfjáreigenda Spron sl. sumar hafi stofnað til stjórnarskrárvarins eignarréttar og komi í veg fyrir að löggjafinn geti nú farið sínu fram í þágu almannaheilla. Og vegna þess að ekki sköpuðust slíkar aðstæður hjá sparisjóðum annars staðar á landinu væri samkvæmt Páli um eignaupptöku að ræða hjá stofnfjáreigendum Spron ef sett væru almenn ákvæði í lög til að skýra betur ákvæði sem almenn samstaða væri um að hefðu alla tíð verið grundvallarforsenda laga um sparisjóði: að ekki væri hægt að braska með stofnfjárhluti.
    Þegar hins vegar kemur að því að skerpa á meginreglunni um dreifða eignaraðild þá getur hún að mati Páls falið í sér „almennar takmarkanir á ráðstöfunarrétti stofnfjárhlutar, sem leggst á alla stofnfjáreigendur sparisjóða.“ Síðar segir: „Enda þótt færa megi að því rök að ákvæðið feli í sér takmarkanir á eignarréttinum, felur breytingin frá gildandi rétti þó ekki í sér umfangsmikla skerðingu. Þar sem þessi skerðing mun leiða beint af lögum og koma jafnt niður á öllum hluthöfum sparisjóða og hefur ekki verulegt fjárhagstjón í för með sér, verður að telja að um almennar takmarkanir á eignarrétti sé að ræða.“ Það sem heitir á einum stað nánast heilagur stjórnarskrárvarinn eignarréttur má sæta skerðingu ef eitt gengur yfir alla. Engu að síður verður ekki annað séð en þau réttindi sem sæta skerðingu séu misverðmæt og ætti sama röksemdafærsla því að gilda, auk þess sem það hljómar óneitanlega undarlega að skilgreina mannréttindi sem þó megi skerða ef það er ekki gert í verulegum mæli.
    Páll segir enn fremur að „við skýringu á mörkunum á milli eignarnáms annars vegar og almennra takmarkana á eignarréttindum hins vegar er einnig viðurkennt að mjög verði að styðjast við jafnréttis- og réttlætissjónarmið.“
    Ekki fellst minni hlutinn á að jafnréttissjónarmiða sé gætt og verður vikið að því í málflutningi. Ekki verður séð að réttlætissjónarmið komi hér nokkurs staðar nærri.


Alþingi, 10. des. 2002.



Ögmundur Jónasson.




Fylgiskjal I.


Ályktun þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs
um stöðu og framtíð sparisjóðanna.

(27. júní 2002.)


    Af umræðu síðustu daga um hlutafélagavæðingu og yfirtöku SPRON virðist ljóst að endurskoða þarf nýleg lög um sparisjóði þannig að eðli þeirra, markmið og þjónustuskyldur verði tryggð.
    Hlutverk sparisjóðanna hefur verið að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs í viðkomandi byggðarlögum, en ekki að hámarka arð einstakra stofnfjáreigenda. Sérstaklega hafa sparisjóðirnir sinnt því mikilvæga hlutverki að veita almenningi og ekki síst minni fyrirtækjum þjónustu. Minnt er á að í samþykktum sparisjóðanna er skýrt kveðið á um að sé hlutverki sparisjóðs lokið og ákveðið að leggja hann niður skuli eignir að frátöldum skuldum og greiðslum til stofnfjáraðila renna til líknar- og menningarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs. Stærstur hluti eigin fjár sparisjóðanna er því í raun samfélagseign og sameign menningar- og líknarfélaga á starfssvæði sjóðanna. Allar breytingar á eignarformi eða rekstri sem ganga á svig við þessa hugmyndafræði og tilgang sparisjóðanna eru brot á þeim samþykktum sem kveða á um tilveru þeirra.
    Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vöruðu við þeim breytingum sem samþykktar voru á Alþingi vorið 2001 sem m.a. heimiluðu hlutafélagavæðingu sparisjóðanna. Það var álit þingflokksins að lagabreytingarnar væru hroðvirknislega unnar og lögin byðu þeim hættum heim sem nú hafa komið á daginn. Þingflokkurinn lagði það til að opnað yrði fyrir öðrum leiðum til að styrkja hag og samkeppnisstöðu sparisjóðanna, ef þess reyndist þörf.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvetur til þess að frestað verði öllum áformum um hlutafélagavæðingu einstakra sparisjóða og öðrum grundvallarbreytingum á eignarhaldi þeirra. Hag sparisjóðanna ber að tryggja án þess að fallið sé frá grundvallarhugsjónum þeirra og þjónustuskyldum við það samfélag sem þeir starfa í.


Fylgiskjal II.


Umsögn Sambands íslenskra sparisjóða um frumvarp til laga um
breyting á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði
(8. mál 128. löggjafarþings).
(20. nóvember 2002.)


    Sambandi íslenskra sparisjóða hefur borist ofangreint mál til umsagnar.
    Síðastliðið sumar óskaði Sambandið eftir fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis vegna þeirrar stöðu sem þá var upp komin vegna tilraunar Búnaðarbanka Íslands til yfirtöku á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, enda taldi Sambandið að vegið væri að tilverugrundvelli sparisjóðanna í landinu.
    Fundur var síðan haldinn í efnahags- og viðskiptanefnd 30. júlí sl. og á þeim fundi var óskað eftir hugmyndum frá Sambandinu um orðalag til breytinga á gildandi lögum sem taki til verðlagningar stofnfjárhluta og festi í sessi þann skilning sem fram hafði komið í athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 71/2001, um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996.
    Í 4. tölul. athugasemda segir:
    „Þegar stofnfjárbréf eru í boði er áskilið í lögum að þau skuli keypt og seld á nafnverði að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár. Viðskiptin fara því fram á grundvelli fyrirfram ákveðins verðs.“
    Samband ísl. sparisjóða varð við óskum þeim er settar voru fram á framangreindum fundi. Þann 31. júlí 2002 ritaði Sambandið nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd svohljóðandi bréf:
    „Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær var þess farið á leit að Samband íslenskra sparisjóða aflaði upplýsinga um eigið fé sparisjóða, stofnfé sparisjóða og fjölda stofnfjáreigenda skipt niður á einstaka sparisjóði.
    Enn fremur var óskað hugmyndar frá sambandinu um orðalag til breytingar á gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem taki til verðlagningar stofnfjárhluta og festi í lög þann skilning sem fram kom í athugasemdum við frumvarp það sem síðar varð að lögum 71/2001 um breytingu á fyrrnefndum lögum.
    Samband íslenskra sparisjóða telur að með því að skjóta inn nýjum öðrum málslið í (sé hægt að ná fram framangreindu markmiði) 18. gr. laganna mundi þá hljóða svo:
     „Sala eða annað framsal stofnfjárhluta í sparisjóði er óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Sé endurgjald innt af hendi skal um það fara samkvæmt reglu 2. mgr. 22. gr. Veðsetning stofnfjárhlutar í sparisjóði er óheimil.“
    2. mgr. 22. gr. hljóðar þannig:
     „Það verð sem nýr stofnfjáreigandi skal greiða fyrir hlut, skal vera nafnverð hans að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 23. gr.“
    Ljóst má vera að hér er aðeins um eina mögulega útfærslu að ræða en hugsa má sér að nálgast tilgang ákvæðisins með öðrum hætti svo sem að fjalla ítarlegar um þau skilyrði sem þurfi að vera fyrir hendi til að stjórn sparisjóðs sé heimilt að fallast á framsal og/eða herða frekar á ákvæðum 35. gr. varðandi 5% regluna.
    Samband íslenskra sparisjóða þakkar jákvæð viðhorf nefndarmanna til sparisjóðanna sem fram komu á fundi nefndarinnar í gær og lýsir yfir að sambandið sé reiðubúið til náins samstarfs með nefndinni í þeim tilgangi að bægja frá þeirri vá er nú vofir yfir framtíð sparisjóðastarfsemi á Íslandi.“
    Frá því að tillaga þessi var sett fram hefur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið látið vinna fyrir sig lögfræðilega álitsgerð um það hvort frumtillaga Sambandsins sé fær leið og er Sambandinu tjáð að niðurstaða þess sé neikvæð á þann hátt að líkur séu á því að lögfesting beinnar verðákvörðunar nú feli í sér hættu á að lagaákvæði þar að lútandi yrðu talin af dómstólum andstæð eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.
    Sé sú raunin telur Sambandið ekki fært að umrædd leið sé farin. Þess í stað beri að leita annarra úrræða sem ekki hafa tilgreinda annmarka. Í framangreindu bréfi Sambandsins frá 31. júlí er einnig tekið fram að það megi hugsa sér að nálgast tilgang ákvæðisins með öðrum hætti. Það er síðan gert með tilteknum ákvæðum í frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki, 215. mál. Þessi ákvæði er að finna í 42. gr., 64. gr., 70. gr. og 101. gr. framangreinds frumvarps. Með hliðsjón af því sem áður segir um lagaóvissu verði 18. gr. laga 113/1996 breytt í þá veru sem hér er lagt til telur Samband sparisjóða rétt að úrlausn þess málefnis sem frumvarpinu er ætlað að leysa verði byggð á þeirri leið sem 215. þingmál leggur drög að.
    Heimild til handa sparisjóðum til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélög var samþykkt á Alþingi árið 2001 með lögfestingu laga 71/2001. Lítil sem engin reynsla er enn fengin af hinum nýju lagaákvæðum og telur Samband sparisjóða því ekki efni til að nýfengin heimild verði afnumin og mælir því gegn. Hins vegar má segja að allar breytingar orki tvímælis þá þegar þær eru gerðar og því skal ekki leynt að ólík sjónarmið voru innan sparisjóðahópsins hvort nauðsyn bæri til breytinga. Þrátt fyrir skoðanaágreining var það samhljóða niðurstaða sparisjóða, fyrir eindregin tilmæli einstakra sjóða sem töldu breytingu nauðsynlega, að samtök þeirra styddu lögmæta hagsmuni þeirra sem erfitt töldu að lifa við óbreytt umhverfi og framtíðar sinnar vegna yrðu að fá ný og öflugri tæki til öflunar eigin fjár.
    Samband ísl. sparisjóða telur að hyggja þurfi að tilteknum breytingum á nokkrum ákvæðum laga er varða hlutafjárvæðingu sparisjóða.
    Hins vegar sé nauðsynlegt að vanda undirbúning slíkra breytinga og tími til þess nú fyrir áramót of stuttur. Eins þyrfti að hyggja að því hvort bjóða ætti sparisjóðum að fara fleiri en eina leið til öflunar utanaðkomandi eigin fjár með sama hætti og nú er gert í Noregi.
    Það er von Sambands ísl. sparisjóða að þegar þar að kemur taki hæstvirt Alþingi tillögum sparisjóðanna vel enda horfi þær til framfara og leiði til stöðugleika í starfi sparisjóðanna.
    Samband ísl. sparisjóða þakkar flutningsmönnum frumvarps þessa þann stuðning og velvilja til starfsemi sparisjóðanna sem fram kemur í frumvarpinu og greinargerð með því.

Virðingarfyllst,
Samband íslenskra sparisjóða,

Sigurður Hafstein, framkvæmdastjóri.




Fylgiskjal III.


Úr umsögn Sambands íslenskra sparisjóða um
frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki.

(20. nóvember 2002.)


Inngangur.
    Hér er um að ræða þingmál er varðar ríka hagsmuni sparisjóðastarfseminnar sem og almennings og því óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum þar um í inngangi.
    Í dag eru starfandi hér á landi 24 sparisjóðir víðsvegar um land. Þessir sparisjóðir starfrækja 62 afgreiðslur og er um helmingur þeirra utan suðvesturhorns landsins. Sparisjóðirnir hafa um árabil haft með sér víðtæka samvinnu á fjölmörgum sviðum og má þar nefna samvinnuna innan Sambands ísl. sparisjóða, Sparisjóðabankans og Tölvumiðstöðvar sparisjóðanna svo nefndir séu þeir þrír aðilar er tengjast mest daglegum rekstri hvers einstaks sparisjóðs og eru grundvöllur þess að þeir geta hver og einn keppt við margfalt stærri rekstrareiningar. Þessi samvinna hefur því átt stóran þátt í því að sparisjóðirnir eru „fjórða aflið“ á íslenskum bankamarkaði í samkeppni við viðskiptabankana þrjá sem nú starfa.
    Rétt þykir að rifja upp að uppbygging rekstrarforms sparisjóða er gjörólík rekstrarformi hlutafélagabanka. Sparisjóðirnir eru þrátt fyrir samstarf sitt, hver um sig, sjálfstæð stofnun, stjórnað af heimamönnum á hverjum stað og starfsemin í reynd bundin því svæði sem þeir hver um sig starfa á. Samstarfið nær ekki lengra en stjórn hvers og eins sparisjóðs telur falla að hagsmunum viðskiptavina á sínu svæði sem og sparisjóðsins sjálfs. Fjöldi sparisjóða og stjórnunarleg ábyrgð heimamanna tryggir að bankakerfið á Íslandi er ekki háð stjórnunarlegum áhrifum fárra heldur skapar valkosti og leiðir til valddreifingar. Sívaxandi fjöldi Íslendinga hefur ár eftir ár tekið ákvörðun um að velja sparisjóð vegna daglegra bankaviðskipta sinna og í dag er um það bil fjórði hver Íslendingur viðskiptavinur sparisjóðs. Í lok september sl. var hlutdeild sparisjóðanna í innlánum komin vel yfir 26% af heildarinnlánum í innlánsstofnunum hér á landi.
    Rekstrarform sparisjóða hefur mjög verið til umræðu undangengna mánuði. Margir hafa orðið til að gagnrýna það og orðin „úrelt“ og „gamaldags“ oft verið nefnd. Samband ísl. sparisjóða er þessu ósammála. Ekkert einstakt rekstrarform hefur yfirburði yfir annað og væntanlega er það núverandi rekstrarform sem tryggt hefur, að sparisjóðir eru starfandi á Íslandi í dag. Fyrir sparisjóðina og viðskiptavini þeirra er það þessi staðreynd sem máli skiptir. Hér skiptir einnig miklu að Alþingi hefur metið mikilvægi sparisjóðastarfseminnar – gert þeim kleift að vinna saman og skapað skilyrði fyrir samkeppnishæfni þeirra með því að taka tillit til hins sérstaka rekstrarforms þeirra. En eins og áður sagði er það samvinna sparisjóðanna til að ná fram innan einstakra sviða kostum stórrekstrar þar sem það á við án þess að nálægðin við rætur starfseminnar sé rofin sem er þeim svo mikilvæg.
    Sjálfir hafa sparisjóðirnir síðan lagt mikla áherslu á fjölbreytta þjónustu grundvallaða á gæðum og lagt í það metnað að hana sé hægt að veita án tillits til stærðar sparisjóðs. Þetta hefur skilað þeim árangri að þrjú síðustu ár hafa kannanir sýnt að viðskiptavinir sparisjóða eru ánægðari með þá þjónustu sem þeim er veitt en viðskiptavinir annarra bankastofnana. Starfsemin leit því út fyrir að vera í jákvæðum farvegi.
    Það kom því sem reiðarslag á sl. sumri þegar gerð var tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku stærsta sparisjóðs landsins einnig vegna þess að yfirlýst var að gengi yfirtakan eftir yrði sams konar aðferðum beitt til yfirtöku nokkurra annarra sparisjóða. Sú hætta blasti því við, að á skömmum tíma stöðvaðist rekstur allra sparisjóða landsins. Ástæðan er sú að mikilvægir þættir í rekstri sparisjóða eru samreknir og hverfi sparisjóðir úr því samstarfi leiðir það í flestum tilvikum til lítillar lækkunar heildarkostnaðar heldur kostnaðarhækkunar fyrir þá sem eftir standa sem yrði þeim óviðráðanleg.
Fylgiskjal IV.

Álitsgerð Páls Hreinssonar um heimilar takmarkanir á


eignarréttindum     stofnfjáreigenda í sparisjóðum.


(27. september 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.

                                  
Jón Bjarnason:

Um sparisjóði fólksins
(Morgunblaðið 5. júlí 2002.)


     Langstærsti hluti eiginfjár sparisjóðanna er sjálfseign, í reynd almenningseign þess nærsamfélags sem viðkomandi sparisjóður þjónar. Markmið þeirra sem aðhyllast hömlulausa einkavæðingu almenningseigna virðist vera að ná eignarhaldi og tökum á þessum samfélagsverðmætum og á sem lægsta verði. Slagurinn um eigur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis er glöggt dæmi hér um. Hlutafélagavæðing eða sala SPRON til Búnaðarbankans þykir fréttnæm nú m.a. vegna þess að ákveðnir einstaklingar ætla sér að hagnast persónulega.
    Fyrir nokkrum áratugum gekk ákveðin hrina yfir þar sem margir sparisjóðir hurfu inn í eða urðu stofninn að útibúum annarra bankastofnana, fyrst og fremst Búnaðarbanka eða Landsbanka. Þetta hafði takmarkaða breytingu í för með sér á meðan viðkomandi útibú naut verulegs sjálfstæðis og sinnti sínu nærumhverfi. Nú eru mörg útibúin orðin valdaminni afgreiðsludeildir frá miðstýrðum höfuðstöðvum, sem geta borið aðra hagsmuni fyrir brjósti en að efla þjónustu við íbúa í fjarlægum héruðum. Lokun útibúa hlutafélagavædds Landsbanka víða um landið á síðasta vetri er gott dæmi þar um.

Sérstaða sparisjóðanna.
    Sparisjóðirnir hafa á undanförnum árum reynt að halda sérstöðu sinni og nálægð við íbúa á sínu svæði, en jafnframt styrkt starfsemina með samvinnu sín á milli. Fari hlutafjárvæðing og sala á sparisjóðunum í gang með þeim hætti sem nú er til umræðu má búast við skriðu sem ekki verður stöðvuð. Eitt er víst að mörg byggðarlög sem nú njóta góðs af starfsemi sparisjóðs munu standa snauðari eftir ef þessum þjónustustofnunum verður fórnað á altari gróðasjónarmiða fjármagnseigenda í fjarlægum landshlutum. Mér verður hugsað til Sparisjóðs Mýrasýslu, Sparisjóðs Svarfdæla, Sparisjóðs Strandamanna, Sparisjóðs Þórshafnar o.s.frv., sem í fljótu bragði virðast óaðskiljanlegur hluti sinna nærsamfélaga en gætu samt orðið auðveld bráð.

Samþykktir sparisjóðanna.
    Flestir sparisjóðirnir voru stofnaðir snemma á síðustu öld. Þeir hafa veitt almenna fjármálaþjónustu á sínu starfsvæði og unnið á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á sínu heimasvæði. Markmið þeirra hefur ekki verið að hámarka arðgreiðslur til einstakra stofnfjáreigenda. Afar ströng skilyrði voru sett fyrir starfsleyfum sparisjóðanna. Sparisjóðirnir voru menningar- og þjónustustofnanir og nutu af þeim sökum skattfrelsis allt til ársins 1983. Í samþykktum sparisjóðanna er kveðið á um slit sjóðsins. „Aðeins er heimilt að sameina sparisjóðinn öðrum sparisjóði. Þegar skuldir sparisjóðsins hafa verið greiddar vegna slita á starfsemi sparisjóðsins skal greiða stofnfjáreigendum eignarhlut þeirra af eftirstöðvum sjóðsins. Þeim eignum er þá kunna að vera eftir skal ráðstafað til menningar- og líknarmála á starfsvæði sparisjóðsins.“ Í þessu endurspeglast sá grundvallarmunur sem er á sparisjóði og hlutafélagsbanka sem starfar eins og hvert annað fyrirtæki. Undir nákvæmlega sömu formerkjum var SPRON stofnað og hvíla því nákvæmlega sömu skyldur á þeim sparisjóði sem öðrum.

Samfélagsleg ábyrgð.
    Í hugum fólks stendur heitið sparisjóður fyrir ofangreind gildi. Sé þessum grundvallarmarkmiðum breytt, eru jafnframt forsendur brostnar fyrir því að halda peningum saman í nafni viðkomandi sparisjóðs. Þegar hlutverki sparisjóðanna lýkur eins og markmið þeirra eru skilgreind eða þeir eru lagðir niður af öðrum ástæðum er skýrt kveðið á um hvernig með eignir þeirra skuli farið. Þessum samþykktum geta stofnfjáreigendur ekki breytt. Sé ekki vilji til að reka sparisjóðina á þessum grunni ber að leggja þá niður og skipta eignunum eins og samþykktirnar kveða á um. Þá eiga fjármunirnir að greiðast út í heilu lagi til menningar- og líknarstarfsemi eða renna til þess samfélags sem hefur lagt til hagnað sjóðsins. Þegar miklir fjármunir eða hagsmunir eru til meðhöndlunar er ýmsum hætt við að misstíga sig og grundvallarhlutverk og markmið vilja gleymast. Í ljósi umræðu síðustu daga er rétt að fresta öllum áformum um breytingar á eignarhaldi og rekstrarformi sparisjóðanna og endurskoða lagaumgjörð þeirra. Lagabreytingarnar þurfa að miða að því að gefa einstökum sparisjóðum aukið olnbogarými og færi á að styrkja stöðu sína án þess að eðli þeirra breytist og hugsjónir glatist.

Fákeppni eða dreifræði.
    Sú var tíðin að dreifræði var styrkur atvinnulífs og þjónustustarfsemi hérlendis. Fyrirtækjum var stjórnað þar sem þau störfuðu, af fólki sem þekkti vel til staðhátta og gerði sér gjörla grein fyrir því að reksturinn snerist um fólk en ekki dauðar tölur. Mesta ógnun við íslenskt atvinnulíf, byggð og búsetu í landinu öllu er stórfelldur samruni fyrirtækja, aukin miðstýring og fjarlægð stjórnenda frá því samfélagi sem reksturinn er ætlað að þjóna. Völd og yfirráð auðlinda og atvinnulífs færast á hendur örfárra manna. Ákvarðanir sem máli skipta eru teknar í órafjarlægð.
    Sparisjóðirnir eru nú ein helsta stoðin við byggð víða um landið, m.a. vegna þess að íbúarnir hafa sjálfir forræði yfir þeim. Þeir hafa þannig tryggt efnahagslegt sjálfstæði íbúanna og gefið þeim sveigjanleika og svigrúm til þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Þeir eru ein helsta trygging fyrir þjónustu á staðnum og lánum til einstaklinga og smærri fyrirtækja á viðkomandi byggðarlögum.
    Það er því ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að kasta á milli sín fjöreggi fjölmargra byggða með lagasetningunni um sparisjóði á síðastliðnu ári.
    Reykvíkingar eiga vitanlega að gera sömu siðferðiskröfur til SPRON og Svarfdælir, Mýramenn, Strandamenn eða Þórshafnarbúar gera til sinna sparisjóða. Þess vegna kemur sú yfirtaka, hlutafélagavæðing og hagnaðartaka sem nú er til umræðu með SPRON ekki til greina. Fari svo að starfsemi sparisjóða leggist í einhverjum tilvikum af verður að gæta þess að þeir fjármunir sem þeir hafa ávaxtað í gegnum árin renni til réttra aðila, þeirra sem getið er um í samþykktum sjóðanna. Þeir sem njóta eignanna eru íbúar byggðarlagsins, menningar- og líknarstarfsemi á starfssvæði sparisjóðsins en ekki aðrar fjármálastofnanir eða fáeinir stofnfjárhafar.


Fylgiskjal VI.


Jón Bjarnason:

Sparisjóður Dalasýslu og Búnaðarbankinn.
(Skessuhorn 14. ágúst 2002.)


    Sparisjóðirnir eru ein helsta stoðin við byggð víða um landið, m.a. vegna þess að íbúarnir hafa sjálfir forræði yfir þeim. Þeir hafa styrkt efnahagslegt sjálfstæði íbúanna og tryggt þeim svigrúm til þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Návist þeirra er trygging fyrir þjónustu á staðnum og lánum til einstaklinga og smærri fyrirtækja í viðkomandi byggðalögum.
    Fyrir nokkrum áratugum gekk yfir hrina þar sem margir sparisjóðir urðu stofn að nýjum bankaútibúum – fyrst og fremst Búnaðarbanka eða Landsbanka.
    Öflugir sparisjóðir svo sem Sparisjóður Akraness, Sparisjóður Dalasýslu og Sparisjóður Stykkishólms, svo nokkrir séu nefndir, hurfu þannig inn í næsta bankaútibú. Sameiningin fór fram í því ljósi að þessir bankar voru þá að fullu í ríkiseign og litið var á þá sem þjónustustofnanir fyrir fólk og atvinnulíf en ekki fyrirtæki sem bæri fyrst og fremst að skila hámarksarði til eigenda sinna.
    Í þessu ljósi er lærdómsríkt að líta til þess hvernig Dalamenn reyndu að búa um hnútana þegar þeir sömdu við Búnaðarbankann um rekstur Sparisjóðs Dalasýslu.

Sparisjóður Dalamanna.
    Í ágætu riti: „Sparisjóður Dalasýslu – aldahvörf“ sem kom út 1995, rekur Friðjón Þórðarson sögu Sparisjóðsins og samninginn við Búnaðarbankann sem enn er í gildi. Friðjón er sem kunnugt er fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og sýslumaður Dalamanna og Snæfellinga. Hann var í senn formaður stjórnar Sparisjóðs Dalasýslu um árabil og sat í bankaráði Búnaðarbankans í 32 ár, lengst af sem varaformaður en um tíma formaður ráðsins.
    Sparisjóður Dalasýslu var stofnaður 2. okt. 1891. Á hálfrar aldar afmæli hans skrifar Ásgeir Ásgeirsson próf. í Hvammi: „Merkasta stofnun Dalamanna, sem þeir eiga allir hlutdeild í, er Sparisjóður Dalasýslu. Það er óhætt að fullyrða að Dalamenn hafi hvorki fyrr né síðar komið á fót hjá sér stofnun sem reynst hefur þeim jafn happasæl til fjársöfnunar og til eflingar nytsömum framkvæmdum í sýslunni allri eins og hann. Með stofnun sjóðsins var lögð traustasta undirstaðan að efnalegri velmegun sýslubúa.“
    Sparisjóðurinn lét menningar- og líknarmál til sín taka. Dæmigert er þegar sjóðurinn ákvað að minnast fórnfúss starfs bændahöfðingjans Bjarna Jenssonar í Ásgarði sem var gjaldkeri sjóðsins í áratugi. Það gerir sjóðurinn með því að leggja fram stofnkostnað eins stúdentaherbergis við Háskóla Íslands á Nýja Garði, sem ber nú nafnið Ásgarður.

Dalamenn semja við ríkisbanka.
    Á fundi ábyrgðarmanna Sparisjóðs Dalasýslu haustið 1963 var fyrst hreyft þeim hugmyndum að Búnaðarbankinn og Sparisjóðurinn sameinist um rekstur bankaútibús í Búðardal. Að sjálfsögðu voru um það skiptar skoðanir, en á sparisjóðsfundi 13. maí 1965 var samþykkt að ganga til samstarfs við Búnaðarbanka Íslands um stofnun útibús frá bankanum í Búðardal. Þegar Búnaðarbankinn tók við rekstri Sparisjóðsins var aðeins einn 10 þús. kr. víxill í vanskilum, en hann greiddist upp innan fárra vikna. Horfur fyrir sjóðinn voru góðar.
    Samningurinn við Búnaðarbankann er um margt athyglisverður. Sparisjóður Dalasýslu starfar áfram sem sjálfstæð eining, þó verkefnin og bundnar innstæður sjóðsins í Seðlabankanum hafi verið færðar Búnaðarbankanum. Stjórn Búnaðarbankans lofar að útibúið starfi með líkum hætti í grundvallaratriðum og sparisjóðurinn, og varasjóðinn skal ávaxta í útibúinu.
    Friðjón Þórðarson segir í áðurnefndu riti: „Það skal skýrt og greinilega tekið fram, að slíkur samningur hefði alls ekki verið gerður nema við ríkisbanka, sem menn töldu sig geta treyst að starfa myndi á sama grunni til frambúðar. Samningurinn ber allur þess merki.“

Er endurheimt Sparisjóðs Dalasýslu möguleg?
    Þrátt fyrir að Sparisjóður Dalamanna hætti að starfa sem lánastofnun er árlega haldinn ársfundur sjóðsins. Ábyrgðamennirnir halda hópinn og líta svo á að Sparisjóðurinn sé áfram til þó svo verkefnin hafi með ákveðnum skilyrðum verið falin öðrum. Þessir ábyrgðarmenn sem nú myndu heita stofnfjárfestar hafa ekki innheimt stofneign sína.
    Sú spurning hlýtur að vakna hvort kaupin geti gengið til baka, og svarið er jákvætt. Í 10. grein samningsins stendur: „Ef útibú bankans verður lagt niður, skal það sameinast Sparisjóði Dalasýslu, ef það verður þá ósk forráðamanna sjóðsins og fer þá fram yfirtaka á starfsemi útibúsins, eignum þess og skuldum með svipuðum hætti og hér er gert af hálfu Búnaðarbankans.“
    Þegar Búnaðarbankinn varð hlutafélag og gefin út heimild til að selja hann var það án allra kvaða. Engar kröfur eru um að reka útibú eða fjármálaþjónustu út um byggðir landsins. Eftir að ríkið hefur selt meirihlutaeign sína í Búnaðarbankanum geta Dalamenn engin áhrif haft á það hvort Búnaðarbankinn reki útibú eða aðra fjármálaþjónustu í Búðardal. En hafa Dalamenn þá misst Sparisjóðinn sinn?

Seldur Búnaðarbanki, hvað þá?
    Menn virðast nú reiðubúnir að slá skjaldborg um sparisjóðina í landinu, einmitt vegna eðlis þeirra og náinna tengsla við nágrenni sín. En jafnvel þó sparisjóðirnir haldi velli liggur sú hætta í leyni að með kvaðalausri sölu ríkisbankanna verði samningar brotnir er hafa verið gerðir við þá héraðssparisjóði, sem fólu þeim verkefni sín í því trausti að hér væri um ríkisbanka að ræða. Þau héruð sem þá horfa á eftir fjármálaþjónustu sinni í gin peningagræðginnar ættu að spyrna við fótum og spyrja með Dalamönnum hvar er Sparisjóðurinn okkar? Getum við fengið hann aftur eða haft áhrif á hvernig arftaki hans, bankaútibúið starfar. Einkavæddur og seldur Búnaðarbanki eða Landsbanki mun ekki bera neinar staðbundnar skyldur og starfar á allt öðrum forsendum en sparisjóðirnir gera samkvæmt skipulagsskrám sínum. Þeir geta t.d. einhliða lokað útibúum sínum þegar þeim sýnist. Sporin hræða. Landsbankinn hikaði ekki við að loka nokkrum útibúum sínum á landsbyggðinni sl. vetur þar sem þeir voru eini aðilinn með bankaþjónustu. Vill íslenska þjóðin þessa þróun? Ég held ekki.