Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:17:12 (3583)

2004-01-28 18:17:12# 130. lþ. 52.9 fundur 426. mál: #A þjóðgarðar og friðlýst svæði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Við höfum ekki nein áform um það í umhvrn. að stofna nýja stofnun sem tæki yfir þjóðgarða og friðlýst svæði. Það eru engin áform um slíkt. Hins vegar skynja ég málefni Vatnajökulsþjóðgarðs og svæða norðan hans þannig að það væri málinu í hag að heimamenn kæmu mjög ríkt að stjórn slíks þjóðgarðs.

Varðandi það að hraða lagasetningu þá tel ég að þetta mál þurfi að skoða vel. Við munum því ekki sjá, að mínu mati, neitt frv. hér á næstunni. Málið er ekki nógu þroskað til þess, því miður.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vildi hægja aðeins á. Ég heyrði að sjónarmiðin sem komu fram í ræðu hennar voru þau að það væri nú kannski ekki svo að það ætti að stofna nýtt stjórnarfyrirkomulag á þessum þjóðgarði. Ég held að það sé eðlilegt að við skoðum það mjög vel að gera það. Ég deili því ekki alveg þeim hugmyndum að það blasi við að við eigum að hafa sama stjórnkerfi á þessum þjóðgarði eins og hinum sem fyrir eru. Það má segja að hann sé öðruvísi fyrir margra hluta sakir. Hann er mjög, mjög stór. Hann nær yfir mjög mikið landflæmi og það eru svo mörg sveitarfélög sem hafa aðkomu. Það eru sjö sveitarfélög í kringum Vatnajökul og 50 einkajarðir líklega þannig að þetta mál er bara þannig vaxið að ég held að það sé náttúruvernd í hag að heimamenn komi mjög sterkt að stjórn þessa þjóðgarðs. Að öðrum kosti held ég að togstreita skapist og málið nái ekki fram að ganga og þá er ekkert unnið með því. Ég er því mjög opin fyrir því að skoða hvernig heimamenn geti komið að stjórn þessa þjóðgarðs jafnvel með sérlögum.