Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 549. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1048  —  549. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneytinu. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir um málið frá Kauphöll Íslands, Seðlabankanum, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Fjármálaeftirlitinu, Félagi löggiltra endurskoðenda, Alþýðusambandi Íslands og ríkislögreglustjóra.
    Breytingar þær sem hér eru lagðar til eiga rót sína að rekja til tilmæla FATF-ríkjahópsins sem eru samtök ýmissa ríkja innan OECD um aðgerðir gegn peningaþvætti. Íslendingar hafa verið þátttakendur í starfi ríkjahópsins frá upphafi. Evrópusambandið hefur jafnframt samþykkt tilskipun á grundvelli þessara tilmæla sem verður hluti EES-samningsins.
    Til fróðleiks aflaði nefndin sér upplýsinga um þróun á fjölda tilkynninga um grunsamleg viðskipti frá setningu laganna. Samkvæmt upplýsingum frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur fjöldi tilkynninga verið eftirfarandi:

1994: 2
1995: 9
1996: 2
1997: 11
1998: 12
1999: 55
2000: 113
2001: 125
2002: 163

    Eins og sjá má hefur tilkynningum fjölgað hröðum skrefum. Með breytingalögum nr. 38/1999 voru gerðar veigamiklar breytingar á lögunum sem stjórnvöld fylgdu eftir með kynningarátaki með fulltrúum fyrirtækja. Ef skoðuð er fjölgun tilkynninga á milli áranna 1999 og 2000 virðist sem átakið hafi skilað sér í meiri árvekni aðila á markaðnum.
    Nefndin leggur til breytingu á 5. og 6. gr. Breytingin er tæknilegs eðlis og felur í sér að tilvísun til 1. gr. laganna er lagfærð, enda ekki ætlunin að undanskilja þá aðila sem nefndir eru í g-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Í stað tilvísunarinnar „1.–14. tölul. 1. mgr. 1. gr.“ í 2. efnismgr. 5. gr. og 2. efnismgr. 6. gr. komi: 1. mgr. 1. gr.

    Gunnar Birgisson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. febr. 2003.


Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Árni R. Árnason.



Hjálmar Árnason.


Adolf H. Berndsen.


Jóhanna Sigurðardóttir.



Össur Skarphéðinsson.


Ögmundur Jónasson.