Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 18:13:07 (3746)

2004-02-02 18:13:07# 130. lþ. 54.7 fundur 480. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (EES-reglur, fjárfestingar o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fyrir þrem til fjórum áratugum var mikill skortur á lánsfé á Íslandi. Neikvæðir vextir brenndu upp innstæður í bönkum. Þá voru stofnaðir bankar. Þá voru stofnaðir sparisjóðir. Og þá voru meira að segja stofnaðir lífeyrissjóðir, ekki til þess að veita lífeyri, heldur til þess að nálgast lánsfé. Aðalhlutverk lífeyrissjóðanna fyrst til að byrja með, því miður, var að útvega sjóðfélögunum lánsfé. Það var meira að segja markmiðið með stofnun þeirra. Og líka sparisjóðanna, herra forseti.

Þetta hefur breyst. Nú er allt yfirfljótandi í peningum. Það er ekki lengur þörf á því að stofna banka, sparisjóð eða lífeyrissjóð til þess að nálgast lánsfé. Það sem við horfum upp á í dag er afleiðing af þeirri breytingu sem ég held að sé mjög jákvæð, að fólk geti fengið lán hvar sem er.

Ég vil minna hv. þingmann á það að stærstu hluthafar í Íslandsbanka, Kaupþingi, og meira að segja einn stór hluthafi í Landsbankanum, eru lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóðirnir eru þegar, herra forseti, í bankastarfsemi sem stórir hluthafar. Þeir ráða meira að segja stórum hluta stjórnar Íslandsbanka, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og fleiri.

Varðandi það að lána til sjóðfélaga sinna eru 65% mörkin einmitt sett til þess að gæta öryggis. Og ég vil minna á það að fyrir nokkrum árum ákváðu stjórnir lífeyrissjóðanna að fjárfesta mikið í útlöndum en gættu ekki að sér sem skyldi og töpuðu miklu. Ég held að það sé ágætt að hafa ákveðin öryggismörk fyrir þá og ég vil minna á að margir lífeyrissjóðir hafa brennt sig illilega á því að lána til fyrirtækja í heimabyggð. Því miður.