Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 20:21:46 (65)

2003-05-27 20:21:46# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[20:21]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar felur í sér metnaðarfull áform á mörgum sviðum til hagsbóta fyrir íslenska þjóð. Hún snertir velflest viðfangsefni þjóðarinnar og um leið og hún gerir ráð fyrir áframhaldandi framförum kemur það fram með skýrum hætti að standa á vörð um stöðugleika í efnahagslífinu.

Húsnæðismál eru hornsteinn velferðar hverrar fjölskyldu, það eru gömul sannindi og ný. Mikið framfaraspor var stigið í húsnæðismálum þegar Íbúðalánasjóður tók til starfa árið 1999. Með stofnun sjóðsins var mörkuð ný sýn í húsnæðismálum. Horfið var frá lokuðu og flóknu félagslegu íbúðakerfi sem takmarkaði valfrelsi og frumkvæði fólks til að koma sér þaki yfir höfuðið.

Viðbótarlánin voru tekin upp samhliða stofnun Íbúðalánasjóðs. Þau gera tekjuminna fólki kleift að velja sjálft hvar og hvernig það vill búa. Þau hafa þjónað fjölskyldum landsins vel. Um átta þúsund fjölskyldur hafa nýtt sér viðbótarlán til íbúðarkaupa síðan þau voru tekin upp og eru það ríflega tvö þúsund fleiri en voru í gamla félagslega eignaríbúðakerfinu þegar það var lagt af.

Forveri minn, Páll Pétursson, lagði ekki einasta grunn að viðbótarlánum heldur var áhersla lögð á að efla leigumarkaðinn með sérstöku átaki sem stofnað var til árið 2001 í samvinnu við sveitarfélög, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði. Það heimilar lánveitingar til rúmlega 2.200 leiguíbúða á fjögurra ára tímabili. Nauðsynlegt er einnig að tryggja framboð leiguíbúða á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka.

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að húsnæðiskerfi landsins taki ávallt mið af þörfum og kröfum íbúanna hverju sinni. Því er talið rétt að gera breytingar á því sem feli það í sér að heimildir Íbúðalánasjóðs til veitingar lána aukist þannig að honum verði gert kleift að lána allt að 90% af verðgildi íbúðarhúsnæðis eins og gert er ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum. Þannig verði fleirum gert kleift að komast í sitt eigið húsnæði. Jafnframt mun slík breyting lækka greiðslubyrði fjölmargra heimila sem ella hefðu þurft að fjármagna hluta af andvirði íbúðar með styttri lánum og á óhagstæðari vaxtakjörum.

Við þessar breytingar er m.a. rétt að hafa eftirfarandi í huga:

Að þær geri heildarfjármögnun íbúðarkaupa mögulega hjá Íbúðalánasjóði,

að ávallt verði tryggðir lægstu mögulegu markaðsvextir íbúðarlána,

að skapaðar verði aðstæður fyrir aukinni innkomu erlendra fjárfesta og

að stöðugleika verði viðhaldið til lengri tíma.

Mikilvægt er að halda áfram vinnu við eflingu leigumarkaðar í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hefur verið. Það er nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á fjölgun leiguíbúða á félagslegum forsendum svo að tryggt sé að allir íbúar landsins njóti góðs af því húsnæðiskerfi sem hér er í gildi.

Svo að tilætluðum árangri verði náð verður við endurskoðun núverandi húsnæðislöggjafar að skoða alla þætti málsins gaumgæfilega og kanna hvernig útfærslunni verði best háttað. Rétt er að slík vinna hefjist nú þegar með það að markmiði að tillögur um breytingar geti legið fyrir á komandi hausti. Við slíka endurskoðun er nauðsynlegt að kanna hvort ekki sé eðlilegt að breytingar, sem lagðar verða til, taki gildi í áföngum til að tryggja eðlilega aðlögun að því fjármálaumhverfi sem við búum við.

Þá mun ég beita mér fyrir því að nú í upphafi kjörtímabils verði gerð könnun á húsnæðismarkaðnum í því skyni að fá fram heildaryfirlit yfir stöðuna og undirbúa frekari stefnumótun. Ég vil nýsköpun í húsnæðismálum, bæði fyrir unga og aldna. Áhersla verður einnig lögð á að taka út stöðu eldri borgara á húsnæðismarkaði og móta nýjar tillögur um fyrirkomulag þeirra mála.

Ég tel einnig mikilvægt að stoðkerfin, vaxtabætur og húsaleigubætur, verði metin og kannaður möguleiki á meiri samræmingu á framkvæmd þeirra.

Herra forseti. Það náðist mikill áfangi í atvinnumálum landsmanna þegar niðurstaða fékkst í uppbyggingu stóriðju og virkjana á Austurlandi. Ljóst er að verkefni þetta mun hafa gríðarleg áhrif á atvinnulíf landsmanna og auka hagvöxt í landinu öllu þegar til lengri tíma er litið. Atvinnuleysi hefur aukist talsvert síðustu missirin þótt nú sé að rofa til. Seinni hluta vetrar kynnti ríkisstjórnin tillögur um að flýta ýmsum framkvæmdum með það að markmiði að fjölga störfum og draga úr atvinnuleysinu þar til jákvæðra áhrifa af framkvæmdum á Austurlandi fer að gæta á atvinnustigið.

Atvinnuleysi er samt enn of hátt, eða 3,9% í apríl, og vel þarf að fylgjast með þróun þeirra mála á næstunni, ekki síst því að langtímaatvinnuleysi hefur aukist í vetur en skoða þarf ástæður þess og leiðir til að draga úr því. Eins veldur atvinnuleysi meðal ungs fólks, einkum þess sem hefur litla skólagöngu að baki, áhyggjum. Við þurfum að leita leiða til að draga úr atvinnuleysi ungs fólks, m.a. með því að skoða samspil atvinnulífs og skólakerfis og fyrir því vil ég beita mér.

Í vetur voru kynntir sérstakir styrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði til verkefna á vegum svæðisvinnumiðlana sem miða að því að fjölga störfum í landinu. Mikið hefur verið sótt í þá undanfarið og mun ég í framhaldinu skoða hvort hægt verði að efla slík úrræði enn frekar, m.a. með ákveðna hópa atvinnulausra í huga. Ég hef sem félagsmálaráðherra fullan hug á því að mótuð verði heildarstefna í vinnumálum í samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði og að við slíka stefnumótun verði tekið mið af því sem nágrannalönd okkar eru að gera á þessu sviði.

Ágætu tilheyrendur. Félagsmálaráðuneytið hefur lagt áherslu á að styrkja þjónustu við fatlaða og hefur á undanförnum árum verið gert sérstakt átak í búsetumálum þeirra. Ljóst er hins vegar að þörf fyrir aukna þjónustu er mikil, einkum á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi, og mun ráðuneytið áfram vinna að þróun á uppbyggingu málaflokksins á þessum stöðum sem annars staðar.

Á Evrópuári fatlaðra, sem nú stendur yfir, mun ráðuneytið leitast við að skoða nýja möguleika varðandi þjónustu og skipulag málaflokksins með það að markmiði að auka enn lífsgæði fatlaðra. Helstu verkefni ársins eru undir yfirskriftinni Samfélag fyrir alla.

Í haust er stefnt að því að hefja heildarendurskoðun á almennu skipulagi og þjónustu við fatlaða á Íslandi. Lagt verður mat á það sem vel hefur gengið og það sem enn frekar mætti styrkja. Reynt verður að skilgreina framtíðarsýn þjónustunnar og leggja fram vel skilgreinda áætlun um það hvernig staðið skuli að verki, m.a. varðandi frekari þátttöku sveitarfélaganna í rekstri þjónustunnar. Innan þessarar framtíðarsýnar munum við leggja áherslu á þátttöku fatlaðra í samfélaginu ásamt búsetu- og atvinnumálum.

Það er stefnt að því að styrkja þjónustu við fötluð börn og foreldra þeirra og við munum í samstarfi við önnur ráðuneyti leggja áherslu á að fatlaðir verði virkir þátttakendur í upplýsingasamfélagi framtíðarinnar með því að tryggja aðgengi þeirra að því. Það þarf að auka tölvulæsi og þróa þarf sérstök úrræði sem tengjast upplýsingasamfélaginu.

Við viljum ráðast í átak sem miðar að því að styrkja jákvæð viðhorf almennings til fötlunar og auka skilning þar að lútandi. Slík vinna þarf m.a. að fara fram innan leikskóla, grunnskóla og á hinum almenna vinnumarkaði.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að gera landið allt að raunhæfum valkosti fólks til búsetu, atvinnu og menntunar. Áherslu þarf að leggja á eflingu atvinnulífs, menntun íbúa og styrkingu samfélaga. Efling sveitarstjórnarstigsins er ein mikilvægasta leiðin til að ná markmiðum um fjölgun íbúa og styrkingu samfélaga. Til að árangur náist í slíkum málum er þýðingarmikið að stækka sveitarfélög og gera þau þannig hæfari til að taka að sér aukin og krefjandi verkefni.

Ávallt þarf verkaskipting ríkis og sveitarfélaga að vera skýr til að tryggja skilvirka og markvissa stjórnsýslu og hámarkshagkvæmni við lausn verkefna ríkis og sveitarfélaga. Á sama hátt er mikilvægt að tekjustofnar sveitarfélaganna séu í samræmi við lögbundin og eðlileg verkefni þeirra og að áfram verði lögð áhersla á markviss og eðlileg samskipti þessara tveggja.

[20:30]

Málefni unglinga í vímuefnavanda hafa verið til umræðu í vetur sem oft áður. Ljóst er að við þurfum áfram að vinna að því að bæta þjónustu í málaflokknum, skapa ný rými til meðferðar, auka ráðgjöf og styrkja fjölskyldur í vanda. Í því sambandi þurfa félagsmála-, heilbrigðis- og fræðsluyfirvöld að taka höndum saman og vinna enn frekar að því að samþætta þjónustu við þennan hóp. Að því verður áfram unnið í félmrn.

Í kosningabaráttunni voru jafnréttismál kvenna og karla töluvert til umræðu. Á síðasta kjörtímabili var stórt skref stigið í jafnréttisátt með nýjum lögum frá Alþingi um fæðingar- og foreldraorlof. Enn er þó margt óunnið á þessu sviði. Forgangsmál á komandi kjörtímabili er að eyða mun á launum karla og kvenna. Á komandi vetri geri ég ráð fyrir að lögð verði fyrir Alþingi till. til þál. um áætlun í jafnréttismálum. Þar verður gerð grein fyrir fyrirætlunum á þessu sviði.

Innflytjendum á Íslandi hefur fjölgað mjög á allra síðustu árum. Árið 1997 voru rúmlega 5.500 útlendingar með búsetu hér á landi. Í árslok 2002 voru þeir orðnir rúmlega 10.000 Það er ljóst að taka verður þjónustu við innflytjendur til endurskoðunar. Þetta er sérstaklega aðkallandi í ljósi þess að samsetning hópsins hefur breyst. Áður var algengast að einstaklingar kæmu til landsins með skammtímadvöl í huga. Nú er algengast að hingað flytji til varanlegrar dvalar fjölskyldur með börn. Ábyrgð okkar er því meiri en áður og þar af leiðandi þarf að samræma aðgerðir til að auðvelda þessum nýju löndum okkar aðlögun að aðstæðum sem í mörgum tilvikum eru ólíkar lífsskilyrðum í fæðingarlandinu.

Herra forseti. Verkefnin eru ótalmörg og af nógu er að taka. Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið til starfa ætlar sér stóra hluti fyrir land og þjóð. Á vettvangi félmrn. eru viðfangsefnin fjölmörg og spennandi og ég vænti góðs samstarfs um þau á hinu háa Alþingi.