Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 427. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 979  —  427. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um ársreikninga, nr. 144/1994, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elvu Ósk Wiium frá fjármálaráðuneytinu og Guðmund Guðbjarnason viðskiptafræðing.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum banka- og verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Verslunarráði Íslands, reikningsskilaráði, Kauphöll Íslands hf. og Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á íslenskum reikningskilareglum sem miða að því að mæta þeirri þróun sem orðið hefur hér á landi og annars staðar, m.a. á vettvangi ESB.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að skýringarorðin „hlutafé“ og „hlutir“ í a-lið 1. gr. falli brott þar sem þau þykja óþörf.
     2.      Lagt er til að hugtakið félagsaðili verði notað stað orðsins „aðili“ í c-lið 1. gr. Hugtakið „félagsaðili“ er skilgreint í 2. tölul. 2. mgr. 1. gr. laganna. Sú skilgreining er í samræmi við þá merkingu sem leggja ber í hugtakið „aðili“ í þessari grein frumvarpsins og því eðlilegt að það sé notað. Auk þess er hnykkt á orðalagi ákvæðis c-liðar sama liðar þar sem um er að ræða félagsaðila sem hefur rétt til ákvörðunarvalds á grundvelli samþykkta félagsins eða samninga við það en í e-lið er fjallað um ákvörðunarvald vegna eignarhluta.
     3.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á a- og b-liðum e-liðar 1. gr. Breytingarnar eru ekki efnislegar.
     4.      Lögð er til breyting á 2. efnismgr. 6. gr. þess efnis að skýrt sé að aðeins megi í undantekningartilvikum víkja frá ákvæðum laga um samningu ársreikninga ef það leiðir til þess að ársreikningur gefi glögga mynd sem hann ella hefði ekki gert ef farið væri eftir lögum og góðri reikningsskilavenju. Ströng skilyrði eru í greininni um að greina skuli frá slíkum frávikum ásamt ástæðum fyrir þeim og hvaða áhrif þau hafa á afkomu og efnahag.
     5.      Lögð er til breyting á 11. gr. þess efnis að það verði skýrt nánar hvenær færa skuli tekjur eða gjöld sem varða fyrri ár til breytinga á óráðstöfuðu eigið fé í stað þess að færa fjárhæðirnar á rekstrarreikning og er tillagan í samræmi við reglu nr. 5 sem reikningsskilaráð hefur gefið út, sbr. auglýsingu nr. 349/2000.
     6.      Lagt er til að í c-lið 3. tölul. 1. mgr. 20. gr. laganna, sbr. 12. gr. frumvarpsins, verði vísað til 24. gr. laganna sem fjallar um frávik frá kostnaðarverðsreglunni, til frekari skýringar.
     7.      Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein þess efnis að skylt verði að leysa upp endurmatsreikning sem myndaður er með sérstöku endurmati þegar raunvirði fastafjármuna er talið verulega hærra en kostnaðarverð þeirra af ástæðum sem taldar eru varanlegar. Samkvæmt greininni skal fjárhæð árlegrar afskriftar af mismun á endurmetnu verði og kostnaðarverði færð af endurmatsreikningi á eigið fé. Einnig skal leysa upp endurmatsreikning að því marki sem eftir stendur af endurmatinu við sölu eignarinnar eða förgun og ef forsendur fyrir endurmatinu eru ekki lengur fyrir hendi.
     8.      Lagt er til að við 21. gr. bætist nýr stafliður þess efnis að gera skuli grein fyrir skattinneign með sama hætti og frestaðri skattskuldbindingu.
     9.      Lagt er til að 43. gr. frumvarpsins falli brott. Með breytingunni mun bráðabirgðaákvæði laganna um frestun afnáms verðleiðréttra reikningsskila halda sér í tvö ár eins og nú er gert ráð fyrir.
    Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram frekari breytingartillögur við frumvarpið.

Alþingi, 13. febr. 2003.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Guðjón Guðmundsson.



Páll Magnússon.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.