Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 16:57:58 (3967)

2004-02-09 16:57:58# 130. lþ. 60.6 fundur 85. mál: #A styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þuríði Backman að vonandi mun stjórnarmeirihlutinn taka vel í þessa prýðilegu tillögu sem flutt er að frumkvæði hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur.

Reynsla undangenginna ára bendir til þess að hv. þm. stjórnarliðsins hafi prýðilegan skilning á þessum málum. Á síðustu árum hefur tekist ákaflega góð samstaða á Alþingi Íslendinga um það að gjörbreyta því umhverfi sem ættleiðingar búa við. Þar hafa lagt gjörva hönd að verki bæði þingmenn stjórnarandstöðunnar og stjórnarliðsins. Ég vil sérstaklega nefna að það var mikil ánægja ríkjandi meðal þingmanna þegar hér fóru í gegn lög um ættleiðingar sem fólu í sér löngu tímabæra endurskoðun á tiltölulega gömlum og úreltum lögum um ættleiðingar. Mestu skipti þó að öllum líkindum samþykkt Haag-sáttmálans um ættleiðingar. Það gerði allt umhverfi þeirra miklu tryggara en áður og það ferli sem með þeim samningi er bundið í lög á líka að tryggja að ekki sé hægt með nokkrum hætti að vega að hag barnsins. Ég á við, virðulegi forseti, að Haag-sáttmálinn slær nokkuð vel í gadda að það á að vera mjög erfitt að fremja ólögmætt athæfi í tengslum við ættleiðingar. Hins vegar vitum við að því miður, víðs vegar um heim, grípa örvinglaðir foreldrar, væntanlegir, til örþrifaráða eins og þess að greiða með einhverjum hætti fyrir því með fjármagni að fá barn til ættleiðingar.

Það er ekki langt síðan við gátum lesið fregnir um það að í tilteknu landi í Suður-Ameríku væru ansi mörg börn beinlínis keypt eða fólki mútað til þess að fá þau í hendur miðlara sem síðan komu þeim í hendur væntanlegra foreldra. Það er ekki hægt að verja slíkt, þó að maður geti með vissum hætti skilið þær tilfinningar sem búa að baki. En Haag-sáttmálinn brýtur í blað að þessu leyti. Hann á að tryggja það að þau lönd sem eru aðilar að honum geri allt sem þau geta til þess að útiloka slíkt.

[17:00]

Virðulegi forseti. Sömuleiðis vil ég rifja upp að hér tókst árið 1996 ákaflega góð samstaða milli stjórnarandstöðu og þingmanna stjórnarflokkanna um að samþykkja lög sem útilokuðu alla þá mismunun sem þá var hægt að finna í þágildandi lögum og vörðuðu kjörbörn eða ættleidd börn. Í fyrsta lagi var fæðingarorlof lengt um mánuð og til jafns við þá foreldra sem eignuðust börn sín öðruvísi en með ættleiðingum. Sömuleiðis voru felld úr gildi lög sem beinlínis mismunuðu foreldrum hvað lífeyri varðaði eftir því hvort börn þeirra voru ættleidd eða ekki.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir nefndi hér þær ágætu undirtektir sem verkalýðshreyfingin hefur jafnan sýnt málefnum ættleiddra barna og ættleiðandi foreldra. Þá get ég ekki látið hjá líða að geta þess að Samtök almennra lífeyrissjóða breyttu reglum sínum sjálfviljug fyrir nokkrum missirum í þá átt að útrýma allri mismunun sem voru leifar gamals tíma og fólu í sér smávægilega mismunandi kjör að því er varðaði foreldra sem ættleiddu börn.

Það mál sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir og aðrir flutningsmenn þessarar þáltill. taka hér upp er ákaflega brýnt og það er sanngjarnt og það er réttlátt. Ég er þeirrar skoðunar að allir sem á annað borð fara í gegnum þá síu sem ættleiðingarlög og alþjóðlegir sáttmálar setja upp og fá leyfi til þess að ættleiða eigi að geta það án þess að kjör þeirra og efnahagslegar aðstæður hindri. Ég tala af nokkurri reynslu, virðulegi forseti. Ég veit sjálfur hvað það er dýrt að fara og sækja barn úr fjarlægum heimsálfum. Það er alveg hárrétt sem kemur fram í greinargerð þessarar tillögu að þetta kostar sennilega vel yfir 1 millj. kr. Það kostaði það a.m.k. 1994 og það kostaði það aftur árið 1998. Líkast til kostar það enn meira í dag.

Nú sé ég að ráðherra ættleiðingarmála, hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason, er kominn í salinn. Þess vegna þykir mér við hæfi að spyrja hæstv. ráðherra, sem hefur látið þetta mál til sín taka, hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar að með einhverjum hætti eigi að gera foreldrum auðveldara um vik að ættleiða með því að ríkið komi til móts við þá með einhverjum hætti. Það er fyrst og fremst með tvennum hætti sem það er mögulegt, þ.e. með beinum styrkjum eða með því sem þó er síðri kostur en væri þó ásættanlegur, að með einhverjum hætti væri hægt að nota þetta til frádráttar frá tekjuskattsstofni. Það var á sínum tíma hægt í einstökum skattumdæmum, en ekki lengur.

Af því að hæstv. dómsmrh. er í salnum og þekkir þessi mál finnst mér að það væri ákaflega gott fyrir þessa umræðu ef hæstv. ráðherra mundi segja álit sitt á þessu. Við sem erum í hópi þeirra sem höfum ættleitt lítum auðvitað á hann sem stuðningsmann í þessum efnum og ef hæstv. ráðherra hefur ekki hlýtt á fyrri hluta ræðu minnar þá er rétt að ég rifji það upp að ég var einmitt að lýsa því hversu vel hefði tekist til með samstöðu milli stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihlutans á hinu háa Alþingi í öllu því sem lýtur að málefnum ættleiddra barna og foreldra þeirra.

Virðulegi forseti. Ég styð þessa tillögu heils hugar og ég hvet til þess að sú samstaða sem hér hefur alltaf ríkt um þessi mál frá því að ég settist a.m.k. á hið háa Alþingi haldi áfram. Ég er sannfærður um að ráðherra ættleiðingarmála muni leggja sína þungu hönd að því verki.