Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 463. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1232  —  463. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum á orkusviði.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson, Helga Bjarnason og Kristínu Haraldsdóttur frá iðnaðarráðuneyti, Þorkel Helgason orkumálastjóra, Svein Hannesson frá Samtökum iðnaðarins, Hannes Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja hf., Eirík Bogason frá Samorku, Friðrik Sophusson, Bjarna Bjarnason og Þórð Guðmundsson frá Landsvirkjun, Ólaf Eggertsson frá Landssambandi raforkubænda, Franz Árnason frá Norðurorku hf., Guðmund Þóroddsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Kristján Haraldsson frá Orkubúi Vestfjarða hf., Kristján Jónsson og Eirík Briem frá Rafmagnsveitum ríkisins og Þórð Skúlason og Jón Jónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Umsagnir hafa borist frá Akraneskaupstað, Orkubúi Vestfjarða, Landsvirkjun, Akureyrarbæ og Alþýðusambandi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum á orkusviði sem eru nauðsynlegar vegna breytinga er felast í frumvarpi til raforkulaga, en það er lagt fram samhliða frumvarpi þessu. Í umfjöllun nefndarinnar hefur komið í ljós að gera þarf nokkrar breytingar á frumvarpinu:
     1.      Í IX. kafla orkulaga þykir rétt að áfram komi fram með skýrum hætti hvernig nýjar framkvæmdir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins skuli fjármagnaðar og 62. gr. falli því ekki brott.
     2.      Þá þykir skýrara að tiltaka lagagrundvöll fyrir gjaldtöku fyrirtækisins þar sem Rafmagnsveitur ríkisins eru stofnun.
     3.      Í 1. og 2. mgr. 15. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983, og 4. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, er heimild til að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld vegna virkjunarframkvæmda og endurgreiða verktökum gjöld vegna notkunar vinnuvéla, skv. 1. mgr. 6. gr. laga um Landsvirkjun. Ætlunin var að Kárahnjúkavirkjun félli undir ákvæðið eins og aðrar virkjanir sem heimilaðar hafa verið samkvæmt lögum um raforkuver, en hún lenti í upptalningu 2. mgr. 6. gr. Þykir rétt að fella breytinguna inn í frumvarpið þó að hún tengist ekki frumvarpi til raforkulaga og breyta 15. gr. þannig að niðurfellingar- og endurgreiðsluheimildin nái til 1. og 2. mgr. 6. gr.
     4.      Nauðsynlegt er að bæta nýjum kafla við frumvarpið um breytingu á lögum nr. 159/2002, um Norðurorku, sem sett voru í desember sl., þar sem gera þarf sambærilega breytingu á 5. gr. þeirra laga og lögð er til í frumvarpinu, þ.e. að einungis gjaldskrá á heitu vatni þurfi staðfestingu iðnaðarráðherra og birtingu í Stjórnartíðindum til að öðlast gildi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Pétur H. Blöndal var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2003.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Árni R. Árnason.



Kjartan Ólafsson.


Ólafur Örn Haraldsson.