Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 518. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1065  —  518. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason og Jónínu S. Lárusdóttur frá viðskiptaráðuneytinu, Pál Gunnar Pálsson og Elínu Jónsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Ólaf A. Sigurðsson frá Kauphöll Íslands hf., Sigfús Gauta Þórðarson frá Seðlabanka Íslands og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.
    Umsagnir um málið bárust frá Fjármálaeftirlitinu, Kauphöll Íslands hf., ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Alþýðusambandi Íslands og Samtökum banka- og verðbréfafyrirtækja.
    Með frumvarpinu er lögð til ný heildarlöggjöf um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Núgildandi lög um verðbréfasjóði frá 1993 taka aðeins til verðbréfasjóða eins og þeir eru nánar skilgreindir í lögunum. Ýmis önnur form sjóða sem veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar hafa fest sig í sessi á íslenskum fjármálamarkaði. Þessir sjóðir hafa ekki starfsleyfi stjórnvalda og lúta ekki opinberu eftirliti. Eitt meginmarkmið þessa frumvarps er að teygja lagarammann til þessara sjóða þannig að lögin nái til allra sjóða sem hafa það eingöngu að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.
    Önnur markmið frumvarpsins eru að auka samkeppnishæfni íslenskra sjóða með því að útvíkka fjárfestingarheimildir þeirra og bjóða upp á einfaldari og ódýrari rekstrarform, gera neytendavernd skilvirkari, jafna skattalega stöðu sjóða um sameiginlega fjárfestingu og að tryggja innleiðingu tveggja tilskipana um sameiginlega fjárfestingu í íslenskan rétt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að skilyrðið um að hlutur hljóði á nafn í 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. falli brott. Þetta er lagt til með hliðsjón af 5. mgr. 23. gr., sbr. 24. gr., en þar er gert ráð fyrir að möguleiki sé á að hlutdeildarskírteini séu ekki skráð á nafn.
     2.      Lagt er til að við 2. mgr. 25. gr. verði bætt tilvísun til 4. mgr. 23. gr. Óbreytt orðalag getur valdið vandkvæðum ef hlutdeildarskírteini eru gefin út sem rafbréf.
     3.      Gerð er tillaga um orðalagsbreytingu á 2. mgr. 35. gr. Með breytingunni er það skýrt að ákvæðið á aðeins við um mótaðilaáhættu af samningnum, en ekki aðra þætti.
     4.      Lagt er til að við 54. gr. bætist nýr töluliður sem kveði á um að fjárfestingarsjóðum verði heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu en verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða án tillits til 3. tölul. 30. gr. Þó megi heildarfjárfesting fjárfestingarsjóðs í öðrum sjóðum en verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum ekki fara yfir 20% af eignum fjárfestingarsjóðs. Tilgangur þessa er að gera fjárfestingarsjóðum kleift að dreifa áhættu sinni með því að fjárfesta í öðrum sjóðum en verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum.
     5.      Lagt er til að hnykkt verði á neytendavernd í 62. gr. með því að kveða á um að hlutabréfasjóði sé skylt að vekja sérstaka athygli viðskiptavinar á þeim reglum sem gilda um innlausnarskyldu sjóðsins.
     6.      Til að eyða hugsanlegri óvissu um hvort reglur um flagganir, yfirtökutilboð og meðferð innherjaupplýsinga eigi við um hlutabréfasjóði er lagt til að í 63. gr. verði vísað til V.–IX. kafla laga um verðbréfaviðskipti.
    Hjálmar Árnason og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. febr. 2003.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Árni R. Árnason.



Gunnar Birgisson.


Adolf H. Berndsen.


Ögmundur Jónasson.



Jóhanna Sigurðardóttir.