Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 20:44:40 (67)

2003-05-27 20:44:40# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[20:44]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Gott kvöld, góðir landsmenn. Hann er frekar snubbóttur kaflinn í stefnuræðu forsrh. þar sem minnst er á fiskveiðistjórnarmálin. Það er landslýð ljóst að engar breytingar sem skipta máli verða gerðar í tilhögun þeirra mála. Sú ríkisstjórn sem nú tekur við, er reyndar sama stjórn og fór frá, ætlar ekki að hlusta í neinu á rödd þjóðarinnar sem sagði skýrt í nýlokinni kosningabaráttu að breyting yrði að verða á þessum málum.

[20:45]

Ríkisstjórnin skellir skollaeyrum við því að yfir 80% þjóðarinnar eru óánægð með fiskveiðistjórnina enda hefur þessi stjórn alls ekki skilað þeim árangri sem vænst var til. Hún hefur alið á úlfúð og valdið klofningi og deilum meðal þjóðarinnar. Allt tal stjórnarliða um að sátt hefði náðst um þennan mikilvæga málaflokk dæmdist dautt og ómerkt í kosningabaráttunni þegar fiskveiðistjórnarkerfið varð allt í einu að umfangsmesta kosningamálinu á lokapretti baráttunnar.

Sáttablekkingin mikla sem fleytti Sjálfstfl. og Framsfl. í gegnum kosningarnar árið 1999 dugði ekki til notkunar í annað sinn, enda er þjóðinni nú ljóst að þróunin í sjávarútvegsmálunum er helstefna fyrir byggðirnar í landinu. Stöðugt fleiri fá sig fullsadda af að horfa upp á aflaheimildir, þ.e. nýtingarréttinn á helstu auðlind landsmanna, safnast á hendur stöðugt færri aðila sem eru að mynda nýja valdaklíku í landinu, valdaklíku sem á sama tíma verður forhertari í að beita skoðanakúgun sinni eins og dæmin sönnuðu á sjómannadaginn á Akureyri fyrir rétt tæpu ári og eins og sjá mátti merki um þegar ákveðnir útvegsmenn og sendlar þeirra blönduðu sér í kosningabaráttuna nú á vordögum með bréfaskriftum og niðrandi ummælum um ákveðna frambjóðendur.

Í nýútgefinni stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem hæstv. forsrh. las hér upp áðan má lesa að stjórnkerfi fiskveiðanna hafi verið í stöðugri endurskoðun til að skapast mætti sem víðtækust sátt um þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Ég spyr: Skyldi það nú vera tilefni til sátta þegar ungir athafnamenn sem vilja hefja útgerð til að afla sjálfum sér og byggðum sínum farborða verða að reiða af hendi okurverð fyrir aflaheimildir til þeirra sem ráða yfir þeim? Er það eitthvert réttlæti þegar leiguverð á þorskkvóta er hátt í 200 kr. kílóið? Er það eitthvert réttlæti þegar svokallað varanlegt kvótakíló af þorski er selt á yfir þúsund krónur? Finnst einhver glóra í því að fólk sem vill hefja trilluútgerð með svokölluðum dagabátum verður kannski að greiða hátt í 50 milljónir til að komast yfir slíkan bát og hefja róðra sem síðan takmarkast við 21 dag á ári? Er einhver sanngirni í því að leiguverð á þorskkvóta hefur hækkað úr rúmlega 40% af aflaverðmæti árið 2000 í tæp 70% af aflaverðmætti í fyrra?

Hvering þætti ykkur, hv. þingheimur og góðir landsmenn, að þurfa að greiða 70% af öllum ykkar tekjum beint í vasann á einhverjum óþekktum aðila sem hefði yfir að ráða heimild frá ríkinu til að skammta ykkur vinnuna og lifibrauðið?

Ég segi nei. Þetta er ekkert réttlæti og við getum ekki haldið svona áfram. Þetta er ekkert annað en arðrán af verstu gerð. Sjómenn sem vilja hefja útgerð og ættu að hafa alla burði til að geta orðið góðir útgerðarmenn, máttarstólpar í heimabyggðum sínum, eiga enga möguleika til að komast inn í greinina. Reyni þeir það eru þeir mergsognir með miskunnarlausri kvótaleigu eða botnlausum skuldum vegna kaupa á kvótum. Þetta kallar síðan á hættuna á að menn fari að flokka aflann áður en farið er að landi, að fiski sé hent til stórtjóns fyrir þjóðfélagið og fiskveiðistjórnina.

Þetta kerfi ætlar ríkisstjórnin að verja með kjafti og klóm. Hún ætlar að hanga áfram á kvótastýringu í bolfiskveiðunum þrátt fyrir að árangursleysið blasi við, ekki bara hér heldur í gervöllu Norður-Atlantshafi. Kvótastýring í blönduðum bolfiskveiðum hefur hvergi gengið upp. Frændur okkar í Færeyjum voru svo gæfusamir að átta sig á þessu áður en þeir misstu auðlindina í hendurnar á verðbréfavíxlurum og valdafíklum í atvinnulífinu. Þar eru fiskstofnar sífellt að styrkjast á meðan allt er í lágmarki hér. Þar notast menn við fiskveiðistjórn sem byggir á takmörkuðum tíma til sóknar á fiskimiðin og stjórn á því hvaða veiðarfæri megi nota á ákveðnum tímum á fyrir fram ákveðnum svæðum. Evrópusambandið er að taka upp sóknarmark í bolfiskveiðum enda eru menn þar orðnir dauðuppgefnir á kvótaruglinu með tilheyrandi svindli og svínaríi í formi brottkasts og sóunar.

En áfram berja menn hausnum við steininn hér á Íslandi. Hér skal hangið á kvótakerfinu og helst reynt að auka veiðiskylduna svo það megi nú endanlega drepa þrælpínda og mergsogna leiguliðana. Þeir eru hvort eð er flestir farnir á hausinn svo það er kannski farið að minnka um tekjumöguleikana með kvótaleigu. Sennilega er þess ekki langt að bíða að farið verði fram á að hið svokallaða kvótaþak verði hækkað í 20% sem þýðir að eitt fyrirtæki geti átt fimmtung af öllum aflaheimildum á Íslandsmiðum. Það mun takast ef veiðiskyldan verður aukin því að þá ná þeir sem hafa aflaheimildirnar í dag að múra sjálfa sig inni með alla kvótana og þeir vonast þá til að öðlast frið svo að þeir geti haldið áfram að sameinast og hagræða eins og kallað er, að þjappa völdum á færri hendur, því að það er nú einu sinni svo að nýtingarrétturinn á fremstu auðlind þessarar þjóðar er sjálfkrafa ávísun á völd og áhrif.

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þetta er mikil synd og ég harma það að ríkisstjórnarflokkana skuli skorta hugrekki til að horfast í augu við staðreyndir, að þá skuli skorta hugrekki til að leita nýrra leiða. Ég harma þetta því að árangurinn í uppbyggingu fiskstofnanna lætur á sér standa. Ég harma þetta af því að ég veit að áframhaldandi kvótakerfi mun leiða þjáningar yfir fólk í sjávarplássum allt í kringum landið sem misst hefur réttinn til að nýta fremstu náttúruauðlind sína.

Það er sláandi að sjá hvernig atvinnurétturinn, sjálft frelsið til athafna er drepið niður í sjávarbyggðunum okkar. Aflaheimildir eru að sogast á örfáa staði en eftir liggja byggðir í sárum. Fólk er flutt á brott eða það situr í verðlausum eignum sínum sem það losnar ekki við því að búið er að ræna nýtingarréttinum frá byggðunum. Fólk fær ekki að afla sér tekna þó að það fegið vildi og þótt það viti að vænlegt sé að róa til fiskjar á miðin skammt undan byggðinni.

Trúa stjórnarliðar því virkilega að það sé einhver lausn að ætla að fara að búa til aukna byggðakvóta sem síðan verða bornir út í pottum til hinna og þessara gæðinga í sjávarþorpunum vítt og breitt um landið? Hræða sporin ekki í þessu efni, þar sem við höfum séð heilu byggðarlögin loga í illdeilum og erjum í kjölfar slíkra úthlutana stjórnmálamanna? Illdeilur og sundrung eru einmitt það sem byggðir þessa lands mega minnst við nú um stundir, nógur er nú vandinn samt.

Nei, við verðum að endurreisa byggðirnar. Það er mikil þversögn fólgin í því að nú um stundir þegar samgöngur eru alltaf að batna, samgöngutækin eru alltaf að verða betri og öruggari, fjarskipti alltaf að batna, nú síðast með tilkomu gervihnatta og internets, að þá skuli einmitt unnið með þeim hætti af hálfu stjórnvalda að ýmsir hafa kallað það eyðibyggðastefnu.

Þetta er gert með því að meina fólkinu í landinu að nýta sína fremstu auðlind, og það verður ekki ráðin bót á þessu fyrr en okkur tekst að snúa af villu vegar í þessum efnum. Við verðum að færa sjávarbyggðunum aftur nýtingarréttinn á auðlindinni. Þá munu hjól atvinnulífsins aftur komast í gang og mannlíf blómstra á þessum stöðum.

Góðir Íslendingar. Fyrir hönd Frjálslynda flokksins vil ég óska ykkur gæfuríks og góðs sumars.