Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 568. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1128  —  568. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þóru Hjaltested og Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneytinu og Benedikt Bogason og Viðar Má Matthíasson fyrir hönd réttarfarsnefndar. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir um málið frá Fjármálaeftirlitinu, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og réttarfarsnefnd.
    Með frumvarpinu er lagt til að innleitt verði í íslenskan rétt efni tilskipunar Evrópusambandsins um endurskipulagningu og slit vátryggingafélaga í þeim tilgangi að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á aðgerðum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og samvinnu varðandi endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélaga og slit þeirra og ákveðna lágmarkssamræmingu landsreglna sem gilda um þessi atriði.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram nokkrar athugasemdir við efni frumvarpsins frá réttarfarsnefnd. Nefndin leggur til nokkrar breytingar sem koma til móts við þær athugasemdir. Athugasemdirnar lutu einkum að því að óvarlegt væri að vísa til þess að íslensk lög eða dómar giltu um starfsemi sem fram færi erlendis. Breytingar nefndarinnar lúta að því að nægjanlegt sé að lögfesta ákvæði sem fela í sér að úrskurður dómstóls eða reglur í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins taki til útibús vátryggingafélags hér á landi. Með vísan til efnis tilskipunarinnar sem verið er að innleiða og þess að hún hefur öðlast gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu þá uppfyllir Ísland skyldu sína samkvæmt tilskipuninni með þessum hætti. Gera verður ráð fyrir að sams konar viðurkenning og hér er veitt komi til í öðrum ríkjum svæðisins gagnvart íslenskum lögum og dómum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali og vísar því jafnframt til viðskiptaráðuneytisins að einstakar athugasemdir réttarfarsnefndar verði skoðaðar gaumgæfilega í samstarfi við réttarfarsnefnd og frekari lagfæringar lagðar til ef nauðsynlegt er talið strax næsta haust.
    Hjálmar Árnason og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2003.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Árni R. Árnason.



Gunnar Birgisson.


Adolf H. Berndsen.


Jóhanna Sigurðardóttir.



Ögmundur Jónasson.