Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 638  —  447. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 117/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    C-liður 1. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    IV. kafli laganna, Ferðamálasjóður, fellur brott.

3. gr.

    36. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Frá og með 1. janúar 2003 yfirtekur ríkissjóður allar eignir og skuldir Ferðamálasjóðs. Byggðastofnun er falið að sjá um innheimtu á útlánum sjóðsins. Innköllun til lánardrottna Ferðamálasjóðs skal eigi gefin út. Umboð stjórnar sjóðsins fellur niður frá sama tíma.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu.
    Endurskoðun á sjóðakerfi atvinnuveganna hefur farið fram á undanförnum árum og hefur leitt til þess að fjárfestingarlánasjóðir í iðnaði og sjávarútvegi hafa verið lagðir niður. Ferðamálasjóður er einn örfárra starfsgreinasjóða sem enn eru til.
    Vorið 2002 skipaði samgönguráðherra vinnuhóp til að fara yfir stöðu Ferðamálasjóðs og gera tillögur til ráðstafana varðandi framtíð hans. Tilefni þess var sú staða sem var komin upp í fjármálum sjóðsins að eiginfjárhlutfall uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Með bréfi, 26. júlí 2002, veitti viðskiptaráðherra Ferðamálasjóði sex mánaða frest, til 25. janúar 2003, til að koma eiginfjárhlutfalli sjóðsins í lögmætt horf. Fresturinn var veittur að tillögu Fjármálaeftirlitsins. Frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki hefur verið lagt fyrir Alþingi. Verði frumvarpið að lögum munu lög nr. 113/1996 og nr. 123/1993 verða felld úr gildi. Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir því að Ferðamálasjóður verði undanþeginn lögunum, þ.e. að hann verði ekki skilgreindur sem fjármálafyrirtæki. Af þessu leiðir að reglur um lágmarkshlutfall eiginfjár munu ekki eiga við um Ferðamálasjóð. Í greinargerð með frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki eru þær skýringar gefnar að fyrirhugaðar séu breytingar á rekstri Ferðamálasjóðs og að verulega verði dregið úr starfsemi hans eða hann hætti alveg sjálfstæðum rekstri.
    Í samræmi við þessa stefnumörkun er með frumvarpi þessu lagt til að Ferðamálasjóður verði lagður niður í núverandi mynd. Lagt er til að eignir og skuldir sjóðsins verði yfirteknar af ríkissjóði og að umboð stjórnar Ferðamálasjóðs falli niður frá og með gildistöku laga þessara. Ekki er gert ráð fyrir opinberri innköllun frá lánardrottnum Ferðamálasjóðs en gert er ráð fyrir að Byggðastofnun verði falið að sjá um innheimtu útlána sjóðsins.
    Samkomulag hefur náðst á milli samgöngu-, iðnaðar- og fjármálaráðuneytis um að stuðningur við verkefni á sviði ferðaþjónustu verði áfram veittur í formi samstarfs Ferðamálaráðs og Byggðastofnunar, sbr. 4. tölul. 4. gr. og 10. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999. Verkefnin verði annars vegar fjármögnuð með styrkjum af hálfu ferðamálayfirvalda og hins vegar með lánum frá Byggðastofnun. Gert er ráð fyrir að fjármunir sem varið er í málaflokkinn muni nýtast betur en með núverandi fyrirkomulagi. Markmið verkefnanna verður að styrkja nýsköpun á sviði ferðaþjónustu, auk þess að efla hlutverk Byggðastofnunar sem lánveitanda í ferðaþjónustu. Að öðru leyti er gert ráð fyrir fyrirgreiðslu fjármálastofnana.
    Í frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að fella brott heimildarákvæði 36. gr. laganna um gjaldtöku fyrir þjónustu við ferðamenn á ferðamannastöðum í umsjá ríkisins. Þetta heimildarákvæði hefur aldrei verið nýtt, enda er dýrt og viðurhlutamikið að innheimta slíkt gjald og því er ekki talin ástæða til að halda því inni í lögum.

    

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag ferðamála,
nr. 117/1994, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að Ferðamálasjóður verði lagður niður frá og með 1. janúar 2003. Jafnframt er gert ráð fyrir að eignir og skuldir sjóðsins verði yfirteknar af ríkissjóði og að umboð stjórnar Ferðamálasjóðs falli niður. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að fyrirhugað sé samstarf milli Ferðamálaráðs og Byggðastofnunar um nýtingu þeirra fjármuna sem þegar eru veittir til stuðnings ferðaþjónustu. Verkefni af þessum toga verða annars vegar fjármögnuð með styrkjum af hálfu ferðamálayfirvalda og hins vegar með lánum frá Byggðastofnun. Markmið verkefnanna verður að styrkja nýsköpun á sviði ferðaþjónustu um land allt, auk þess að efla hlutverk Byggðastofnunar sem lánveitanda í ferðaþjónustu. Að öðru leyti verður treyst á lánafyrirgreiðslu almennra lánastofnana. Ekki er gert ráð fyrir að veitt verði viðbótarfjármagn vegna þessara verkefna og því mun frumvarpið ekki hafa kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.
    Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að 36. gr. gildandi laga falli niður sem er heimildarákvæði um gjaldtöku fyrir þjónustu á opinberum ferðamannastöðum.