Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 14:18:43 (3997)

2004-02-10 14:18:43# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega mundi ég kjósa að geta svarað hv. þm. skýrar en hér er gert. Ég get þó upplýst að umrædd skýrsla liggur fyrir í lokadrögum. Þingmaðurinn spyr hvort þess megi vænta að gerð verði grein fyrir henni fljótlega. Já, ég tel að við getum gengið út frá því að gerð verði grein fyrir niðurstöðum skýrslunnar fljótlega og þá tillögum til úrbóta.

Hvað varðar breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu þá hljótum við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að geta verið sammála um að það sé mikilvægt að fá aðila vinnumarkaðar og fleiri þá sem að málum koma til þess að fara yfir atvinnuleysistryggingalöggjöf okkar með það að markmiði að gera á henni þær umbætur sem nauðsynlegar eru. Við vitum það bæði, ég og hv. þm., og aðrir sem hér eru í salnum, að atvinnuleysi hefur því miður verið að þróast með þeim hætti hér á landi á undanförnum missirum og árum að ástæða er til þess að hafa áhyggjur af. Við sjáum að langtímaatvinnuleysi, atvinnuleysi þeirra sem eru án vinnu í sex mánuði eða lengur, er að aukast. Atvinnuleysi ungs fólks er sömuleiðis að aukast. Þetta eru breyttar aðstæður sem við þurfum að horfast í augu við og gera breytingar á atvinnuleysistryggingalöggjöf okkar með þetta í huga. Um það hljótum við að geta verið sammála og þarna er brýnt að vel sé vandað til verka.