Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 16:44:17 (3965)

2004-02-09 16:44:17# 130. lþ. 60.6 fundur 85. mál: #A styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, 1. flm. till. til þál. um styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum, á heiður skilinn fyrir þáltill. sem hér hefur verið flutt og aðrir meðflutningsmenn sem eru fjölmargir. Ég hefði mjög gjarnan viljað skrifa upp á þáltill. en man að ég var ekki heima þegar hún var kynnt.

Ég kem hingað til að lýsa miklum stuðningi við málið en undrast jafnframt að þetta skuli ekki fyrir lifandi löngu vera komið í framkvæmd hjá okkur í því velferðarþjóðfélagi sem við vitum auðvitað að Ísland er þó að okkur greini stundum á um leiðir. En að þetta skuli ekki vera komið til framkvæmda er náttúrlega mjög undarlegt mál, ég tala nú ekki um þegar horft er til þess hvernig nágrannaþjóðir okkar sem við berum okkur mikið við, Norðurlöndin, hafa gert þetta. Ég trúi því að það hafi byrjað fyrr en 2001 þó það komi fram í greinargerð hvernig þetta er árið 2001--2003 eftir löndum. Eins og kom fram hjá hv. flm. geta þetta verið styrkir sem nema frá 170.000--400.000 kr.

[16:45]

Það er undarlegt að við skulum í byrjun árs árið 2004 vera að færa þetta mál í tal hér og að þetta skuli ekki vera fyrir löngu komið til framkvæmda eins og ég sagði áðan. Þetta er að sjálfsögðu mikið sanngirnismál. Eins og hér kemur fram er það vafalaust æðsti draumur allra hjóna að eignast börn en því miður geta það ekki allir á hefðbundinn hátt og þó að læknavísindin hafi getað hjálpað mjög mörgum með tæknifrjóvgun og öðru dugar það ekki alltaf til. Þá er gripið til þess ráðs sem hér er fjallað um að foreldrum er gert kleift að ættleiða börn frá útlöndum eða innan lands, en eins og hér kemur líka fram eru það ekkert allt of mörg börn, e.t.v. sem betur fer, á Íslandi sem hægt er að fá til ættleiðingar en það hefur færst mjög í vöxt frá útlöndum og nefnd hér lönd sem talin hafa verið upp og nú sérstaklega frá Kína. Að þetta séu 15--24 börn að meðaltali á ári, eða alls um 400 börn sem ættleidd hafa verið til Íslands er náttúrlega alveg frábært vegna þess að við skulum hafa það í huga líka að það er ekki eingöngu mikil gleði sem það færir þeim foreldrum sem gefst kostur á því að fá að ættleiða barn, heldur hefur líka oft og tíðum í þeim tilfellum viðkomandi barni verið bjargað frá mikill örbirgð í viðkomandi landi og mætti óska sér þess að það væru fleiri börn sem væru eins heppin og þau börn sem hingað hafa verið ættleidd.

Hér er fjallað um þann mikla kostnað sem af þessu hlýst. Talað er um að hann geti verið um ein millj. kr. og ég er viss um að hann er ábyggilega meiri en hér er fjallað um ef allt er tekið til, bæði hvað varðar lögfræði- og dómskostnað, ferðakostnað og annað, uppihald barns o.þ.h. Og við vitum auðvitað og höfum heyrt um dæmi þess að fólk þarf að leggja á sig langt ferðalag, ekki eingöngu annað foreldrið, heldur bæði oft og tíðum og yfirleitt og af þessu hlýst mjög mikill kostnaður. Þess vegna segi ég að það er mikið sanngirnisatriði að þjóðfélagið taki þátt í þessum mikla kostnaði, þó svo hann verði náttúrlega aldrei allur greiddur af viðkomandi ríkisvaldi, en eitthvað í takt við það sem gert hefur verið í nágrannalöndum okkar.

Ég segi þetta kannski líka alveg sérstaklega vegna þess að það má ekki vera þannig að þetta sé eingöngu kleift þeim sem efnameiri eru í þjóðfélaginu. Það verður að sjálfsögðu líka að gera fólki sem hefur minna fé milli handa kleift að geta ættleitt börn. Ég var að hugsa um það meðan hv. þm. var að flytja þetta mál, að hjón sem vilja ættleiða börn og þurfa að leggja út í milljón króna kostnað við það, þurfa að hafa töluvert miklar árstekjur til að eiga eina milljón eftir fyrir utan hefðbundinn rekstur heimilisins og annað slíkt til þess að geta tekið þátt í þessu.

Virðulegi forseti. Í raun og veru á ekki að þurfa að hafa mörg orð um það sjálfsagða mál sem hér er flutt, og það er verst að hæstv. dómsmrh. skuli ekki vera hér og hlusta á þessa umræðu vegna þess að lagt er til að dómsmrh. verði falið að setja reglur um þetta. Ég vildi segja við hæstv. dómsmrh. að hann ætti að taka þetta mál upp á arma sína og flytja það til ríkisstjórnarinnar að finna á því flöt sem allra fyrst að setja slíkt styrkjakerfi í gang eins og gert er og vitnað er hér til í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Það kemur auðvitað upp í huga minn, virðulegi forseti, að í þeim þjóðfélögum sem hér eru talin upp hafa jafnaðarmenn að sjálfsögðu ráðið miklu og þeir hafa vafalaust átt sinn þátt í því eins og aðrir flokkar, samstarfsflokkar, að koma þessu á. Hins vegar tek ég líka eftir því að í velferðarþjóðfélaginu Svíþjóð þar sem jafnaðarmenn hafa yfirleitt stjórnað, er þessi styrkur hæstur. Og þó svo að jafnaðarmenn á Íslandi séu dreifðir um alla flokka, eins og við tölum stundum um á hátíðarstundum, vil ég trúa því og treysta að slíkir jafnaðarmenn finnist í ríkisstjórninni í dag og sérstaklega kannski í hæstv. dómsmrh. og vil því segja það enn einu sinni og skora á hann að taka þetta mál upp á arma sína og fylgja því hér út, vegna þess að ég er viss um að fá mál á Alþingi mundu njóta jafnvíðtæks stuðnings og þetta mál ef það kæmi með reglum og fjárlagabeiðni til Alþingis.

Síðan rétt í lokin, virðulegi forseti, vil ég þakka Verkalýðsfélagi Húsavíkur sem hefur sent frá sér ályktun í þessa veru sem er um það að opna augu ráðamanna fyrir því ótrúlega óréttlæti sem viðgengst gagnvart þeim sem vilja ættleiða börn. Þetta er ályktun sem ég tel að mörg fleiri verkalýðsfélög, stéttarfélög og önnur félög ættu að taka til sín og senda frá sér vegna þessa réttlætismáls. En rökstuðningurinn er eins og fram kemur m.a. í ályktun verkalýðsfélagsins sá að heilbrigðiskerfið verður auðvitað fyrir margvíslegum kostnaði vegna barneigna. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að það standi líka að þessum kostnaði og veiti styrki til ættleiðinga eins og hér er fjallað um.

Virðulegi forseti. Ég kem upp til þess að lýsa yfir miklum stuðningi mínum við þetta mál og þakka hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir að hafa flutt það inn á Alþingi.