Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 999  —  390. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lagaákvæðum er varða vinnutíma sjómanna.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Unni Sverrisdóttur frá samgönguráðuneytinu og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Siglingastofnun Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hafnasambandi sveitarfélaga, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélskóla Íslands, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Landssambandi íslenkra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Vélstjórafélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sjómannalögum og lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa vegna innleiðingar tiltekinna EES-gerða sem varða vinnutíma sjómanna.
    Breytingarnar rúmast innan gildandi kjarasamninga milli útgerða og stéttarfélaga.
    Nefndin leggur til tvær efnisbreytingar á frumvarpinu. Í annan stað er lagt til að aldurslágmark 1. efnismgr. 1. gr. verði lækkað úr 16 árum í 15, sem er sama aldurslágmark og nú gildir. Að mati nefndarinnar standa ekki rök til breytinga hvað þetta varðar. Þá er lagt til að 4. mgr. 8. gr. laganna falli brott en ákvæðið er þýðingarlaust með þeirri breytingu sem gerð er á 3. mgr. Loks leggur nefndin til orðalagsbreytingu í 2. og 3. gr. frumvarpsins. Er það gert til að koma í veg fyrir misskilning á efni ákvæðanna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:



     1.      1. gr. orðist svo:
                   Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
                  a.      2. og 3. mgr. orðast svo:
                     Eigi má hafa yngri mann, karl eða konu, en 15 ára við vinnu á skipi nema um skólaskip eða æfingaskip sé að ræða. Samgönguráðherra getur sett reglur um hærra aldurslágmark skipverja við tiltekin störf allt upp að 18 ára aldri.
                     Eigi má hafa yngri mann, karl eða konu, en 18 ára við vinnu á farþegaskipum og flutningaskipum að nóttu til, þ.e. tímabil sem varir í a.m.k. níu samfelldar klukkustundir, þ.m.t. tímabilið frá miðnætti til klukkan fimm að morgni. Þetta á þó ekki við ef um er að ræða menntun og þjálfun ungra sjómanna 16–18 ára að því er varðar fyrirframákveðin verkefni og áætlanir.
                  b.      4. mgr. fellur brott.
     2.      Við 2. gr. Í stað orðanna „og ekki skal líða meira en 14 klukkustundir til næstu samfelldrar hvíldar“ í 2. tölul. 2. efnismgr. komi: og ekki skulu líða meira en 14 klukkustundir á milli tveggja hvíldartíma.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      Í stað orðanna „og ekki skal líða meira en 14 klukkustundir til næstu samfelldrar hvíldar“ í 2. tölul. 1. mgr. a-liðar komi: og ekki skulu líða meira en 14 klukkustundir á milli tveggja hvíldartíma.
                  b.      Orðin „og 2.“ í 2. mgr. a-liðar falli brott.

    Kristján L. Möller og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. febr. 2003.


Hjálmar Árnason,


varaform., frsm.


Magnús Stefánsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Sigríður Ingvardóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.



Jón Bjarnason.