Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 16:52:17 (3966)

2004-02-09 16:52:17# 130. lþ. 60.6 fundur 85. mál: #A styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við fjöllum hér um till. til þál. um styrki til foreldra til að ættleiða börn frá útlöndum. Hér er um mikið réttlætismál að ræða og ég vil þakka 1. flm. þess, Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrir frumkvæði í þessu máli. Ég tel að efni tillögunnar eigi víðtækan stuðning úti í þjóðfélaginu því það getur hver og einn fullorðinn litið í eigin barm og hugsað til þess hvernig barnleysi kemur við einstaklinga og fjölskyldur og hversu mikilsvert barnalán er hverjum og einum. Það er mjög auðvelt að setja sig í spor þeirra sem þrá að eignast börn en geta það ekki af einhverjum ástæðum og það er mjög ánægjulegt að fylgjast með þeirri tækni sem við búum yfir núna, tækni sem getur hjálpað fjölmörgum til þess að verða barna auðið. En nú háttar þannig til í náttúrunni að ekki er hægt að ráða við alla hluti og það getur verið lausn fyrir marga foreldra, verðandi foreldra, að eignast barn með þessum hætti, þ.e. ættleiðingu. Við skulum vera þakklát fyrir það að ekki eru mörg börn á Íslandi sem eiga einskis annars úrkosti en að verða ættleidd en að sama skapi tel ég að þau íslensku börn sem eru ættleidd og fá góða foreldra eigi þar láni að fagna rétt eins og þau börn sem verið er að ættleiða frá fjarlægum löndum.

Því miður er ástandið í heiminum þannig að víða ríkir hörmungarástand, sérstaklega fyrir börn og konur, þannig að það er hópur barna sem einskis annars bíður en að vera á stofnunum í reiðileysi eða í umsjá einhverra sem ekki geta talist fjölskylda, hvað þá að eiga foreldra. Það er til þessara landa sem Íslensk ættleiðing hefur leitað og ég tel það mikilvægt að við höfum félagsskap af þessum toga sem leiðbeinir foreldrum og sér um að ættleiðingar frá fjarlægum löndum og heimsálfum séu með réttum og lögmætum hætti. Því þar sem ríkar tilfinningar eru annars vegar er líka gróðavon, og því miður er mikil glæpastarfsemi í kringum ættleiðingar og því er mikilvægt að þeir íslensku foreldrar sem ættleiða börn frá fjarlægum löndum hafi slíkt félag til þess að styðjast við.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál. Þetta er réttlætismál. Og þar sem við búum á norðlægum slóðum og í flestum tilfellum er verið að ættleiða börn frá öðrum heimsálfum, frá löndum eins og Sri Lanka og Indónesíu og nú Kína, og Suður-Ameríku, þá er þetta kostnaðarsamt ferðalag og að auki hafa mjög margir þessara foreldra haft mikinn kostnað af ýmsum aðgerðum til þess að reyna að eignast barn með eðlilegum hætti áður en kemur til þessa úrræðis. Það er því mikilvægt að þessir foreldrar standi jafnfætis öðrum hvað kostnaðinn varðar a.m.k. Eins og hér hefur komið fram þykir það eðlilegt í nágrannalöndum okkar, Norðurlöndunum, að styrkja foreldra til þessara ferða og þá erum við eingöngu að tala um útlagðan kostnað varðandi ferðakostnaðinn.

Ég vona að áskorun Verkalýðsfélagsins á Húsavík og annarra verði til þess að styðja þessa þáltill. og að hún komi til afgreiðslu á þinginu en dagi ekki uppi í nefnd og fái ekki afgreiðslu eins og margar þáltill. þingmanna. Þetta er þáltill. af því tagi sem ég skora á stjórnarmeirihlutann að láta fá eðlilegan framgang í nefndinni og afgreiðslu á þinginu.