Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 607. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 970  —  607. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2002.

1.     Inngangur.
    Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) var stofnað árið 1889 og er hlutverk þess að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum, hlúa að samstarfi þeirra og auka skilning á milli þjóða. Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga nú 144 þing en aukaaðilar að sambandinu eru fimm svæðisbundin þingmannasamtök. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf en það hefur jafnframt skrifstofu í New York. IPU fjallar um alþjóðamál og vinnur að framgangi mannréttindamála sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Á síðasta ári gerðust þau tíðindi að IPU fékk áheyrnaraðild að Sameinuðu þjóðunum og rétt til að dreifa skjölum sambandsins á allsherjarþinginu. Þá flutti IPU í desember í nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar í Genf.
    Starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins er fjármögnuð með framlögum frá aðildarþingum þess. Þing IPU taka pólitískar ákvarðanir og álykta um alþjóðamál. Ráð IPU, sem í eiga sæti tveir fulltrúar frá hverri landsdeild, markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Tólf manna framkvæmdastjórn hefur m.a. umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess.
    Fjórar fastanefndir eru starfandi innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     I.      nefnd um stjórnmál, öryggis- og afvopnunarmál,
     II.      nefnd um lagaleg málefni og mannréttindamál,
     III.      nefnd um efnahags- og félagsmál,
     IV.      nefnd um mennta-, vísinda-, menningar- og umhverfismál.
    Til viðbótar eru nú starfandi eftirfarandi nefndir og vinnuhópar: nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um sjálfbæra þróun, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhópur um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, samhæfingarnefnd um öryggismál og samstarf á Miðjarðarhafssvæðinu, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU, vinnuhópur um samstarf kynjanna og stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna IPU.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis. Alþjóðaþingmannasambandið gefur reglulega út bækur, tímarit, handbækur og skýrslur sem nálgast má á skrifstofu Íslandsdeildarinnar og á vefsíðu IPU, www.ipu.org.
    
2.     Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Íslandsdeildin var skipuð þeim Einari K. Guðfinnssyni, þingflokki sjálfstæðismanna, formanni, Jóhönnu Sigurðardóttur, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformanni, og Ástu Möller, þingflokki sjálfstæðismanna. Varamenn Íslandsdeildar voru Guðjón Guðmundsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Sigríður Ingvarsdóttir, þingflokki sjálfstæðismanna. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs.

3.    Störf og ályktanir 107. þings IPU.
    Einungis eitt þing var haldið á árinu. IPU er að þreifa sig áfram með skipulagsbreytingar þar sem haldið er eitt stórt þing á ári í einhverju aðildarríkja sambandsins í stað tveggja áður. Haustfundur sem er minni í sniðum er síðan haldinn í Genf. Er þetta gert í sparnaðarskyni. Árið 2002 var 107. þing IPU haldið í Marrakesh í Marokkó.
    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Einar K. Guðfinnsson, formaður Íslandsdeildar, Gísli S. Einarsson og Ásta Möller, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar.
    Við setningu þingsins fluttu eftirtaldir ávörp: M. Abdelwahed Radi, forseti neðri deildar marrokóska þingsins, Ruud Lubbers, sérlegur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum flóttamanna, Najima Heptulla, forseti IPU-ráðsins, og hans hátign Mohammed sjötti, konungur Marokkó.
    Að venju voru á þingfundinum almennar umræður um „stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum“. Einar K. Guðfinnsson tók til máls í almennum umræðum. Hann ræddi annars vegar um viðskiptafrelsi og hins vegar um umhverfismál, þar sem hann kom inn á sjálfbæra nýtingu auðlinda, nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og um nauðsyn þess að vinna á alþjóðavettvangi gegn mengun hafsins.
    Þingið afgreiddi ályktanir um fjögur mál. Tvö sérstök málefni höfðu að venju verið undirbúin til umræðu á þinginu og voru þau fyrst rædd í nefndum. Í I. nefnd þingsins, nefnd um stjórnmál, öryggis- og afvopnunarmál, var umræðuefnið hlutverk þjóðþinga á tímum alþjóðavæðingar, alþjóðastofnana og alþjóðlegra viðskiptasamninga. Gísli S. Einarsson flutti ræðu á fundi nefndarinnar þar sem hann benti á að alþjóðavæðingin hefði margar jákvæðar hliðar, t.d. gæti hún leitt til aukins hagvaxtar og frelsis, glætt lýðræðisþróun og virðingu fyrir mannréttindum. Vissulega hefði alþjóðavæðingin jafnframt neikvæðar hliðar, en það væri hlutverk ríkisstjórna og þjóðþinga að setja viðeigandi lagaramma til að vernda borgarana og gera þeim kleift að nýta alþjóðavæðinguna. Hann taldi brýnt að nýta alþjóðavæðinguna til að ná m.a. fram eftirfarandi markmiðum: jafnrétti kynjanna, útrýmingu fátæktar og aukinni grunnmenntun sem gerði öllum kleift að læra að lesa og skrifa.
         Þegar ályktun um þetta mál kom til afgreiðslu á þinginu gerði Einar K. Guðfinnsson fyrirvara þar sem hann taldi að tónninn í ályktuninni væri of neikvæður og á móti frjálsum viðskiptum. Dregin væri upp mjög neikvæð mynd af alþjóðavæðingu og áhrifum hennar, en ekkert getið um jákvæðar hliðar hennar og hvernig hana mætti nýta.
    Í IV. nefnd þingsins, nefnd um mennta-, vísinda-, menningar og umhverfismál, var fjallað um umhverfismál og stuðning við Kýótó-bókunina. Ásta Möller hélt ræðu á þeim nefndarfundi og sagði frá notkun Íslendinga á endurnýjanlegum orkugjöfum. Hún lagði áherslu á aukna nýtingu jarðvarma, en slíkt gæti komið sér sérstaklega vel fyrir þróunarlönd. Í þessu sambandi fjallaði hún um Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Ásta sagði frá tilraunum á Íslandi með vetni og metangas. Hún útskýrði að ríkisstjórn Íslands væri búin að leggja fram þingsályktunartillögu til staðfestingar á Kýótó-bókuninni og gert væri ráð fyrir að hún yrði samþykkt á Alþingi á yfirstandandi þingi. Hún lagði áherslu á að næsta stórverkefni á sviði umhverfisverndar ætti að fjalla um hafið. Gera þyrfti nákvæma úttekt á ástandi hafsins, lífríki þess og mengun. Jafnframt þyrfti að fjalla um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins.
    Þau atriði sem Íslandsdeildin lagði áherslu á komust öll til skila í ályktuninni. Einar K. Guðfinnsson lagði fram breytingartillögu í nefndinni þar sem ríki heims voru hvött til að reisa skorður gegn losun kjarnorkuúrgangs í hafið og var hún samþykkt. Hann lagði jafnframt fram breytingartillögu í nefndinni þess efnis að ekki yrði minnst á Bandaríkin sérstaklega þegar ríki væru hvött til að staðfesta Kýótó-bókunina, þar sem ekki væri venja að nefna eitt ríki sérstaklega, en sú tillaga var felld. Kanadískur þingmaður bar tillöguna aftur upp þegar ályktunin kom til afgreiðslu á þinginu, en hún var aftur felld. Fulltrúar Alþingis greiddu atkvæði með breytingartillögunni.
    Samþykkt var á fyrsta degi þingsins að hafa utandagskrárumræðu í stjórnmálanefndinni um hryðjuverkastarfsemi og var síðan ályktun um málið samþykkt á þinginu. Þar eru m.a. öll þjóðþing hvött til þess að vinna að samþykkt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um hryðjuverk.     Þá var samþykkt að leggja fram neyðarályktun um stuðning við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1397. Vinnunefnd var sett á laggirnar til að koma saman ályktunartexta og fékk Einar K. Guðfinnsson það vandasama verk að stýra starfi nefndarinnar. Fulltrúar allra pólitískra svæðishópa áttu fulltrúa í nefndinni og jafnframt fulltrúar Palestínumanna og Ísraela. Fundur nefndarinnar var ekki átakalaus, en undir stjórn Einars tókst að setja fram texta sem allir aðilar voru sáttir við. Ályktunin var lögð fyrir þingið og samþykkt óbreytt. Í ályktuninni er lýst stuðningi við framkvæmd ályktunar 1397 og sérstaklega við þá framtíðarsýn að tvö ríki, Ísrael og Palestína, standi hlið við hlið innan öruggra og viðurkenndra landamæra. Ísraelar og Palestínumenn eru m.a. hvattir til að taka aftur upp pólitískar viðræður um sameiginlega framtíð þannig að rökfræði friðar komi í stað rökfræði stríðs, ofbeldis og hryðjuverka. Þeir eru jafnframt hvattir til að styðja störf sendifulltrúa Bandaríkjanna, Rússlands og Evrópusambandsins, til að virða vopnahlé, virða alþjóðleg mannúðarlög og binda enda á ófriðinn með það fyrir augum að tryggja öryggi Ísraela og Palestínumanna, gera stofnunum Palestínumanna kleift að starfa með frjálsum hætti og tryggja óheftar og öruggar ferðir Ísraela og Palestínumanna.

4.    Störf og ályktanir haustfundar 2002.
    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu fundi Einar K. Guðfinnsson, formaður Íslandsdeildar, Jóhanna Sigurðardóttir varaformaður, Ásta Möller og Belinda Theriault, ritari Íslandsdeildar.
    Eins og sagt var frá í síðasta kafla var ákveðið á síðasta ári að draga úr kostnaði árið 2002 og prófa nýtt fundarform. Í stað haustþings var nú haldinn sérstakur ráðsfundur (special session of the IPU Council). Þessi fundur var mun fámennari en þing og í stað þess að standa í kostnaðarsömum flutningi skrifstofu IPU til fjarlægs lands var fundurinn haldinn í Genf. Þá var breytt nokkuð um starfsaðferðir þannig að tilnefndir voru sérstakir skýrsluhöfundar til að undirbúa umræðurnar með skýrslu og ályktanadrögum. Hingað til hafa allir haft rétt til að senda inn minnisblöð og ályktanadrög fyrir fundinn og síðan hafa menn lesið upp tilbúnar ræður á fundinum. Reynt var að gera fundinn meira lifandi og voru þingmenn hvattir til að flytja ekki tilbúnar ræður, heldur eiga virk skoðanaskipti, bregðast við skýrslunni og ályktanadrögunum sem og ummælum annarra þingmanna. Viðbrögð við þessari tilraun voru almennt jákvæð. Fundurinn þótti takast nokkuð vel, þó að sumir hafi haldið í gamla stílinn. Áfram verður haldið að þróa þetta nýja fundarform.
    Fulltrúar 122 aðildarríkja IPU sóttu ráðsfundinn í Genf, auk aukaaðila og áheyrnarfulltrúa. Eitt málefni var tekið fyrir á hinum sérstaka ráðsfundi, þ.e. fjármögnun þróunaraðstoðar. Þrír skýrsluhöfundar unnu skýrslu um málið fyrir fundinn og lögðu jafnframt fram drög að ályktun. Einar K. Guðfinnsson var einn skýrsluhöfunda, en samstarfsmenn hans voru frá Tælandi og Suður-Afríku. Einar kynnti skýrsluna fyrir hönd þeirra þriggja í upphafi ráðsfundar, en síðan fóru fram almennar umræður á grundvelli hennar. Skýrslunni var mjög vel tekið og þótti þessi tilraun með ný vinnubrögð innan IPU takast vel. Ernest Zedillo, fyrrverandi forseti Mexíkó og formaður sérfræðinganefndar sem hafði undirbúið skýrslu fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um fjármögnun þróunaraðstoðar sem haldin var í mars sl., hélt jafnframt erindi og svaraði fyrirspurnum. Ýmsar breytingartillögur komu fram við ályktanadrögin, en Einar og meðhöfundur hans frá Suður-Afríku unnu ötullega að því að finna málamiðlanir í viðkvæmum málum, þannig að lokaályktun var samþykkt samhljóða. Í ályktuninni eru þjóðþingin m.a. hvött til að styrkja eftirlit sitt með framkvæmd skuldbindinga Monterrey-samþykktarinnar og tryggja að í þróunarmálum setji stjórnvöld jafnréttismál á oddinn. Jafnframt eru þingin hvött til að setja lög sem stuðli að frjálsum og réttlátum viðskiptum, betri markaðsaðgangi fyrir þróunarríki og lækkun niðurgreiðslna og annarrar ríkisaðstoðar, sérstaklega á sviði landbúnaðar.
    171. ráðsfundur IPU, sem er í raun æðsta stjórn samtakanna, afgreiddi fjölda mála. Í IPU-ráðinu sitja tveir þingmenn frá hverju aðildarríki IPU og afgreiðir það m.a. starfs- og fjárhagsáætlun samtakanna, tekur ákvarðanir um inngöngu nýrra ríkja o.s.frv. Stærstu mál ráðsins að þessu sinni voru breytingar á starfi IPU, fjárhagsáætlun fyrir 2003, lagabreytingar og kjör nýs formanns IPU-ráðsins. Tvö ríki voru tekin á ný inn í IPU, þ.e. Mið-Afríkulýðveldið og Fídji-eyjar.
    Við umfjöllun um fjárhagsáætlun fyrir 2003 var 7% hækkun á framlögum aðildarríkja til IPU samþykkt. Lagabreytingar sem miðuðu að því að auka þátttöku kvenna voru samþykktar af ráðinu og verða lagðar fyrir næsta þing IPU. Þá fóru fram mjög spennandi kosningar um formann IPU-ráðsins til næstu þriggja ára. Tveir frambjóðendur, Paez Verdugo frá Chile og Tjitendero frá Namibíu, börðust um embættið og hafði sá fyrrnefndi betur, en það munaði aðeins sex atkvæðum á frambjóðendum.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna sem starfar innan IPU kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríkin sem í hlut áttu eru Hvíta-Rússland, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Ekvador, Gambía, Gínea, Hondúras, Indónesía, Madagaskar, Malasía, Mongólía, Burma, Pakistan, Rúanda, Tyrkland og Zimbabwe.

5.    Kvennanefnd IPU.
    Á þinginu í Marrakesh var Ásta Möller kjörin annar varaformaður kvennanefndar Alþjóðaþingmannasambandsins f.h. Vesturlanda. Forseti kvennanefndarinnar er frá Suður- Afríku og fyrsti varaforseti frá Japan. Kvennanefndin undirbýr m.a. kvennafundi sem haldnir eru í upphafi hvers IPU-þings. Kvennanefndin berst fyrir réttindum kvenna um heim allan og fyrir auknum hlut kvenna í stjórnmálum og veitir kvenkyns þingmönnum stuðning og aðstoð.
    Kvennanefnd IPU hélt fund í Genf og sótti Ásta Möller fundinn. Fundurinn fjallaði m.a. um tillögur til breytingar á lögum IPU til að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í störfum samtakanna og ákvað kvennanefndin að ljá þeim stuðning. Í tillögunum er gert ráð fyrir að sendinefnd sem þrisvar í röð samanstendur af einungis öðru kyninu missi viss réttindi, þ.e. að leyfilegum fjölda þingmanna í sendinefndinni fækki um einn og að hún missi hluta atkvæða sinna á þinginu. Jafnframt að ríki þar sem konur hafa ekki kosningarétt og rétt til að bjóða sig fram til þings geti ekki átt sæti í framkvæmdastjórn IPU. Eins og sagt er frá í umfjöllun um fund ráðs IPU í Genf, voru tillögur kvennanefndar samþykktar þar og verða lagðar fyrir 108. þing IPU í apríl 2003.

6.         Svæðisbundið samstarf innan IPU.
6.1.    Tólfplús-hópurinn.
    Venja er að daginn fyrir upphaf þings eða ráðsfundar hittist svokallaður Tólfplús-hópur, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist síðan á fundum flesta morgna meðan þing eða sérstakur ráðsfundur stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum.
    Beiðni um inngöngu í Tólfplús-hópinn frá Ísrael var tekin fyrir og samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta á þinginu í Marrakesh. Íslenska sendinefndin studdi inngöngu Ísraels. Í greinargerð frá stjórnarnefnd hópsins var m.a. tekið fram að öll aðildarríki IPU ættu rétt á að tilheyra svæðishópi innan sambandsins, en þar sem Ísrael gæti því miður ekki orðið aðili að sínum eðlilega landfræðilega hópi á þessum tíma, þá væri einungis um Tólfplús-hópinn að ræða þar til aðstæður breyttust. Auðveldara yrði að ræða við Ísraela um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs ef þeir væru innan Tólfplús-hópsins en ef þeir væru í einangrun. Ákvörðun Tólfplús-hópsins mætti ekki túlka sem samþykki varðandi núverandi stefnu Ísraela gagnvart Palestínumönnum, en væri merki um stuðning við friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs. Það fæli í sér að hvorki ísraelsk né palestínsk stjórnvöld mættu hindra frjáls samskipti ísraelskra og palestínskra þingmanna við kollega sína.

6.2.    Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og ráðsfundar og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Ísland fór með forustu í Norðurlandahópnum á árinu og voru samráðsfundirnir því haldnir hér á landi, sá fyrri í febrúar í Reykjavík en sá síðari á Ísafirði í ágúst. Formaður og ritari Íslandsdeildar sitja að öllu jöfnu þessa fundi, en þar sem þeir voru haldnir á Íslandi tók öll Íslandsdeildin þátt í fundunum að þessu sinni. Vegna fyrirhugaðra breytinga á starfi IPU og vinnunnar í kringum þær var talin ástæða til að halda aukafund í norræna hópnum á árinu til þess að tryggja áhrif Norðurlanda á útkomuna. Sá fundur var haldinn í maí á Kastrupflugvelli. Formaður og ritari Íslandsdeildar sóttu hann. Einar K. Guðfinnsson stýrði fundunum þremur. Íslandsdeildin hafði forustu um umfjöllun Norðurlanda um tillögur framkvæmdastjórnar IPU um breytingar á starfi samtakanna og vann m.a. sameiginlega yfirlýsingu Norðurlanda um málið sem send var framkvæmdastjórninni. Íslandsdeildin bauð öllum fulltrúum Norðurlanda til hádegisverðar á þinginu í Marrakesh þar sem þeir höfðu tækifæri til að bera saman bækur sínar og ræða framgang mála á þinginu.

7.     Breytingar á starfi IPU.
    Umræður um breytingar á starfi IPU voru fyrirferðarmiklar á árinu, bæði á þinginu, á ráðsfundum og í svæðisbundnu samstarfi. Hugsanlegar breytingar hafa verið til umfjöllunar undanfarin ár og hefur þróun umræðunnar og afstöðu Íslandsdeildar verið gerð skil í fyrri ársskýrslum. Fjármál samtakanna hafa jafnframt verið stór hluti af þessari umræðu. Fyrir þingið í Marrakesh lagði Íslandsdeildin fram nýja greinargerð um málið sem svar við nýjustu tillögum framkvæmdastjórnar IPU. Einar K. Guðfinnsson kynnti helstu áherslur Íslandsdeildar í sérstökum umræðum sem fóru fram á þinginu. Ákveðið var að framkvæmdastjórn IPU útfærði tillögur sínar frekar með tilliti til umræðunnar á þinginu.
    Framkvæmdastjórnin lagði síðar um vorið fram endurbætta tillögu sem grundvöll ákvarðana á ráðsfundinum í Genf. Norðurlönd hafa í ferlinu öllu tekið virkan þátt í þróun tillagnanna og þar sem ráðsfundurinn átti að vera viss endapunktur umræðunnar ákváðu þau að senda framkvæmdastjórninni sameiginlega yfirlýsingu þar sem farið var efnislega yfir allar tillögurnar.
    Í Genf var loks samþykkt tillaga framkvæmdastjórnar um breytingar á starfi IPU. M.a. er gert ráð fyrir einu þingi á ári, en haustfundur verður með svipuðu sniði og nú, þ.e. haldinn sérstakur ráðsfundur í stað haustþings. Umræður á þinginu verða jafnframt með breyttu sniði og nefndir IPU verða þrjár en voru fjórar. Þá á að styrkja hlutverk svæðishópanna. Nauðsynlegar lagabreytingar verða afgreiddar á næsta þingi IPU, en stefnt er að því að byrja að starfa eftir nýju reglunum um mitt næsta ár ef þær hljóta samþykki.

8.     Starf IPU árið 2003.
    Næsta þing sambandsins verður í Santíagó í apríl 2003. Þar eru á dagskrá annars vegar hlutverk þinga við að styrkja lýðræðislegar stofnanir og þróun mannsins í sundruðum heimi og hins vegar alþjóðlegt samstarf vegna náttúruhamfara sem virða ekki landamæri og áhrif þeirra á viðkomandi svæði. Jafnframt verða teknar fyrir viðamiklar lagabreytingar, bæði til breytingar á almennri starfsemi IPU og til að efla hlut kvenna í starfi samtakanna.
    Haustfundur verður haldinn í Genf, en dagskrá hans verður ákveðinn í Santíagó. Að venju stendur IPU fyrir ráðstefnum og minni fundum um ákveðin málefni. Sem dæmi má nefna að haldin verður ráðstefna í febrúar um starfsemi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og í maí verður námsstefna fyrir þingmenn og embættismenn þinga frá Suðvestur-Asíu um fjárlagagerð.

9.         Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2002.
9.1.    Ályktanir 107. þings IPU.
          Hlutverk þjóðþinga við mótun stefnu á tímum hnattvæðingar, alþjóðastofnana og alþjóðlegra viðskiptasamninga.
          Tíu árum eftir Ríó: náttúruspjöll á heimsvísu og stuðningur þingmanna við Kýótó- bókunina.
          Hryðjuverk – ógn við lýðræði, mannréttindi og borgaralegt samfélag: hlutverk þjóðþinga í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi og framlag þeirra til að takast á við orsakir hryðjuverka svo að tryggja megi frið og öryggi í heiminum.
          Framlag þjóðþinga til stuðnings ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1397 frá 12. mars 2002, sérstaklega málsgreininni þar sem lýst er stuðningi við það markmið að tvö ríki, Ísrael og Palestína, standi hlið við hlið innan öruggra og viðurkenndra landamæra.

9.2.    Ályktun sérstaks ráðsfundar IPU.
          Fjármögnun þróunaraðstoðar.


Alþingi, 1. febr. 2003.



Einar K. Guðfinnsson,


form.


Jóhanna Sigurðardóttir,


varaform.


Ásta Möller.