Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 20:52:44 (68)

2003-05-27 20:52:44# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[20:52]

Sigurjón Þórðarson:

Góðir landsmenn. Við höfum nú hlýtt á stefnuræðu forsrh. Það sem einkennir hana helst er að hún er samtíningur af óljósum markmiðum í hinum og þessum málaflokkum en fáar útfærslur á því hvernig á að ná fram markmiðum ríkisstjórnarinnar. Það eina sem hefur verið útfært nákvæmlega eru hrókeringar ráðherra en stólaskiptin eru þrælhugsuð langt fram í tímann og fléttast inn í ólíklegustu hlutir, svo sem starf sendiherra í París.

Auðvitað er í sjálfu sér góðra gjalda vert að hugsa vel um sig og sína. En á sama tíma er varla að finna stafkrók í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um það hvernig eigi að rétta hlut þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Félagsmálayfirvöld, mæðrastyrksnefnd og fleiri hafa að undanförnu margoft lýst því yfir að sífellt fleiri neyðist til að leita sér aðstoðar til framfærslu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er víða að finna það markmið að varðveita eigi stöðugleikann. Ég vil að það komi skýrt fram hér og nú að það ríkir enginn stöðugleiki víða á landsbyggðinni. Fólki hefur stórfækkað á landsbyggðinni í valdatíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins. Meginástæður fækkunarinnar eru algjört skeytingarleysi í byggðamálum.

Því miður er ekki að sjá neinar metnaðarfullar áætlanir til að breyta þessu í stefnuræðu forsrh. Kaflinn um byggðamál endar að vísu eitthvað á þá leið að auka þurfi gagnkvæman skilning höfuðborgar og landsbyggðar. Ríkisstjórnin ætti að gaumgæfa þessi orð sjálf og taka tillit til þeirra og reyna að skilja aðstæður fólks sem býr á landsbyggðinni, en málefnum landsbyggðarinnar hefur lítt verið sinnt síðasta áratuginn.

Ekki örlar á nýrri hugsun í byggðamálum. En í nýlegri skýrslu nefndar á vegum landbrn. er lagt til að notuð verði mörg hundruð milljónir króna af skattfé almennings til þess eins að greiða fyrir lokun sláturhúsa í byggðarlögum sem standa höllum fæti. Vel að merkja, hér er verið að leggja til að lagður verði steinn í götu þess að eðlileg og sanngjörn markaðslögmál ráði landbúnaðar- og byggðamálum.

Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir lýðræðislegum endurbótum. Í dag komu stjórnarflokkarnir í veg fyrir að frestað yrði að afgreiða kosningarnar 10. maí og aflað yrði skýrslna um framkvæmd kosninganna í samræmi við lög, þrátt fyrir að staðfest sé að misbrestur hafi verið á framkvæmd kosninganna og meðferð atkvæðaseðla hafi ekki verið með sama hætti alls staðar á landinu.

Aðstöðumunur íslenskra stjórnmálaflokka er gífurlegur. Frjálslyndi flokkurinn náði ákaflega góðri kosningu þrátt fyrir þröngan fjárhag og að stórútgerðarfyrirtæki hefðu tekið með beinum hætti þátt í kosningabaraáttunni og beint spjótum sínum gegn málstað Frjálslynda flokksins.

Við í Frjálslynda flokknum höfum opið bókhald. Allir geta séð hvaðan við fáum fjármagn og hvernig við verjum því. Sömu sögu er ekki að segja um flokkana sem mynda ríkisstjórn Íslands. Það er sorgleg staðreynd að íslensku þjóðinni er stjórnað af flokkum sem leyna bókhaldi sínu. Menn gera jafnvel ráð fyrir að kosningabarátta Framsfl. hafi kostað á annað hundrað milljónir króna. Hver greiddi þessa háu upphæð til að fríska upp á þreytta ímynd Framsfl. með auglýsingum? Við vitum það ekki vegna þessa feluleiks með bókhaldið. Er það kannski einhver kvótaþegi sem vill fá að viðhalda óbreyttu, ranglátu kvótakerfi kvótaflokkanna, Framsfl. og Sjálfstfl.?

Íslenskir fjölmiðlar hafa ekki beint kastljósi sínu í ríkum mæli að leynireikningum stjórnmálaflokkanna og er það miður. Það kæmi því alls ekki á óvart að við kæmumst í heimsfréttirnar og erlendir fjölmiðlar muni brátt fjalla um hvernig íslenskir stjórnmálaflokkar leyna bókhaldi sínu og að ekkert eftirlit sé með fjármálum stjórnmálaflokka. Staðreyndin er að leyndin býður upp á spillingu.

Góðir landsmenn. Við í Frjálslynda flokknum heitum því að standa vörð um almannahagsmuni og veita stjórnarflokkunum strangt aðhald á komandi kjörtímabili. Ég skora á ykkur, landsmenn, að fylgjast gaumgæfilega með framvindu mála á komandi kjörtímabili.