Breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 16:06:32 (3709)

2004-02-02 16:06:32# 130. lþ. 54.94 fundur 283#B breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ærið áhyggjuefni sem hv. málshefjandi kom inn á að sjávarútvegurinn er, með nýlegum eignabreytingum í fyrirtækjum og með því að Eimskipafélagið eða Burðarás gegnum Landsbankann hverfur út úr sjávarútveginum með um 20 milljarða króna, að hnýta sér umtalsverðar auknar skuldabyrðar. Stór hluti þessa kaupverðs sem þarna var reitt fram á fáeinum sólarhringum til handa fyrri eigendum endar á herðum þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem keyptu sem skuldir, og eru þó rekstrarskilyrði sjávarútvegsins býsna þung fyrir um þessar mundir með sterku gengi krónunnar, með háum vöxtum og með heldur veikari stöðu á mörkuðum en verið hefur um skeið. Auðvitað bitna þessar almennu efnahagsaðstæður á fleiri greinum eins og ferðaþjónustu, samkeppnisiðnaði og möguleikum til nýsköpunar í atvinnulífi en vandi sjávarútvegsins er ekki betri né minni fyrir það.

Ég vil taka fram að kaupendurnir nú eru traustir aðilar og að sjálfsögðu vonar maður allt hið besta fyrir þeirra hönd og þeirra byggðarlaga sem þarna áttu í hlut en þessir nýliðnu atburðir eru okkur auðvitað aðeins enn ein áminningin um að meðan það fyrirkomulag er við lýði varðandi stjórn fiskveiða, að á sé kvótakerfi með fullkomlega frjálsu framsali veiðiheimilda án nokkurrar tengingar við byggðirnar án þess að nokkurt umtalsvert öryggisnet sé undir þessu hvað varðar hinn lífsnauðsynlega aðgöngumiða að auðlindinni, verður þetta viðvarandi ástand og á ekki að þurfa að koma neinum á óvart. Það má helst segja að það sé nýtt í stöðunni nú að jafnvel stærstu staðirnir eins og Akureyri og Akranes vakna upp við það að ekki einu sinni þeir eru öryggir í þessu kerfi. Þegar farið er að horfa fyrst og fremst til upplausnarvirðis fyrirtækjanna, innanfitunnar í þeim, er ekki von á góðu, herra forseti. Ég held því að menn verði að sjá þessa hluti í samhengi og svara því hvort þeir vilja hafa þetta svona um aldur og ævi, hafa þetta sverð hangandi í loftinu yfir byggðarlögunum og íbúum þess eða gera þar einhverjar breytingar á.