Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 16:27:46 (3960)

2004-02-09 16:27:46# 130. lþ. 60.3 fundur 552. mál: #A Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra# (gjaldtaka o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hæstv. ráðherra þá svo að þetta mál, að auka þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði barna, sé það mál sem hæstv. ráðherra vilji setja í forgang. Vinna er hafin í ráðuneytinu til þess að undirbúa það og ráðherra mun, eins og hann getur, reyna að fylgja málinu eftir við næstu fjárlagagerð. Ég fagna þeim svörum og mun auðvitað fylgjast mjög náið með því hvernig þeirri vinnu vindur fram og að við það verði þá staðið að hægt verði við næstu fjárlagagerð að auka þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði barna, og þá væntanlega flutt um það frv. Ég vil síður að Alþingi felli það frv. sem ég hér er með á dagskrá þar sem ráðherrann talar það jákvætt um að breyta þessu síðar. Ég mun þá ekkert sérstaklega óska eftir því að málið komi til afgreiðslu úr nefnd, heldur gefa ráðherranum tækifæri til þess að vinna málið með þeim hætti sem hann hefur hér lýst yfir.