Auglýsingar í tölvupósti

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:22:50 (3585)

2004-01-28 18:22:50# 130. lþ. 52.10 fundur 365. mál: #A auglýsingar í tölvupósti# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Fyrst er því til að svara vegna fyrirspurnar hv. þm. að megnið af óumbeðnum sendingum auglýsinga í tölvupósti, svokölluðum ruslpósti, berst til okkar erlendis frá með örfáum undantekningum, eins og fram kom raunar hjá fyrirspyrjanda. Netið er ekki bara upplýsingaveita og aðgangsgátt. Það er líka farvegur sölumennskunnar. Þó er það svo að sumt af þessum pósti viljum við fá og annað ekki. Þannig verður hluti af vandanum skilgreiningin sjálf.

Talið er að um þriðjungur alls pósts um netið sé þessarar gerðar og þetta hlutfall getur orðið miklu hærra þegar verið er að að reyna að ná til ákveðinna hópa. Til að mynda gæti þetta hlutfall orðið allt að 80% af pósti til háskólanemenda samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið frá Háskóla Íslands. Svíar hafa mælt 65% aukningu í ruslpósti frá ársbyrjun 2002. Ruslpósturinn kostar ómælt fé sem leggst fyrst og fremst á móttakandann. Þessi kostnaður felst m.a. í kostnaði vegna tapaðra vinnustunda við flokkun ruslpósts frá öðrum pósti og kostnaði vegna aukinnar bandvíddar auk þess sem ruslpóstur opnar leiðir fyrir annað vafasamt efni sem fyrirtæki vilja ekki fá inn í tölvukerfin.

Um ruslpóstinn má finna nokkur dreifð ákvæði í íslenskum lögum, þ.e. í 28. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, í 14. gr. laga nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga, og að lokum þau ákvæði íslenskra laga sem sérstaklega lúta að þessu í 46. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti.

Samkvæmt 46. gr. fjarskiptalaganna er notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa eða tölvupósts fyrir beina markaðssetningu einungis heimil þegar áskrifandi hefur veitt samþykki sitt fyrir fram. Þrátt fyrir þetta ákvæði er heimilt að nota tölvupóstfang við sölu á vörum eða þjónustu fyrir beina markaðssetningu á eigin vörum eða þjónustu ef viðskiptavinum er gefinn kostur á að andmæla slíkri notkun tölvupóstfanga þeim að kostnaðarlausu þegar skráning á sér stað og sömuleiðis í hvert sinn sem skilaboð eru send hafi viðskiptavinurinn ekki þegar í upphafi hafnað slíkri notkun. Að öðru leyti en hér segir eru óumbeðin fjarskipti í formi beinnar markaðssetningar óheimil til þeirra sem óska ekki eftir að taka á móti þeim. Þessi grein er í samræmi við 13. gr. persónuverndartilskipunar Evrópusambandsins.

Það sýnir vel vandann sem við er að etja að þrátt fyrir að lögin geri ráð fyrir að móttakandi póstsins geti andmælt notkun póstfangsins til markaðssetningar þá ráðleggja sérfræðingar á þessu sviði frá því að það sé gert þar sem það sýni sendandanum að póstfangið sé virkt og þá verður það verðmætara í skiptum við aðra í svipaðri markaðssetningu. Úrræðið virðist felast í því að eyða póstinum eða notkun ruslasíu eða sambærilegrar þjónustu frá internetsþjónustu. Hér á landi sem erlendis starfa fjölmargir við það eitt að hanna hugbúnað og/eða síur til þess að halda ruslpósti utangarðs.

Vandinn er því vissulega fyrir hendi og ekki auðveldur viðureignar.

Hv. þm. spurði, með leyfi forseta:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir lagasetningu til þess að setja skorður við óumbeðnum sendingum auglýsinga í tölvupósti?``

Þær lagaheimildir sem nefndar voru hér í upphafi duga ágætlega gagnvart pósti af innlendum uppruna. En gagnvart pósti erlendis frá breyta þær litlu. Grundvallaratriðið hér er að vandinn er að mestu utan seilingar íslenskrar löggjafar. Innlendi þátturinn virðist hverfandi lítill. Eina úrræðið er hnattræn samvinna til að takast á við að takmarka og uppræta ósómann. Innan Evrópusambandsins er verið að koma á koppinn stofnun til þess að annast net- og upplýsingaöryggi, European Network and Information Security Agency, skammstafað ENISA. Stofnuninni er ætlað að samræma aðgerðir innan Evrópusambandsins á þessu sviði og þar með varðandi ruslpóst.

Samgönguráðuneytið er nú að huga að þátttöku Íslendinga í stofnuninni. Ráðuneytið hefur falið Póst- og fjarskiptastofnun að hafa yfirumsjón með öryggismálum í fjarskiptum og upplýsingatækni þar sem í ríkara mæli þarf að huga að rafrænum samskiptum í heild í stað rafrænna fjarskipta eins og hingað til. Stofnunin hefur nýverið ráðið starfsmann til að sinna þessum málaflokki sérstaklega. Svarið við spurningunni er því að ekki sé tilefni til að bregðast við þessum vanda með lagasetningu eins og er. En ég vil alls ekki útiloka það og ráðuneytið mun fylgjast grannt með þessu og reyna að tryggja hagsmuni notenda netsins eins og kostur er.