Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 621. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 992  —  621. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 2002.

1. Inngangur.
    Vestur-Evrópusambandið (VES) er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brussel-sáttmálanum árið 1948. Stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO) árið 1949 skyggði nokkuð á starfsemi VES en með breyttri skipan öryggis- og varnarmála í kjölfar endaloka kalda stríðsins jókst mikilvægi stofnunarinnar til muna. Með Maastricht-sáttmálanum árið 1991 var VES falin útfærsla og framkvæmd varnarmálahluta sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópusambandsins (ESB). Næstu ár efldist VES verulega og gegndi æ stærra hlutverki í öryggismálum Evrópu. Auk þess sem sambandinu var ætlað að annast framkvæmd á fyrirhuguðum varnarmálahluta ESB átti það að gegna hlutverki Evrópustoðar NATO. Af þessum sökum var litið á VES sem hlekkinn á milli NATO og utanríkis- og varnarmála ESB.
    VES-þingið kom fyrst saman árið 1954 þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild að sambandinu. Á VES-þinginu koma saman þjóðkjörnir þingmenn frá aðildarríkjum sambandsins, en þau eru nú tíu talsins, þ.e. öll aðildarríki ESB og NATO. Aukaaðild að þinginu eiga þau evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, þ.e. Ísland, Noregur, Pólland, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland. Áheyrnaraðild að VES-þinginu eiga þau ESB-ríki sem fylgt hafa hlutleysisstefnu í utanríkismálum, auk Danmerkur. Loks hafa sjö ríki Mið- og Austur-Evrópu gert samstarfssamninga við VES. Eftirfarandi ríki eiga aðild að þinginu: Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Aukaaðildarríkin eru: Ísland, Noregur, Pólland, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland. Áheyrnaraðild hafa: Austurríki, Danmörk, Finnland, Írland og Svíþjóð. Þá eru samstarfsríkin sjö talsins: Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Rúmenía, Slóvakía og Slóvenía.
    Þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, oftast í júní og desember. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um málefni sem eru efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherraráðs VES og beinir fyrirspurnum til þess. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku en umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Málefnanefndir VES- þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Á þinginu starfa, auk málefnanefnda, forsætisnefnd (e. Presidential Committee) og stjórnarnefnd (e. Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, níu varaforsetar þess (einn frá hverju hinna aðildarríkjanna), nefndaformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þrír fulltrúar til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd. Nefndir þingsins halda alla jafna 4–5 fundi á ári utan þingfundanna.

2. Íslandsdeild VES-þingsins árið 2002.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi VES-þingsins. Aukaaðilar geta samkvæmt núverandi reglum þingsins tekið ríkan þátt í störfum þess og hafa málfrelsi á þingfundum. Þeir njóta þó ekki fullra réttinda og hafa ekki atkvæðis- eða tillögurétt á þingfundum. Sú hefð hefur hins vegar skapast að fulltrúar aukaaðildarríkja geta lagt fram tillögur og breytingartillögur í þinginu, að því gefnu að fulltrúar aðildarríkja skrifi einnig undir þær. Fulltrúar aukaaðildarríkja hafa ekki heldur rétt til að tala á móðurmáli sínu á fundum þingsins. Á hinn bóginn hafa aukaaðilar rétt til að taka til máls og greiða atkvæði í nefndum og gera breytingartillögur. Þannig geta aukaaðilar haft áhrif á þær tillögur og skýrslur sem ræddar eru á þingfundum þegar þær eru í mótun. Aukaaðilar geta einnig beint fyrirspurnum til ráðherraráðs.
    Aðalmenn Íslandsdeildar VES-þingsins á árinu voru eftirtaldir: Kristján Pálsson formaður og Katrín Fjeldsted varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Þá voru varamenn: Einar Oddur Kristjánsson og Sigríður Ingvarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildar VES-þingsins.
    Skipan Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2002 var eftirfarandi:
Forsætisnefnd: Kristján Pálsson.
Til vara: Katrín Fjeldsted.
Stjórnarnefnd: Kristján Pálsson.
Til vara: Katrín Fjeldsted.
Stjórnmálanefnd: Kristján Pálsson.
Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Varnarmálanefnd: Katrín Fjeldsted.
Til vara: Sigríður Ingvarsdóttir.
Nefnd um almannatengsl: Lúðvík Bergvinsson.
Til vara: Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Tækni- og geimvísindanefnd: Lúðvík Bergvinsson.
Til vara: Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Fjármála- og stjórnsýslunefnd: Katrín Fjeldsted.
Til vara: Sigríður Ingvarsdóttir.
Þingskapanefnd: Katrín Fjeldsted.
Til vara: Sigríður Ingvarsdóttir.

3. Breytt staða VES og áhrif þess á VES-þingið.
    Árið 2002 voru framtíðarhorfur VES-þingsins ofarlega á baugi í umræðum auk þess sem þær snerust að töluverðu leyti um stofnanatengsl Vestur-Evrópusambandsins við Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið en síðustu ár hafa miklar breytingar átt sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu. Forsögu þessa má rekja til leiðtogafundar Bretlands og Frakklands í St. Malo í desember 1998 er öryggismálum álfunnar var beint inn á ótroðnar slóðir. Þar var ákveðið að ESB kæmi sér upp sjálfstæðum hernaðarmætti og í framhaldinu var ákveðið á leiðtogafundum ESB í Köln árið 1999 að stefna bæri að því að ESB tæki við flestum verkefnum VES fyrir árslok árið 2000. Á fundi leiðtoga aðildarríkja ESB í Helsinki síðar sama ár urðu leiðtogarnir sammála um að NATO yrði áfram grundvöllur sameiginlegra varna ríkja sambandsins, en jafnframt að nauðsynlegt væri að koma á nýjum pólitískum og hernaðarlegum stofnunum er gerðu Evrópuríkjunum kleift að efna til hernaðaraðgerða undir forustu ESB þegar bregðast þyrfti við alþjóðlegum vanda. Samkvæmt ákvörðunum leiðtoga aðildarríkja ESB hefur nauðsynlegum stofnunum þegar verið komið á fót innan „annarrar stoðar“ ESB og auk þess hefur hernaðarlegum markmiðum sambandsins þegar verið ýtt úr vör en stefnt er að því að það hafi á að skipa 50–60.000 manna evrópsku herliði sem brugðist geti skjótt við er hættuástand skapast. Ákvarðanir nokkurra leiðtogafunda ESB og yfirlýsing leiðtogafundar NATO í Washington lágu til grundvallar beinu sambandi milli NATO og ESB í þessum málum og hefur þróunin í átt að sjálfstæðum hernaðarmætti ESB í kjölfarið gert það að verkum að hlutverk VES í öryggis- og varnarmálum álfunnar er nokkru minna en áður í ljósi þess að stofnanir öryggis- og varnarmála álfunnar hafa færst á ábyrgð ESB. Jafnframt var í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO kveðið á um mikilvægi þátttöku evrópsku NATO- ríkjanna utan ESB í öryggis- og varnarsamstarfi á vegum ESB og að NATO-ríkin utan ESB fengju aðgang að búnaði NATO. Því er ljóst að nauðsynlegt er að Ísland tengist VES nánari böndum og gæti þannig að stöðu landsins í öryggis- og varnarmálum Evrópu.
         VES-þingið hefur verið mikilvægur þátttakandi í umræðunni um hvernig staðið verði að evrópsku þingi er hafi öryggis- og varnarmál til umfjöllunar. VES-þingið hefur lagt til að komið verði á fót öryggis- og varnarmálaþingi Evrópu þar sem þjóðkjörnir þingmenn hefðu eftirlit með starfsemi stofnana ESB á sviði öryggis- og varnarmála. Þá hefur verið lagt til að nýja þingið yrði grundvallað á ESB-sáttmálanum og að þingmenn þjóðþinga ESB-ríkjanna 15 tækju þar sæti, auk þjóðkjörinna þingmanna evrópsku aðildarríkja NATO sem eru ekki aðilar að ESB. Þá var ákveðið að VES-þingið tæki upp viðbótarheitið: Tímabundið öryggis- og varnarmálaþing Evrópu (e. The Interim European Security and Defence Assembly).
    Þrátt fyrir umfangsmiklar stofnana- og skipulagsbreytingar í Evrópu á undanförnum árum er VES-þingið enn sem komið er eina evrópska þingmannasamkundan sem gefur þjóðkjörnum þingmönnum færi á að fylgjast með og ræða sameiginleg öryggis- og varnarmál álfunnar. Á næstu missirum mun Framtíðarráðstefna Evrópusambandsins (e. European Convention) leggja til svör við því hvernig haga beri þátttöku þjóðkjörinna þingmanna í störfum ESB. Á þetta ekki síst við um tilhögun áframhaldandi þátttöku þjóðkjörinna þingmanna í mikilvægum verkefnum í öryggis- og varnarmálum, svo sem umfjöllun um útgjöld til varnarmála og beitingu herafla í hættuástandsstjórnun. VES-þingið á áheyrnarfulltrúa á Framtíðarráðstefnunni og hefur þannig tekið virkan þátt í störfum hennar.
    Íslandsdeildin hefur í málflutningi sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að núverandi aukaaðildarríki VES geti tekið þátt í þróun öryggis- og varnarmálasamstarfs álfunnar, sem og framkvæmd þeirrar stefnu sem á endanum verður mótuð. Þá hefur Íslandsdeildin lagt áherslu á mikilvægi lýðræðislegs eftirlits þjóðkjörinnar þingmannasamkundu eins og VES- þingsins.

4. Þátttaka Íslandsdeildarinnar í starfsemi VES-þingsins á árinu.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegs þingfundar. Nefndir þingsins halda auk þess fundi nokkrum sinnum á ári. Á árinu tók Íslandsdeildin þátt í báðum hlutum þingfundarins.

a. Fyrri hluti 48. fundar VES-þingsins.
    Dagana 3.–5. júní var fyrri hluti 48. fundar VES-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Kristján Pálsson formaður, Katrín Fjeldsted varaformaður og Lúðvík Bergvinsson, auk Andra Lútherssonar ritara. Sem fyrr bar skipan Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) síðustu missiri hátt á fundi þingsins og þá sérstaklega hlutverk þjóðþinga VES-ríkja í þessu tilliti, hlutverk Evrópuríkja í hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi, afleiðingar stríðsins í Afganistan og stöðu mála í Miðausturlöndum. Þá var rætt um búnað herja Evrópuríkja og samvinnu hernaðaryfirvalda Evrópuríkja í meðhöndlun trúnaðarupplýsinga.
    Í upphafi þingfundar hélt Klaus Bühler, forseti VES-þingsins, ávarp þar sem fram kom að öryggis- og varnarsamstarf Evrópuríkja yrði að taka mið af þremur málefnum sem bæri hátt á alþjóðavettvangi nú um stundir. Í fyrsta lagi nefndi hann stöðu mála í Miðausturlöndum og samskipti Indverja og Pakistana vegna Kasmír-héraðs. Taldi hann að Evrópa yrði að taka aukið tillit til þeirra átakalína sem myndast hefðu á þessum svæðum. Í öðru lagi nefndi Bühler hina alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi. Sagði Bühler að Vesturlönd stæðu frammi fyrir viðvarandi ógnum þegar alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi væri annars vegar og að sú starfsemi hefði skotið rótum víða og tæki á sig ýmsar myndir. Lagði hann sérlega áherslu á að Evrópuríki yrðu að leggja sitt af mörkum til að uppræta það sem nefna mætti ríkisstyrkta hryðjuverkastarfsemi og sókn eftir gereyðingarvopnum. Í þriðja lagi nefndi hann að Evrópusambandið stæði frammi fyrir afar umfangsmiklum eðlisbreytingum með hliðsjón af stækkunarferlinu. Mörg pólitísk álitamál væru enn óútkljáð og ESB yrði að hraða úrlausn mála ef vel ætti að takast með næstu lotu stækkunar ESB. Þá ræddi Bühler um samstarf Bandaríkjanna og Evrópuríkja í baráttunni gegn hryðjuverkum og lýsti yfir nokkrum áhyggjum af því að Bandaríkjastjórn væri að einangrast í afstöðu sinni til einhliða aðgerða. Lagði hann áherslu á að koma yrði í veg fyrir að rof yrði í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu hvað þetta varðar og ítrekaði að Evrópuríki yrðu að koma til móts við kröfur Bandaríkjanna um aukin útgjöld til varnarmála. Um þessar mundir væri ekkert einstakt Evrópuríki reiðubúið að hækka útgjöld sín til þessa málaflokks og er fyrirséð að það muni leiða til aukins vanda. Taldi hann því afar óljóst hvenær ESB mundi verða reiðubúið að axla þá ábyrgð sem það hefði undirgengist samkvæmt forsendum hinnar sameiginlegu öryggis- og varnarmálastefnu sambandsins. Þá ræddi forseti þingsins um samskipti ESB og VES en hið fyrrnefnda hefur yfirtekið skuldbindingar Vestur-Evrópusambandsins í samræmi við Petersberg-verkefnin svonefndu. Í máli Bühlers kom fram að vissulega væri VES-þingið í erfiðri aðstöðu á þessu tímabili umskipta í öryggis- og varnarmálum álfunnar og þingmenn gætu vart vænst þess að fá sértæk svör við ítrekuðum spurningum sínum um þingræðislega vídd öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins. Sagði hann að ráðherraráð VES hefði nánast horfið sem samstarfsaðili VES-þingsins í þeirri umræðu sem fram hefði farið um málaflokkinn og að ESB starfi í raun án skýrt skilgreinds lagalegs ramma þar eð Nice- sáttmálanum hefði ekki verið hrundið í framkvæmd og að ekkert þingræðislegt aðhald væri með málaflokknum. Þrátt fyrir auknar og háværar kröfur frá fulltrúum VES-þingsins um að fá að axla þessa ábyrgð þá taldi Bühler það vera með öllu óljóst hvort ríkisstjórnir aðildarríkja VES muni verða við þeim óskum. Sagði hann að ef millibilsástand þetta yrði lengra en góðu hófi gegndi mundu áleitnar spurningar vakna. Fyrr eða síðar mundu skattgreiðendur Evrópuríkja krefjast þess að úr þessum vandamálum yrði leyst.
    Eftirtaldir ávörpuðu fundinn og svöruðu spurningum þingmanna: Federico Trillo-Figueroa, varnarmálaráðherra Spánar sem fer með formennsku í ráðherraráði VES og ESB, Antonio Martins da Cruz, utanríkisráðherra Portúgals, Nikolai Svinarov, varnarmálaráðherra Búlgaríu, og Filippo Berselli, varnarmálaráðherra Ítalíu, fulltrúi formennskuríkis WEAG. Javier Solana, framkvæmdastjóri VES og yfirmaður utanríkis- og öryggismála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem hugðist mæta á fundinn gat það ekki sökum anna.
    Kristján Pálsson, formaður Íslandsdeildar VES-þingsins, hélt ræðu í umræðum um þingræðislega vídd evrópsks öryggis- og varnarsamstarfs þar sem fram kom að Ísland hefði ávallt stutt fyrirætlanir ESB um að takast á hendur Petersberg-verkefnin og skuldbundið sig til þátttöku í friðargæsluverkefnum bandalagsins á komandi missirum. Lagði hann áherslu á nauðsyn þess að viðunandi niðurstaða finnist skjótt á málefnum er varða þátttöku NATO- ríkjanna sex sem standa utan Evrópusambandsins í sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu ESB og minnti menn á yfirlýsingu leiðtogafundar NATO í Washington máli sínu til stuðnings. Tryggja bæri þessum sex ríkjum sem ríkasta hlutdeild í ákvarðanatökuferli ESB líkt og verið hefði um þegar Vestur-Evrópusambandið hafði öryggis- og varnarmálastefnu álfunnar í sínum verkahring.

b. Síðari hluti 48. fundar VES-þingsins.
    Dagana 2.–4. desember var seinni hluti 48. fundar VES-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Kristján Pálsson formaður, Katrín Fjeldsted varaformaður og Þórunn Sveinbjarnardóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi, líkindin fyrir stríði Bandaríkjanna og bandamanna þeirra gegn Íraksstjórn og Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) voru öðrum málum fyrirferðarmeiri á fundinum að þessu sinni. Hvað síðastnefnda atriðið varðaði þá fjölluðu umræður að miklu leyti um niðurstöður fundar ráðherraráðs ESB í Lissabon fyrr um árið og áhrif fundarins á öryggis- og varnarmálavídd ESB. Þá var rætt um Framtíðarráðstefnu ESB (e. Convention on the Future of Europe) og afstöðu hennar til öryggis- og varnarmála í álfunni og málefni stækkunar NATO og ESB voru enn fremur í deiglunni og þá sérstaklega áætlanir Atlantshafsbandalagsins um að koma á fót um 20 þúsund manna hraðliði sem beita mætti í hernaðarátökum.
    Klaus Bühler, forseti VES-þingsins, lét af embætti sínu á desemberfundinum í lok þriggja ára kjörtímabils. Hollendingurinn Jan Dirk Blaauw var einróma kjörinn næsti forseti VES- þingsins og tók hann við embættinu 1. janúar 2003.
    Í upphafi þingfundar hélt Klaus Bühler lokaávarp sitt í embætti. Í ávarpi sínu lýsti Bühler yfir miklum vonbrigðum með áfangaskýrslu vinnuhóps um varnarmál sem starfaði undir væng Framtíðarráðstefnu ESB. Sagði hann að niðurstöður skýrslunnar bentu til að hin þingræðislega vídd Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum ætti undir högg að sækja og að ekki virtist ríkja mikill vilji að bæta úr þeim lýðræðishalla sem einkennt hefði þann málaflokk allt frá því að ESB tók við verkefnum Vestur-Evrópusambandsins, þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð VES-þingsins. Sagði Bühler t.a.m. að þrátt fyrir að Framtíðarráðstefnan legði til ákvæði um „einingu“ aðildarríkja ESB ef ráðist yrði á eitt þeirra af hryðjuverkaöflum, þá væri ekki gert ráð fyrir að ESB í heild sinni áliti að á sig hefði verið ráðist og þar af leiðandi væri sameiginlegum vörnum ekki beitt. Sagðist hann vissulega vona að tillögur Þjóðverja og Frakka um að þróa Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum (ESDP) í átt að eiginlegu öryggis- og varnarsambandi Evrópu hlytu hljómgrunn á Framtíðarráðstefnu ESB. Í þessu samhengi tók hann sérstaklega mið af þeim ákvæðum endurskoðaða Brussel-samningsins sem fælu aðildarríkjum VES þær skuldbindingar að leggja störf sín fyrir þingmannasamkundu þjóðkjörinna þingmanna. Sagði hann að ummæli sumra fulltrúa á Framtíðarráðstefnunni um þingræðislegu vídd ESDP vektu miklar áhyggjur. Þar á meðal væru skoðanir í þá veru að ekki mætti breyta stofnanaskipan ESB í þá veru að gefa færi á þátttöku þjóðkjörinna þingmanna allra aðildarríkja VES í umræðum um öryggis- og varnarmál ESB. Þá hefði hugmyndum um nýjar stofnanir sem hefðu þennan málaflokk til umræðu verið ítrekað hafnað. Setti þetta þjóðþing aðildarríkja og aukaaðildarríkja VES í afar erfiða stöðu. Sagði Bühler að nokkuð hefði verið rætt á Framtíðarráðstefnunni um hlutverk þjóðþinga í sameiginlegri löggjöf ESB og hvernig unnt væri að útvíkka COSAC-samstarfið í þá veru. Á hinn bóginn hefði ekkert verið enn minnst á umræðu, þjóðþinga í milli, um ESDP, sem í eðli sínu væri milliríkjasamstarf. Það eina sem fram hefði komið væri að á vegum ESB væri efnt til milliríkjaráðstefna (þjóðþinga) um tiltekin, afmörkuð málefni en það gæfi auga leið að slíkt hefði að sama skapi ekki ýtrustu hagsmuni þjóðþinganna að leiðarljósi. Sagði forsetinn að fulltrúar þjóðþinganna á Framtíðarráðstefnunni væru í afar erfiðri stöðu þar sem svo virtist vera að bandalag væri milli fulltrúa Evrópuþingsins og fulltrúa ríkisstjórna aðildarríkja ESB um að koma í veg fyrir aukið hlutverk þjóðþinganna í þessum málaflokki. Þessu til stuðnings benti Bühler á að ítrekað hefði verið litið fram hjá ályktunum og tilmælum VES-þingsins sem öll væru á einn veg. Sagði Bühler að þrátt fyrir að árangur af starfi VES-þingsins í þessu tilliti væri ekki eins sýnilegur og vonir stæðu til þá hefðu fulltrúar þess náð þeim árangri að vekja máls á þeirri stöðu sem þingræðisleg vídd öryggis- og varnarsamstarfs Evrópu hefði um þessar mundir og náð eyrum valdhafa í aðildarríkjum VES. Markmiðið fram undan væri að beita áhrifum á fulltrúa Framtíðarráðstefnunnar sem fjölluðu um þennan málaflokk og skila mundu tillögum sínum árið 2003.
    Á fundi mánudaginn 2. desember var til umfjöllunar skýrsla stjórnmálanefndarinnar um markmið sameiginlegrar stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum og sagði Mark Eyskens, framsögumaður nefndarinnar, í ræðu sinni að nú um stundir væri það afar mikilvægt að Evrópuríkin byndu enda á óvissu um hvort stefnt væri að sameiginlegu varnarsamstarfi undir væng ESB eða ekki. Sagði hann að ný aðildarríki ESB ættu heimtingu á að vita að hvernig sambandi þau gengju með tilliti til öryggis- og varnarsamstarfs og sagðist vona að á næstu missirum yrði komið í veg fyrir þau mistök sem gerð hefðu verið í Maastricht-sáttmálanum þar sem gert var ráð fyrir að ný aðildarríki yrðu ekki að gerast fullir aðilar að VES. Taldi hann jafnframt mikilvægt að sameiginlegar öryggisskuldbindingar þær sem birtust í V. gr. endurskoðaða Brussel-samningsins héldist utan vébanda ESB og að öll ný aðildarríki ESB og Evrópuríkin í NATO fullgiltu þau ákvæði. Þá vék hann að nauðsyn þess að tryggja þeim Evrópuríkjum í NATO sem einnig ættu aukaaðild að VES rétt til samsvarandi aukaaðildar að hugsanlegri stjórnarskrá ESB. Nokkrar umræður urðu um skýrsludrögin og sagði t.a.m. Finn Kristian Marthinsen, formaður norsku sendinefndarinnar, að þrátt fyrir að aukaaðildarríkin sex hefðu stutt það að ESB axlaði auknar byrðar í öryggis- og varnarsamstarfi vestrænna þjóða með stefnu sinni mættu menn ekki gleyma því að sameiginlegar varnarskuldbindingar hvíldu á styrkri stoð Atlantshafsbandalagsins. Þar hefði farsælt varnarsamstarf farið fram og allar skuldbindingar til sameiginlegra varna álfunnar ættu að hvíla hjá NATO áfram sem endranær.
    Á þingfundi þriðjudaginn 3. desember var fjallað um skýrslu stjórnmálanefndarinnar um aukna samvinnu milli ESB og NATO á tímum stækkunar. Sagði skýrsluhöfundur, Ítalinn Marco Zacchera, að nú, sem aldrei fyrr, væri afar mikilvægt að ESB og NATO kæmust að samkomulagi um tvíhliða samstarf og deildu með sér verkefnum. Væri þetta afar brýnt nú um stundir þar sem raddar VES sem málamiðlara nyti ekki lengur við og gagnrýni Evrópumanna á stefnu Bandaríkjanna færi hátt um þessar mundir. Í ályktun stjórnmálanefndarinnar kom fram að VES-þingið færi fram á að framtíðarhlutverk NATO í Evrópu yrði tekið til gagngerrar endurskoðunar, ekki síst í ljósi stækkunar ESB.
    Miðvikudaginn 4. desember fór fram umræða um þingræðislega vídd öryggis- og varnarsamstarfs Evrópuríkja og í umræðunum tók þátt breski þingmaðurinn Gisela Stuart, annar tveggja fulltrúa þjóðþinga ESB-ríkja í stjórnarnefnd Framtíðarráðstefnu ESB, sem Valéry Giscard d'Estaing veitir forstöðu. Hafði Stuart verið sérlega boðið af forseta VES-þingsins til fundarins. Í ræðu sinni sagði Stuart að Bühler forseti hefði réttilega bent á að lítið hefði farið fyrir umræðum um hlutverk þjóðþinga á öryggis- og varnarmálastefnu ESB á fundum Framtíðarráðstefnunnar á undangengnum mánuðum. Sagði hún vinnuálag ráðstefnunnar hafa ráðið mestu um þetta og að á fyrstu mánuðum nýs árs yrðu þessi málefni tekin til skoðunar. Sagði hún að VES-þingið hefði enn færi á að koma fram með sjónarmið sín áður en sú umfjöllun færi fram og fagnaði framlagi þingsins fram til þessa. Stuart sagði að þingræðislegt eftirlit með öryggis- og varnarmálum væri eitt af stóru málunum sem enn ætti eftir að taka á innan ráðstefnunnar. Taldi hún fullsýnt að Evrópuþingið hefði stóru hlutverki að gegna hvað það varðaði en lagði jafnframt áherslu á að nokkur hætta væri á því að ráðherraráðið liti fram hjá hlutverki þjóðþinganna ef ekkert yrði að gert. Þá lagði Stuart út af orðum Bühlers um að fulltrúar þjóðþinganna á Framtíðarráðstefnunni væru í erfiðri stöðu. Sagði hún ljóst að Evrópuþingið hefði hlutverki að gegna hvað varðaði eftirlit með framkvæmdastjórn ESB og þjóðþingin hefðu að sama skapi hlutverki að gegna við þingræðislegt eftirlit með ríkisstjórnum sínum. Menn mættu ekki líta svo á að um ógn væri að ræða, leggja ætti áherslu á skilvirkt samstarf og verkefnaskiptingu. Ef hið þingræðislega eftirlit yrði t.a.m. alfarið í höndum þjóðþinganna mundi stefnan verða máttlausari. Í þessu samhengi ræddi Stuart um COSAC og umræður um að efla þá stofnun. Sagðist Stuart vera vongóð um að unnt væri að efla COSAC svo að fulltrúar gætu talað þar einu máli. Jafnframt því sagðist Stuart vilja að það kæmi skýrt fram að hún hefði engin áform um stofnun nokkurs konar efri deildar Evrópuþingsins eða annarra nýrra stofnana. En fyrir lægi að brýnt væri að finna vettvang þar sem fulltrúar þjóðþinganna gætu rætt um milliríkjamálefni líkt og öryggis- og varnarsamstarfið og halda þannig áfram störfum þeim sem fram hefðu farið á VES-þinginu.
    Þriðjudaginn 3. desember var Hollendingurinn Jan Dirk Blaauw kjörinn forseti VES- þingsins og hélt hann ræðu af því tilefni. Í ræðu sinni sagði Blaauw að stefnumið sín væru ekki að viðhalda VES-þinginu í eiginlegu formi sínu heldur mun fremur að leiða málefni hinnar þingræðislegu víddar öryggis- og varnarmálastefnu ESB til farsælla lykta. Sagði hann að stefnumið sín snerust í grófum dráttum um fjögur atriði. Í fyrsta lagi sagði hann það afar brýnt að þingræðislegt eftirlit yrði í framtíðinni síst veikara en það hefði verið hjá VES- þinginu. Í öðru lagi sagði Blaauw að grunnurinn að öryggissáttmála VES væri V. gr. hans sem kvæði á um að ef ráðist yrði á eitt aðildarríki kæmu hin ríkin því til aðstoðar og að rík nauðsyn væri á því að viðhalda þessu ákvæði. Þá yrði þriðja áherslumál hans að tryggja þátttöku þeirra fimm aukaaðila VES sem ekki mundu gerast aðilar að ESB árið 2004 (Íslands, Noregs, Búlgaríu, Rúmeníu og Tyrklands) í þeim stofnunum Evrópuþingsins sem hafa munu öryggis- og varnarmál til umfjöllunar. Sagði hann að aukaaðildarríki VES ættu að hafa sama rétt og þau hefðu notið innan VES (t.d. atkvæðisrétt í nefndum). Í fjórða lagi nefndi Blaauw aukin samskipti við Rússland.
    Eftirtaldir ávörpuðu fundinn og svöruðu spurningum þingmanna: Antonio Martins da Cruz, utanríkisráðherra Portúgals sem fer með formennsku í ráðherraráði VES, Michelle Alliot-Marie, varnarmálaráðherra Frakklands, Joao Mota Amaral, forseti portúgalska þingsins, Günther Altenburg, aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, og Yannos Papantoniou, varnarmálaráðherra Grikklands sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB og VES fyrri helming ársins 2003.

Alþingi, 3. febr. 2003.



Kristján Pálsson,


form.


Katrín Fjeldsted,


varaform.


Lúðvík Bergvinsson.


Fylgiskjal.


Ályktanir, tilmæli og fyrirmæli VES-þingsins árið 2002.


Fyrri hluti 48. þingfundar, 3.–5. júní:
     1.      tilmæli nr. 706, um herbúnað Evrópuríkja í ljósi hinnar alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi,
     2.      ályktun nr. 109, um hlutverk þjóðþinga í Evrópusambandinu, sérstaklega með tilliti til sameiginlegrar stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum,
     3.      tilmæli nr. 707, um evrópskar njósnastofnanir,
     4.      tilmæli nr. 708, um Evrópuríki utan ESB og öryggis- og varnarsamstarf Evrópusambandsins – svör við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     5.      tilmæli nr. 709, um öryggis- og varnarsamstarf Evró-Atlantshafsríkja,
     6.      tilmæli nr. 710, um álit Evrópuþjóða á sameiginlegum öryggis- og varnarmálum eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september,
     7.      tilmæli nr. 711, um fjárhagsáætlun ráðherraráðs VES fyrir fjárhagsárið 2002,
     8.      tilmæli nr. 712, um herbúnað Evrópuríkja: markmið og forsendur – svör við ársskýrslu ráðherraráðs VES,
     9.      tilmæli nr. 713, um þróun búnaðar Evrópsku geimvísindastofnunarinnar,
     10.      fyrirmæli nr. 117, um eftirlit með alþjóðlegum afvopnunarviðræðum,
     11.      ályktun nr. 110, um þingræðislega vídd evrópsks öryggis- og varnarsamstarfs, og
     12.      tilmæli nr. 714, um eftirlit með alþjóðlegum afvopnunarviðræðum.

Síðari hluti 48. þingfundar, 2.–4. desember:
     1.      ályktun nr. 111, um hlutverk Evrópu í nýrri heimsskipan,
     2.      tilmæli nr. 715, um stækkunarferli NATO og ESB – svör við ársskýrslu ráðherraráðs VES,
     3.      ályktun nr. 112, um Evrópustefnu í varnarmálum: framlag til Framtíðarráðstefnu ESB,
     4.      tilmæli nr. 716, um evrópskan fjölþjóðaher,
     5.      tilmæli nr. 717, um þátttöku Evrópuherja í hættuástandsstjórnun,
     6.      ályktun nr. 113, um þingræðislegt eftirlit með njósnastofnunum,
     7.      tilmæli nr. 719, um hergagnasamvinnu í Evrópu: hlutverk WEAG og ESB,
     8.      ályktun nr. 114, um þingræðislega vídd nýrrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB – svör við ársskýrslu ráðherraráðs VES,
     9.      tilmæli nr. 718, um samskipti Evrópu og suðurhluta Miðjarðarhafssvæðisins – niðurstöður Lissabon-ráðstefnunnar, og
     10.      tilmæli nr. 720, um stöðu mála í Írak.