Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 17:25:11 (3978)

2004-02-09 17:25:11# 130. lþ. 60.6 fundur 85. mál: #A styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum# þál., Flm. GÖg
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[17:25]

Flm. (Guðrún Ögmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka mjög fínar og málefnalegar umræður um þessa þáltill. og ég vil taka undir margt sem hv. dómsmrh. sagði um það hvar svona málum er best komið fyrir. Það var auðvitað eitt af því sem ég velktist mjög með þegar ég var með málið í smíðum. En vegna sérstöðu Íslenskrar ættleiðingar sem heyrir undir ættleiðingarlögin og dómsmrn. komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri alla vega best svona fyrsta kastið. Síðan mætti skoða útfærsluna nánar á Norðurlöndunum, hvort þetta mál ætti að fara undir Tryggingastofnun eða eitthvað annað. Þannig að mér finnst það vera svona örlítið tæknileg úrlausn. En við erum ekki að tala um mikla peninga, við erum að tala um kannski 10--12 milljónir á ári í styrki til foreldra ættleiddra barna.

Ég vil líka taka það fram vegna ræðu hv. þm. Péturs Blöndals að þessi prósess allur tekur auðvitað miklu lengri tíma en tvö, þrjú ár. Við erum yfirleitt að tala um 10--15 ára ferli þegar fólk fer og sækir sín börn. Þá er fólk líka búið að vera í ýmsum mjög kostnaðarsömum aðgerðum. Það er ekki eins og glasafrjóvgun sé ókeypis. Það er því mjög margt sem hangir á þeirri spýtu. En mér var vel kunnugt um viðhorf hv. þm. Ég vissi um það þegar ég ræddi þetta við hann og ég hef alltaf vitað um skoðun hans á þessu máli. Við erum í rauninni ekki að tala um mikla peninga á ári. Aðalatriðið er að við skoðum málið mjög opið í nefndinni og fáum umsagnir um það og að það sé viðurkennt. En ástæðan fyrir því að ég lét skoða Norðurlöndin sérstaklega, það eru auðvitað styrkir miklu víðar, bæði í Þýskalandi, Frakklandi og víðar en af því við höfum viljað hafa okkur inni í þessu norræna velferðarkerfi, það er það sem við höfum viljað mæla okkur við, þá var það ástæðan fyrir því að ég var með samanburðinn þar og kallaði fram þær upplýsingar.

Það er ýmislegt sem ég var ósammála í greiningu hv. þm. Péturs Blöndals um orsakir, af hverju allt í einu urðu svo miklu færri börn á Íslandi til ættleiðingar. Ég veit ekki hvort hann var að taka stórt upp í sig en það var náttúrlega tóm firra, ég vann sjálf á kvennadeildinni í 10 ár, en það hafa á síðustu 40--50 árum ekki verið nema eitt, tvö börn á Íslandi til ættleiðingar á ári. Og mjög mikið af ættleiðingum hefur auðvitað farið í gegnum fjölskyldur og fer þá aðrar leiðir. Það er nú bara einu sinni þannig. Og ég er nú t.d. ein af þeim, ættleidd sjálf. Þetta er oft bæði innan fjölskyldna, innan vinahópa og annað. Við erum auðvitað að tala um óskaplega fá börn, enda afskaplega erfitt í svona litlu samfélagi að láta barnið sitt frá sér og það skulum við alltaf hafa í huga.

En ég vil þakka mjög skemmtilegar og málefnalegar og fínar umræður. Og það væri mjög gaman að fá umsagnir um málið því það er einmitt þetta sem verið er að velkjast í vafa um, hvar sé best að staðsetja þetta. Ég held að maður eigi að byrja á því að staðsetja þetta hjá Íslenskri ættleiðingu, sem síðan gæti þróast út í það að vera inni í tryggingakerfinu eða eitthvað slíkt, og muna að hafa þetta þannig að þeir geti sótt um sem vilja. Ef fólk er gríðarlega efnað er ég ekki viss um að það kærði sig um að sækja um og mundi heldur ekki vilja láta skrá sig og láta kenna sig við slíkt.