Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:13:38 (3581)

2004-01-28 18:13:38# 130. lþ. 52.9 fundur 426. mál: #A þjóðgarðar og friðlýst svæði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Mörður Árnason:

Forseti. Þau sveitarfélög og forsvarsmenn þess atvinnurekstrar sem næstur er þjóðgörðum hljóta að eiga nokkurn rétt til þess að hafa um það að segja hvernig rekstri hans er hagað þó að þeir taki ekki ákvörðun sem stjórnarmenn. Ég sé ekki betur en að innan ramma þeirra laga sem nú gilda og hæstv. umhvrh. taldi fram áðan sé hægt að koma við allmiklu samráði af þessu tagi.

Ég vil hins vegar gera, eins og ég reyndar gerði fyrr í dag, athugasemd við notkun manna á orðinu heimamenn. Hvað eiga menn við t.d. um Vatnajökulsþjóðgarð? Eiga menn við þá sem búa í nágrenni skriðjöklanna nákvæmlega? Eiga menn við öll þau sveitarfélög sem eiga þarna land að? Hverjir eru heimamenn í raun og veru að hálendi Íslands og öðrum náttúruperlum þess og að íslenskri náttúru? Það erum við öll. Það er ekki hægt að undanskilja Vestfirðinga eða Reykvíkinga eða einhverja aðra landsmenn frá því. Við berum öll ábyrgð á þessu landi og eigum öll að eiga hlut að stjórn þjóðgarða og rekstri þeirra þó að auðvitað séu sumir jafnari en aðrir í því, þeir sem næstir búa og eiga hagsmuna að gæta.