Kostnaður við að stofna fyrirtæki

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:48:12 (3593)

2004-01-28 18:48:12# 130. lþ. 52.12 fundur 393. mál: #A kostnaður við að stofna fyrirtæki# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:48]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson leggur fram fyrirspurn til viðskrh. um kostnað við að stofna fyrirtæki. Svarið er svohljóðandi, hæstv. forseti:

Kostnaður við að stofna fyrirtæki í ríkjum Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunar Evrópu, OECD, hefur verið misjafn og geta ýmsar skýringar verið á því, m.a. sögulegar. Er kostnaðurinn nú lægri en hér í nokkrum OECD-landanna en þau eru nú 30 talsins. Fyrst og fremst má hér líta til skráningargjalda sem renna til hins opinbera en grundvöllur slíkra gjalda hér á landi er lög um aukatekjur ríkissjóðs.

Fyrir allmörgum árum hækkuðu gjöld vegna skráningar hlutafélaga hér á landi úr 8 þús. kr. í 11 þús. kr., síðan í einu lagi upp í 100 þús. kr. og þar með talsvert umfram verðbólgu. Eftir að viðskrn. hafði skrifað fjmrn. bréf allnokkru síðar og lagt til að gjöld fyrir skráningu hlutafélaga og einkahlutafélaga yrðu lækkuð voru gjöld vegna skráningar einkahlutafélaga lækkuð úr 100 þús. kr. í 75 þús. kr. en gjöld vegna hlutafélaga voru hins vegar samtímis hækkuð úr 100 þús. kr. í 150 þús. kr. Síðan hafa gjöld vegna skráningar þessara félaga haldist óbreytt um nokkurra ára skeið og þar með farið lækkandi í reynd.

Hvað varðar svar við spurningu nr. 2 vil ég taka eftirfarandi fram: Viðskrn. hefur ekki gert frekari tillögur til fjmrn. um lækkun skráningargjalda hér á landi en að framan greinir og hefur ekki uppi áform þar að lútandi á næstunni. Helst má spyrja hvort gjöld fyrir skráningu hlutafélaga ættu að vera helmingi hærri en gjöld vegna skráningar einkahlutafélaga. Þess skal getið til mótvægis við hugmyndir um lækkun gjaldanna að raddir hafa komið fram, m.a. á hv. Alþingi, um að skráningar hlutafélaga og einkahlutafélaga hér á landi séu fleiri en góðu hófi gegni og ein leiðin til að sporna við slíku sé að hafa gjöldin há, m.a. til að sporna við kennitöluflakki en stofnuð eru ný félög í ýmsum tilgangi og fá þau nýja kennitölu.

Við mat viðskrn. á því hvort gera eigi tillögur um lækkun skráningargjalda er haft sérstaklega í huga að til skamms tíma, a.m.k., hefur þurft að setja 150 þús. kr. tryggingu af hálfu opinberra aðila, einkum skattyfirvalda, þegar félög hafa verið send til gjaldþrotaskipta og hlýst af því talsverður kostnaður. Ýmis annar kostnaður leggst og til hjá opinberum aðilum, ekki einungis vegna skráningar félaga heldur nýrrar löggjafar á sviði eiginlegs félagaréttar, svo og á sviði ársreikninga og bókhalds, t.d. í kjölfar fjármálahneyksla erlendis.

Þess má geta hér að á Evrópska efnahagssvæðinu hafa verið settar reglur um Evrópufélög er gera evrópskum félögum, m.a. íslenskum, auðveldara og ódýrara að starfa saman. Jafnframt er unnið að reglum um samruna félaga í mismunandi ríkjum, einnig án þess að taka þurfi félög til skipta í einu ríki og stofna þau í öðru ríki, svo og að reglum um flutning skráðrar skrifstofu milli ríkja, en þær geta einkum gagnast litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Félagaskrár verða gerðar rafrænar á efnahagssvæðinu og gildir slíkt bæði um sendingu gagna til skránna og öflun gagna úr þeim. Þá verða settar reglur um fleiri tegundir evrópskra félaga til að auðvelda samstarf aðila á Evrópska efnahagssvæðinu.

Af Íslands hálfu er tekið þátt í vinnu þessari til að greiða fyrir starfsemi fyrirtækja á svæðinu, m.a. með lægri tilkostnaði.

Það skiptir máli fyrir þá sem stofna einkahlutafélög hvaða kröfur eru gerðar til lágmarksfjárhæðar hlutafjár. Eru strangari kröfur gerðar til lágmarksfjárhæðar hlutafjár í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Til samanburðar var hins vegar nefnt að í Bretlandi er ekkert lágmark, sérkröfur um meira lágmarksfé kunna að vera gerðar fyrir sérstök fyrirtæki, t.d. banka.

Þetta var nú það sem ég vildi segja, hæstv. forseti, sem svar við fyrirspurn hv. þingmanns.